fbpx
en
Menu
en

Móttökuáætlun

Móttökuáætlun

Samkvæmt reglugerð nr. 654/2009 ber framhaldsskólum að setja sér móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku.  Að því leyti sem tilefni er til gildir áætlunin einnig um íslenska nemendur sem dvalið hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í móðurmálinu.

Móttökuáætlun fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku

Bakgrunnur nemanda (sjá móttökuviðtal)

 

Umsókn og innritun nemanda

Sótt er um í gegnum vef Menntamálastofnunar (http://www.menntagatt.is). Umsækjendur geta fengið aðstoð brautarstjóra við umsókn ef þörf er á.

Samstarf við grunnskóla

Komi nemandi úr íslenskum grunnskóla fylgja einkunnir þaðan með umsókn. Ef þörf er á eru foreldrar/forráðamenn beðnir um að undirrita samþykkisyfirlýsingu um að skólinn megi óska eftir frekari upplýsingum frá grunnskóla.

Samstarf við aðra skóla eða aðila

Sveitarfélög og Rauði krossinn og fleiri aðilar geta verið bakhjarlar umsækjanda svo sem þegar um börn á flótta er að ræða og mikilvægt að skólinn sé í sambandi við þá aðila.

Íslenskukennsla, mat á kunnáttu

Í boði er námsbraut fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku sem hentar ákveðnum hópi umsækjenda. Aðrir þurfa að fá áfanga í íslensku sem annað mál (ÍSAN) samhliða almennu námi.  Þeir nemendur þurfa að taka ÍSAN (ekki ÍSAT)  á 3. stigi eða 4.stigi (5 feiningar). Ef nemandi hefur lokið námi á ákveðnu stigi,  er gert ráð fyrir að hann færist upp um stig en taki ekki ÍSAN áfanga stigi neðar.

Móðurmálskennsla

Skólinn býður ekki upp á nám í móðurmáli, en stöðupróf eru haldin í framhaldsskólum í hinum ýmsu tungumálum og geta nemendur tekið þau og fengið metið. Yfirleitt er um 2 – 3 fimm eininga áfanga að ræða

Móttökuviðtal

Brautarstjóri, skólastjóri eða náms- og starfsráðgjafi boða nýnema undir 18 ára og foreldra/forráðamenn hans í móttökuviðtal. Túlkur er kallaður til ef fjölskylda óskar og sér skólinn um að útvega hann. Í viðtalinu er:

  • aflað upplýsinga um bakgrunn nemanda og aðstæður hans svo skólinn geti mætt einstaklingsbundnum þörfum hans sem best.
  • lagt mat á íslenskukunnáttu og þar með hvort nemandi á heima á „nýbúabraut“ eða í almennu námi samhliða ÍSA-áföngum.
  • sagt frá starfsháttum skólans og skólareglum. Inna er kynnt og tryggt að foreldrar hafi aðgang að henni. Foreldrar eru hvattir til að hafa samband við skólann.
  • farið yfir þjónustu og stuðning sem stendur nemanda til boða s.s. náms- og starfsráðgjöf og námsaðstoð í námsveri.
  • sagt frá félags- og tómstundastarfi sem nemendafélög skólans standa fyrir.
  • skráðir áfangar í Innu í samræmi við íslenskukunnáttu og áhugasvið nemandans.
Einstaklingsnámskrá

Þegar þurfa þykir tekur nýnemi stöðupróf í íslensku til þess að meta í hvaða íslensku- eða ÍSA áföngum hann á að hefja nám. Námið fyrstu annirnar er skipulagt með nemanda í samræmi við hans áhugasvið, hæfni og getu. Einnig er metið hvort og þá hvernig námsver geti gagnast.

Upphaf skólagöngunnar

Þeir nemendur sem hefja nám á námsbraut fyrir nemendur með annað tungumál en íslensku, fá kynningu á skólanum í upphafi skólaárs, bæði hvað varðar húsnæði, aðsetur náms- og starfsráðgjafa, skólastjóra, námsvers, brautarstjóra og skólastarfið sjálft, brautina, Innu o.s.frv. Einnig er haldinn sérstakur kynningarfundur fyrir foreldra þessara nemenda.

Reglubundið stöðumat

Allir nýnemar hitta umsjónarkennara sinn reglulega fyrsta skólaárið, sem fylgir þeim vel eftir, fylgist með mætingum og árangri.

Námsmat og kröfur

Gerðar eru sömu kröfur til nemenda af erlendum uppruna og annarra nemenda. Þeir geta fengið ýmiss konar aðstoð s.s. að taka próf í námsveri og fá lengdan próftíma og munnlegt próf í stað skriflegs þegar við á. Í flestum tilfellum hafa þessir nemendur ekki lært norrænt tungumál og fá því undanþágu frá því námi, en taka aðra áfanga í staðinn.