Innan NST starfa bæði mörg skólafélög sem sinna félagslífi undirskólanna og nemendafélög sem vinna ákveðnum málaflokki, hagsmunum ákveðinna nemendahópa eða afmörkuðum viðburðum. Þessi félög starfa sjálfstætt en í samvinnu við NST að bættu félagslífi nemenda Tækniskólans.
Klúbbar eru hópar sem stofnaðir eru í kringum ákveðin áhugamál eða viðfangsefni. Klúbbar hittast reglulega og eru opnir öllum sem hafa áhuga á að taka þátt.
NTH samanstendur af nemendum Tækniskólans sem stunda nám í Hafnarfirði, sinnir hagsmunagæslu og skipuleggur viðburði sem fram fara í Hafnarfirði. Formaður NTH situr í miðstjórn NST sem fulltrúi nemenda í Hafnarfirði.
Allir nemendur eru velkomnir á viðburði NTH.
Málfundafélag Tækniskólans er leið nemenda inn í Gettu Betur og MORFÍs (mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi). MFT stendur fyrir inntökuprófum fyrir ofangreindar keppnir og áframhaldandi skipulag þeirra innan veggja skólans. Allir nemendur eru velkomnir í félagið og geta allir meðlimir boðið sig fram í stjórn þess.
Hinseginfélagið Heiður er hagsmunafélag hinsegin nemenda í Tækniskólanum. Heiður býður upp á viðburði og fræðslu handa öllum nemendum Tækniskólans. Félagið hefur starfað frá haustönn 2019 og er því yngsta nemendafélag Tækniskólans. Þátttaka á viðburðum félagsins er opin öllum áhugasömum, og eru allir nemendur hvattir til þess að kynna sér félagið og viðburði á vegum þess.
Í D&D klúbbnum hittast nemendur reglulega og spila Dungeons & Dragons og/eða önnur hlutverkaspil. Reglulegir fundir eru haldnir en auk þeirra hittast spilahópar eftir hentisemi og geta nýtt sér aðstöðu í skólanum og fengið aðgang að bókum, teningum og öðrum spilagögnum bæði hjá NST og á bókasafni skólans.
Allir eru velkomnir í klúbbinn og geta áhugasamir haft samband við félagsmálafulltrúa.