fbpx
Menu

Fréttir

14. febrúar 2018

Stefnumót á stórsýningu

Stefnumót á stórsýningu

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins, í samstarfi við Verk og vit býður nemendum í 10. bekk á stórsýninguna Verk og vit 2018 í Laugardalshöll 9. mars næstkomandi.

Með þessu vill Tækniskólinn kynna nemendum þau tækifæri sem skólinn hefur upp á að bjóða og um leið atvinnumöguleika iðnaðarins. Heimsóknin verður á skólatíma, föstudaginn 9. mars kl. 10:30–13:30 og verður dagskrá með tímaáætlun send út á hvern þann skóla sem þiggur boðið.

Byrjað er á 10 mínútna kynningu þar sem fulltrúar Tækniskólans kynna fölbreytt námsval og félagslíf í Tækniskólanum. Að því loknu er nemendum boðið að skoða sýninguna, í fylgd með kennurum/fulltrúum frá viðkomandi skóla. Sýnendur eru meðvitaðir um heimsóknina og mikilvægi hennar. Kennurum/fulltrúum verður bent á þá sýnendur sem sérstaklega bjóða nemendur velkomna. Þar kynna þeir starfsemi sína ásamt því að benda á fölbreytilega iðnmenntun henni tengdri.

Skráið hópinn ykkar í heimsókn

Heimsóknin er skólunum að kostnaðarlausu – en skilyrði er – að með hverjum 12 nemenda hópi sé einn kennari/fulltrúi skóla. Skrá þarf hópinn fyrir 25. febrúar, skráning fer fram HÉR.

Stórsýningin Verk og vit verður haldin í fórða sinn – dagana 8.–11. mars 2018 – þar munu yfir 100 fyrirtæki kynna starfsemi sína og þjónustu. Hún er ætluð framleiðendum og innflytjendum sem koma að bygginga- og mannvirkjagerð á ýmsum stigum, s.s. sveitarfélögum, verktökum, iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum, hönnuðum og ráðgjöfum.