fbpx
Menu

Nokkur mikilvæg atriði í umsóknarferlinu

 

Sækja þarf um rétta áfanga

Til að umsækjandi geti sótt um rétta áfanga á næstu önn þarf hann að vita hvar hann ert staddur í náminu. Gott er að prenta út annarskipulag brautarinnar sem umsækjandi er á (sjá námsskipulag) og merkja við þá áfanga sem nú þegar er lokið. Virkir nemendur geta séð námsferilinn sinn á INNU, undir „Námsferill/braut“ (athuga að skoða rétta námsbraut), en þar sjást allir þeir áfangar sem krafa er um að taka á brautinni, og hvort þeim er lokið eða ekki. Þegar brautum er skipt upp eftir réttindastigum er auðvelt að sjá hvaða áföngum er lokið/ólokið á sérhverju réttindastigi. Við val á áföngum er því heppilegt að horfa til þess að reyna að ljúka þeim áföngum sem þörf er á vegna einstakra réttindastiga (frekar en að velja áfanga sem eru á síðari önnum). Og ekki má gleyma að ljúka þarf almennum áföngum líka (hér eða í öðrum skólum), sérstaklega stærðfræði og ensku, því þeir eru undanfari fyrir ýmsa fagáfanga á efri önnum.

 

Áfangar nú með nýjum áfangaheitum

Áfangar í boði á næstu önn eru nær allir með nýjum áfangaheitum þannig að nemendur á eldri brautum þurfa að vanda valið á réttum áföngum. Áfangavörpunarlistar (sjá eldra námsskipulag) sýna hvernig eldri áfangaheiti breytast í nýju áfangana sem eru í boði á umsóknarvefnum. Stundum hafa áfangar sameinast og eru nú kenndir sem einn nýr áfangi í stað tveggja eldri, þetta er útskýrt í listunum.

 

Undanfarakröfur áfanga verða að vera uppfylltar

Mjög áríðandi er að gæta að því að kröfur um undanfara séu uppfylltar (sést á umsóknarvefnum þegar verið er að velja áfanga). Um nokkra undanfara getur verið að ræða, þarna birtast oft bæði ný áfangaheiti og gömul, og þarf að vera búið að ljúka annað hvort öllum áföngum með gömlu heitunum (nemendur á eldri brautum) eða öllum áföngum með nýju heitunum (nemendur á nýrri brautum). Ef í ljós kemur að umsækjandi hafi sótt um áfanga, eða verið skráður í áfanga, án þess að uppfylla undanfarakröfur, áskilur skólinn sér rétt til að hafna umsókn, breyta áfangavali eða fjarlægja áfanga úr umsókn.

 

Staðlotur í sumum áföngum

Þegar áfangi er að hluta eða í heild kenndur í staðlotum er nær undantekningarlaust skyldumæting í staðloturnar. Í Skipstjórnarskólanum og Véltækniskólanum geta staðloturnar verið ein, tvær eða þrjár á önninni, og almennt skipulagðar frá fimmtudegi til laugardags (getur verið styttri tími í einstökum áföngum eða skiptum). Umsækjendur verða að passa vel að sækja ekki um tvo eða fleiri staðlotuáfanga nema það sé alveg tryggt að staðlotur þessara áfanga séu aldrei á sama tíma. Sjá skipulag staðlota í dreifnámi Skipstjórnar- og Véltækniskólans fyrir haustönn og vorönn.

 

Kostnaður og greiðslumáti

Einungis er hægt að greiða með greiðslukorti, bæði er hægt að nota kreditkort og þau debetkort sem hafa greiðslunúmer. Skráningargjald er kr 12.000 (fyrir sérhverja umsókn) og einingargjaldið er 5.000 (auk efniskostnaðar í nokkrum áföngum).

 

Staðfesting á umsókn og tölvupóstur

Um leið og umsókn er send inn (staðfest) fær umsækjandi tölvupóst því til staðfestingar. Ef sá póstur berst ekki er áríðandi að umsækjandi kanni ástæður þess, svo sem að rangt póstfang hafi verið gefið upp, að póstur frá umsóknarvefnum lendi í ruslpósti, eða að umsókn hafi aldrei verið staðfest. Í póstinum er hlekkur á umsóknina til að umsækjandi geti skoðað umsókn eða breytt, s.s. breyta upplýsingum um sjálfan sig, breyta áfangavali (hægt að breyta því allt þar til umsókn er samþykkt) eða eyða umsókn (hætta við að sækja um). Ef staðfestingarpósturinn hefur ekki borist er hægt að skrá sig inn á umsóknarvefinn og fá sendan hlekk á staðfesta umsókn á ný.

 

Afgreiðsluferli umsókna (samþykkt/höfnun)

Byrjað verður að afgreiða umsóknir 4-6 vikum fyrir upphaf annarinnar. Við afgreiðslu er farið yfir hvort áfangaval í umsókn uppfyllir kröfur um áfangaval og undanfara. Ef engar athugasemdir eru gerðar verður umsókn samþykkt, annars er haft samband við umsækjanda og óskað skýringa eða leiðbeint um lagfæringu. Athuga að samþykkt umsóknar þýði ekki að öruggt sé að áfangi fari í gang, yfirleitt verður að nást í lágmarksstærð á hópi fyrst. Ef umsókn er gerð ógild eða hafnað er það vegna þess að umbeðnir áfangar verða ekki kenndir (ónóg þátttaka), þeir eru fullbókaðir eða ekki tekst að taka greiðslu af korti.

 

Greiðsluferli umsókna – innritun

Laust fyrir upphaf annar (dagsetning tilgreind á umsóknarvef) verður gerð úttekt af greiðslukorti samþykktra umsókna sem greiðsla fyrir þá áfanga sem hægt er að innrita umsækjanda í á þeirri stundu. Ef ekki tekst að taka greiðslu af korti er það reynt í 5 virka daga en þá er umsókn gerð ógild. Ef umsækjandi lendir í bið inn í einn eða fleiri áfanga verður athugað reglulega á meðan innritun stendur yfir hvort það losni pláss, og ef það gerist verður gerð viðbótarúttekt af greiðslukorti fyrir áfangann/ana. Um leið og greiðsla berst hverju sinni er umsækjandi strax innritaður í viðkomandi áfanga. Í upphafi annar lýkur svo innritun og verður þá endanlega ljóst í hvaða áfanga umsækjandi hefur komist inn í. Alveg fram að greiðslu getur umsækjandi eytt umsókn sinni og jafnvel breytt henni (bæði bætt við og eytt úr ósamþykktum umsóknum, en bara eytt úr samþykktum umsóknum).

 

Úttekt af greiðslukorti virkar ekki

Ef ekki tekst að gera úttekt af greiðslukorti verður umsækjanda tilkynnt um það og önnur tilraun gerð til úttektar daginn eftir. Í millitíðinni gefst umsækjanda tækifæri til að tryggja heimild á greiðslukortinu eða skipta um kort. Ef ekki næst að gera úttekt af korti eftir 5 virka daga er umsókn gerð ógild.

 

Engin endurgreiðsla

Athuga að áfangar eru ekki endurgreiddir, hvorki á meðan á innritun stendur né eftir að önn er hafin. Ef umsækjandi ákveður að hætta við umsókn þá verður það að hafa gerst áður en umsókn fer í greiðsluferlið.

 

Úrsögn úr áfanga eða námi

Ef umsækjandi kýs að hefja ekki nám í viðkomandi áfanga þrátt fyrir að hann hafi fengið inngöngu þá getur hann skráð sig formlega úr áfanganum innan 14 daga. Það er gert með því að tilkynna skrifstofu skólans eða skólastjóra skriflega (með tölvupósti). Eftir að úrsagnarfresti lýkur er nemandi skráður í áfangann þar til honum lýkur með falli í lok annar.

Uppfært 2021-03-15