Menu

Saga

Flugskóli Íslands – sagan

Flugskóli Íslands er elsti starfandi flugskóli landsins, sem kennir til bóklegrar og verklegrar atvinnuflugmannsréttinda.  Frá stofnun hans hefur hann útskrifað yfir 800 nemendur með þau réttindi.

Stofnaður árið 1998

Flugskóli Íslands ehf. var stofnaður sumarið 1998 með lögum frá Alþingi. Markmið Flugskóla Íslands ehf. var frá upphafi var að kenna, samkvæmt þáverandi Evrópureglum JAA og síðar eftir reglum Flugöryggisstofnunar Evrópu (EASA), flug frá grunni til atvinnuflugmannsréttinda, einnig endurmenntun flugmanna.

Til að uppfylla þessi skilyrði, sem eru mjög ströng, þarf skólinn að fylgja reglum EASA í hvívetna og miða allar handbækur skólans og vinnureglur að því. Samgöngustofa veitir skólanum kennsluleyfi að þessum skilyrðum uppfylltum. Samgöngustofa annast síðan eftirlit með yfirferð handbóka, úttektir ásamt reglulegum úttektum frá úttektarteymi EASA. Ástæða þessa er að skírteini útgefin af Samgöngustofu eru fullgild í á fjórða tug landa ólíkt því sem áður var.

Í lok árs 2006 eignaðist Íslenska menntafélagið ehf. Flugskóla Íslands ehf.,  en Íslenska Menntafélagið átti Fjöltækniskóla Íslands hf.. Þar með varð Flugskóli Íslands ehf., hluti af Fjöltækniskóla Íslands ehf..  Flugskólinn Íslands ehf. fékk fyrst aðstöðu í húsnæði skólans að Háteigsvegi og síðar á Bæjarflöt 1-3.  Aðstaða skólans flutti haustið 2016 í Flatahraun 12 í Hafnarfirði.  Öll bókleg kennsla fer þar fram, auk þess sem skrifstofur skólans eru þar til húsa.  Verkleg kennsla fer fram á 3 stöðum; Reykjavíkurflugvelli, Háteigsvegi og í Árleyni (flugvirkjar).

Tengls við flugrekendur landsins

Flugskóli Íslands ehf. hefur verið með umtalsverð tengsl við stærri flugrekendur landsins, s.s. Icelandair og Wowair, t.d við þjálfun öryggis- og þjónustuliða, ásamt leigu á þjálfunaraðstöðu til þeirra.  Einnig hefur Flugskóli Íslands miðlað kennsluefni og kennara til síþjálfunar flugmanna fyrir smærri íslensku flugrekendurnar Blue Bird Cargo, Ernir, Norlandair, Mýflugs og ISAVIA.   Hefur skólinn þjálfað flugmenn á þeirra vegum til bæði til tegundarréttinda s.s. Jetstream 31/32, Beechcraft Kingair 200, DHC6 Twin Otter og Boeing B-737, Boeing B-757/767, auk ýmiss konar sérnámskeiða.  Til þess að gera þetta mögulegt, gerði skólinn samning við Lufthansa Flight Training (dótturfyrirtæki Lufthansa) um útvegun kennsluefnis fyrir flugrekendur. Þetta efni hefur einnig reynst skólanum vel við almenna flugkennslu. Þá er skólinn með samninga um notkun flugherma erlendis til tegundarþjálfunar á flugvélar.   Íslensku flugfélögin eru traustur bakhjarl skólans og þaðan koma margir kennarar sem kenna bæði bóklega og verklega kennslu við skólann.

ALSIM flugaðferðaþjálfi

Flugskóli Íslands hf. tók nýjan og fullkominn ALSIM flugaðferðaþjálfa í notkun í byrjun ársins 2003. Þetta var liður í því að uppfylla samevrópskar JAA reglur, þannig að frá 2003 var hægt að ljúka öllu almennu flugnámi hérlendis.  Vorið 2012 endurnýjaði skólinn herminn með fullkomnari ALSIM ALX flugumferðaþjálfa. Helstu breytingar og uppfærslur voru þær, að í flugumferðaþjálfanum er nú hægt að þjálfa flugmenn fyrir allt flug frá smærri einshreyfils flugvél og fjölhreyfla flugvél, upp í meðalstærð þotna sambærilegum Boeing 737 og Airbus 319 þotum.  Flughermir skólans gerir okkur mögulegt að kenna áhafnasamstarf til undirbúnings tegundarþjálfunar á stærri flugvélar. M.a. hefur Airbus flugvélaframleiðandinn hefur þannig viðurkennt nám við skólann til undirbúnings tegundarþjálfunar Airbus flugvéla.

Verkleg kennsla á Reykjavíkurflugvelli

Verklega kennslan fer fram á Reykjavíkurflugvelli, þar sem öll aðstaða er eins og best verður á kosið bæði fyrir kennara og nemendur. Flugflotinn var endurnýjaður að miklu leyti um árið  2000, með tilkomu nýrra Cessna 172SP véla, sem allar eru fjögurra sæta. Flugvélar þessar eru af nýrri kynslóð kennsluflugvéla frá Cessna verksmiðjunum. Þær eru allar búnar 180 hp hreyfli og verulegar endurbætur hafa verið gerðar frá eldri kennsluvélum. Árið 2015 tók skólinn í notkun 5 nýjar ítalskar flugvélar af gerðinni TECNAM P2002-JF tveggja sæta flugvélar, þetta eru nýjustu kennsluflugvélar landsins og mjög vel tækjum búnar. Skólinn hefur einnig yfir að ráða Piper Seminole tveggja hreyfla kennsluflugvélar, auk C-152 einshreyfils kennsluflugvéla.

Flugklúbbur

Flugskóli Íslands ehf starfrækir einnig flugklúbb sem ætlaður er þeim nemendum og viðskiptavinum skólans sem hafa amk. einkaflugmannsréttindi og vilja hafa aðgang að flugvélum til tímasöfnunar eða til skemmtunar á lægra verði. Klúbburinn hefur til umráða bæði 2ja og 4ra sæta en þær eru eingöngu fyrir klúbbmeðlimi og eru ekki notaðar til flugkennslu.

Það er von okkar að sem flestir sem áhuga hafa á flugi og flugnámi komi til Flugskóla Íslands og kynni sér hvað skólinn hefur upp á að bjóða og láti drauminn um flugnám rætast.

Eigendur og stjórn

Flugskóli Íslands er í eigu Tækniskólans ehf.  Tækniskólinn var stofnaður árið 2008 þegar Iðnskólinn í Reykjavík og Fjöltækniskólinn sameinuðust. Skólinn er stærsti framhaldskóli landsins og byggir á langri og merkri sögu sem tengist atvinnulífi landsins á marga vegu.

Tækniskólinn er einkarekinn skóli og er rekstrarfélagið í eigu aðila atvinnulífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi,Samtaka iðnaðarinsSamorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.

Tækniskólinn er rekinn eftir annarri hugmyndafræði en tíðkast hefur í skólarekstri hérlendis, sem m.a felst í því að stofnaðir hafa verið 8 undirskólar sem hver um sig hefur sérstakan skólastjóra og  faglegt sjálfstæði. Við skólana starfa sérstök  fagráð þar sem saman koma fulltrúar atvinnurekenda, launþega og fagkennara í hverri grein.

Tækniskólinn tekur sérstakt mið af nýjum framhaldsskólalögum í þróun skólans og stefnir að því að aðlaga nám í skólanum að þeim möguleikum sem ný lög bjóða.

Flugskóli Íslands er einn af 9 undirskólum Tækniskólans. Flugskóli Íslands starfar samkvæmt samevrópskum reglum um flug og hefur því leyfisveitingu sem flugskóli frá Samgöngustofu, sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið.