Ef þú vilt fá viðtal við Benedikt Braga sálfræðing er hægt að fá fjarviðtal með símtali eða í gegnum Köruconnect en einnig er hægt að fá hefðbundið viðtal á skrifstofu. Viðtalspantanir fara fram í gegnum Innu.
Ekki hika við að hafa samband, sálfræðiþjónusta Tækniskólans verður opin öllum eins og venjulega, en með eilítið breyttu sniði. Auk þess sem nemendur geta mætt á skrifstofu í hefðbundið viðtal verður hægt að velja um fjarviðtal. Nemendur geta þá valið um að fá símtal eða myndsímtal í gegnum Köruconnect. Tímapantanir fara fram í gegnum Innu. Þegar viðtal er bókað í Innu er hægt að skrifa athugasemd og þar á að taka fram hvort viðkomandi vill mæta á skrifstofu, fá símtal eða myndsímtal. Ef spurningar vakna um fyrirkomulagið er sjálfsagt að hafa samband í síma 514-9083 eða með því að senda tölvupóst á [email protected]
Við þurfum öll að vanda okkur við að fylgja ráðum almannavarna og landlæknis varðandi smitvarnir, reglur um sóttkví og fleira í þeim dúr. Góðar upplýsingar má finna á www.covid.is og einnig er hægt að fylgjast með upplýsingafundum í sjónvarpi. Ég hef rætt um veirufaraldurinn við nokkra nemendur að undanförnu. Ljóst er að þetta hefur misjöfn áhrif á okkur, sumir eru stressaðir, jafnvel óttaslegnir, aðrir eru afslappaðir og vilja jafnvel gera lítið úr faraldrinum. Við fáum skilaboð í fjölmiðlum um hve mikilvægt það sé að allir haldi ró sinni, sýni æðruleysi, en um leið dynja á okkur fréttir um svo og svo mörg smit, misjafnar tölur um dánartíðni o.s.frv. Hver og einn verður að huga að báðum þáttum, þ.e. taka leiðbeiningar um smit nægilega alvarlega, en um leið að huga að eigin líðan og minnka stress.
Þegar við erum stressuð og kvíðin er líkami okkar verr í stakk búinn til að takast á við sýkingar, okkur líður illa og okkur gengur verr að sinna störfum og námi. Hægt er að draga úr streituástandi með margvíslegum leiðum. Við viljum hugsa um jafnvægi, þar sem streituástand veldur ójafnvægi, til dæmis með of mikilli framleiðslu á hormóninu kortisól. Við náum betra jafnvægi með því að:
Rútína og athafnasemi er mikilvæg og holl fyrir okkur. Best getur verið að byrja hvern dag eins og um hefðbundin skóladag sé að ræða, jafnvel þó framundan séu kennslustundir á Teams. Vakna snemma, fara í sturtu, klæða sig, draga frá gluggatjöld, opna glugga, borða morgunmat o.s.frv.
Það er ekki nóg að hafa rútínu, athafnir verða að vera merkingarbærar. Hvað ætlum við að gera? Við verðum að setja okkur markmið, hafa stefnu. Markmið sem gefa lífinu tilgang – svo sem að klára tiltekið nám – hjálpa okkur að framkvæma það sem liggur fyrir að gera. Það sem þarf að gera getur stundum verið erfitt eða leiðinlegt, en í lok dagsins erum við ánægðari en ella. Prófaðu að skipuleggja daginn. Fylgdu stundaskrá þinni og vertu tilbúinn að fylgjast með kennslu í gegnum Microsoft Teams. Ákveddu hvenær þú vilt taka tíma til að læra heima, hvenær þú vilt hreyfa þig o.s.frv. Mundu að borða reglulega. Mikilvægt er að stunda félagsleg samskipti á hverjum degi; á tímum sem þessum auðvitað helst með hjálp síma, leikja eða samskiptaforrita, eða þá með því að hittast og passa upp á fjarlægðarmörk. Í lok dags er svo hægt að gera eitthvað skemmtilegt, horfa pínulítið á sjónvarp, spila tölvuleik eða álíka.
Það er mikilvægt að við hjálpumst að, tölum saman, styðjum hvort annað, saman komumst við í gegnum þennan faraldur á endanum. Lífið heldur áfram. Það er líka mikilvægt og gott að við hugum að því að við berum ábyrgð á okkur sjálfum, hvert og eitt. Hver og einn þarf að gera sitt til þess að passa upp á svefn, mataræði, hreyfingu og rútínu. Hver og einn þarf að koma sér upp skipulagi og fylgja því. Hver og einn þarf að spyrja sig að hvaða marki er stefnt, og hvernig má ná því. Þetta, ásamt því að draga úr stressi og kvíða, er til þess fallið að minnka líkur á depurð.
Gangi ykkur vel
Benedikt Bragi Sigurðsson,
sálfræðingur Tækniskólans