fbpx
Menu

Nemendur

Elín Pálsdóttir er að komast í spennandi starfsþjálfun

Elín Pálsdóttir, nemandi í kjólasaum á fataiðnbraut Handverksskólans hlaut Erasmus+ styrk, og er að byrja í starfsþjálfun hjá hollenska fatahönnuðinum Iris van Herpen.

Starfsþjálfun í kjólasaum

Elín Pálsdóttir, nemandi í kjólasaum á fataiðnbraut Handverksskólans, er að byrja í starfsþjálfun hjá hollenska fatahönnuðinum Iris van Herpen.

Iris van Herpen hefur meðal annars hannað fyrir Björk Guðmundsdóttur.

Það er mjög áhugavert fyrir nema í kjólasaum að fá innsýn í tískuheiminn með þessum hætti og virkilega spennandi að fá tækifæri til að starfa á vinnustofu Iris van Herpen í Amsterdam.

Á hverju ári sendir Tækniskólinn nemendur og kennara til annarra landa til að taka þátt í verkefnum og námskeiðum eða í starfsþjálfun tengda námi þeirra í Tækniskólanum.

Skólinn hefur hlotið gæðavottun fyrir alþjóðleg samstarf en ávinningur erlendra samskipta er m.a. að nemendur öðlast skilning í faginu á alþjóðlegum grunni og betri sýn á þau tækifæri sem bjóðast í tengslum við það.

Við hlökkum til að fylgjast með henni Elínu Pálsdóttur í framtíðinni. Hér er slóð á vefsíðu Elínar og þar eru myndir af verkum hennar, til dæmis myndir frá Unglist, https://www.elin-atim.com/

Elín segir okkur frá því hvernig hún fékk starfið:

„Haute Couture hönnuðurinn Iris van Herpen hefur heillað mig frá því ég sá haustlínuna hennar frá árinu 2011 í Fréttablaðinu. Öll litlu smáatriðin í hverri flík voru töfrandi, silúetturnar ýktar og efnisvalið óvenjulegt þar sem hún prentar mikið magn af efninu út í þrívíddarprenturum. Mér finnst virkilega skemmtilegt að fara óhefðbundnar leiðir og læra nýjar aðferðir til þess að koma mínum hugmyndum á framfæri. Þess vegna hefur það verið súrrealískur draumur frá því ég hóf námið mitt á fataiðnbraut, að taka starfsþjálfunina mína hjá þessum magnaða hönnuði.“

„Að láta draumana sína rætast er mikil vinna sem borgar sig 100%. Mesti tíminn fór í að búa til portfoli vefsíðu en ég nýtti allan þann frítíma sem ég átti á seinasta ári til þess að safna saman verkum eftir mig og byggja síðuna mína upp. Biðin eftir rafrænu svari fannst mér endalaus en í byrjun seinasta mánaðar fékk ég boð um að taka heilan prufudag hjá fyrirtækinu úti í Amsterdam.“

Hægt að ná hverju sem er bara ef viljinn er fyrir hendi.

„Þennan dag var mikið líf á vinnustofunni hennar. Andrúmsloftið var stútfullt af einbeitingu þar sem unnið var hörðum höndum við að þróa nýjar hugmyndir. Ólýsanlega sæt tilfinning. Mér var líka sagt að stór hluti flíkanna er unninn í höndunum og við það mynduðust stjörnur í augum mínum og fiðrildi í maganum.

Þetta var ógleymanleg lífsreynsla og á röltinu um götur borgarinnar áttaði ég mig á einu mögnuðu: það er hægt að ná hverju sem er, bara ef viljinn sé fyrir hendi. Það var nákvæmlega það sem ég gerði þennan prufudag. Ég fékk já við mínum stærsta draumi og hann byrjar 19. mars. Ég er svo spennt. Ég hlakka svo til að læra meira þar sem ég lærði svo margt þennan eina prufudag.“

 

Verkefni frá nemendum

Starfsnám í húsgagnasmíði

Námssamningur í París

Til Danmerkur í Húsgagnabólstrun

Klára námið í Skive

Útskriftarverkefni

Útskriftarverkefni

Ferð til Frankfurt

Um jafnrétti fyrir alla