fbpx
Menu

Vinnustaðanám

Vinnustaðanám

Samnings- eða skólaleið

Þann 1. ágúst 2021 tók gildi ný reglugerð um vinnustaðnám nr. 180/2021. Frá þeim tíma hefur Tækni­skólinn umsjón með sínum nemendum í vinnustaðanámi ásamt gerð og staðfestingu vinnustaða­náms­samninga.

Hæfnikröfur sem nemandi uppfyllir ræður tímalengd vinnustaðanáms. Fulltrúar skóla og vinnustaðar meta sameiginlega hæfni nemanda samkvæmt hæfnikröfum starfsins og hæfniþáttum í rafrænni ferilsbók. Vinnu­staða­nám getur þó aldrei orðið lengra en uppgefin tímamörk í námsbrautalýsingum viðkomandi greinar.

Vinnustaðanámi telst lokið þegar hæfni nemanda er náð samkvæmt ferilbók eða eftir að hámarks viku­fjölda viðkomandi brautar er náð.

Grunnreglan er áfram sú að nemendur sæki sitt vinnustaðnám undir handleiðslu meistara á vinnustað.  Jafnframt verður boðið upp á skólaleið fyrir þá nemendur sem fullreynt er að fá ekki pláss samningsleiðar  vinnustaðanáms.

 


Samningsleið

Í samningsleið er gerður samningur milli skóla, nemanda, og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um vinnu­staða­nám nemandans samkvæmt hæfnikröfum ferilbókar. Ekki er skilyrði að einn vinnustaður taki að sér alla þætti ferilbóka því geta tvö eða fleiri fyrirtæki skipt með sér verkþáttum ferilbókar og er náms­samningur er undirritaður í samræmi við það.

Samningurinn sem er rafrænn er gerður og undirritaður í ferilbók.

Nem­endur Tækni­skólans sem hafa staðfest samningspláss og óska eftir að hefja vinnustaðanám sækja um á inn­rit­un­arvef skólans.

 


Skólaleið

Í skólaleið er gerður samningur milli skóla, og iðnmeistara/fyrirtækis/stofnunar um vinnustaðanám nem­and­ans. Í skólasamningnum er kveðið á um inntak og fyrirkomulag þess vinnustaðanáms sem skal fara fram.

Skólasamningar milli fyrirtækis og skóla eru mismunandi og geta t. d. verið um að skólinn gerir samning við fyrirtæki:

  • um þjálfun nemenda í einstökum verkflokkum/verkþáttum ferilbókar
  • skólinn eigi fast pláss fyrir einstaka nemendur í ákveðinn tíma
  • og/eða fyrirtæki taki að sér nema í tiltekinn tíma í einstök verk samkvæmt ferilbók

Skólinn skipuleggur nám nemenda á einstökum vinnustöðum þar sem nemandinn vinnur að þeim verk­þáttum sem samið er um.

Skólaleið byggir á sömu hæfnikröfum ferilbókar og samningsleið. Skólaleið er leið til vara ef ekki fæst vinnustaður sem tekur nemanda að sér samkvæmt samningsleið en skilyrði fyrir skólaleið skal skóli hafa fullreynt að koma nemanda á iðnmeistarasamning samkvæmt samningsleið.

Ef samningspláss eru ekki til staðar fyrir nemendur til að ljúka öllum þáttum ferilbókar, mun skólinn bjóða upp á aðstöðu til þess að nemendur geti unnið sambærileg verkefni á vegum skólans. Sú viðbót er varaleið ef ekki gefst kostur á að nemendur geti lokið öllu námi á vinnustað samkvæmt samnings- eða skólaleið.

Unnið er að frekari útfærslu skólaleiðar allra brauta og framþróun þeirrar vinnu mun ráðast af framboði nemaplássa í hverju fagi og fjölda nemenda skólaleiðar.

Nemendur sem ekki hafa samningspláss undir lok náms í skóla geta sótt um að fara skólaleið.

Útskrifaðir nemendur Tækni­skólans sem ekki hafa samningspláss en óska eftir að hefja vinnustaðanám sækja um á inn­rit­un­arvef.

Fyrirtæki sem óska eftir að gera samning við Tækniskólann um að taka nemendur samkvæmt skólaleið eru hvött til að hafa samband við skólastjóra viðkomandi greinar.

 


Sjá vinnustaðanám – innritun
Sjá vinnustaðanám – fyrirtæki/meistarar/stofnanir

 

Uppfært 4. mars 2022