fbpx
Menu

Fréttir

05. mars 2018

Kennsla í rafveituvirkjun

Kennsla í rafveituvirkjun

Samvinna við Veitur um kennslu í rafveituvirkjun

Tekist hefur samvinna við Veitur um nýtingu búnaðar og kennslurýmis í eigu Veitna í Elliðárdal rétt hjá gömlu Elliðárvirkjun. Þar er búnaður til kennslu gagnvart umgengni við háspennu og rétt vinnubrögð gagnvart lífshættulegri spennu sem rafveituvirkjar þurfa að umgangast. Laugardaginn 3. mars fór fram fyrsta helgarlota í kennslu þar á staðnum.

Mikið framfaraskref

Engin spurning er í huga okkar hjá Tækniskólanum að þetta er stórt framfaraskref í kennslu í þessari grein og byggir upp betri þekkingu og styður vitund nemandans um mikilvægi réttrar umgengni við hættulegar aðstæður. Veitur sáu kennurum fyrir aðstoðarmönnum og var þessi helgarlota í alla staði mjög vel lukkuð. Við hjá Tækniskólanum færum Veitum okkar besta þakklæti fyrir stuðninginn og enginn vafi er á því að þetta samstarf er til hagsbóta fyrir alla sem að þessu koma.

Vandasöm umgengni við raforku

Undanfarin ár hefur rafveituvirkjun verið kennd sem ein grein ofan á rafvirkjun og eru rafveituvirkjar sérhæfðir í umgengni við háspennu. Eins og allir vita notar almenningur ekki nema 230 V spennu en flutningskerfi raforku getur borið allt að 400.000 V og þarf enginn að efast um að umgengni við raforku á slíkri spennu er vandasöm ef ekki á illa að fara.

Myndirnar sýna nemendur og kennara sem tóku þátt í þessari fyrstu helgarlotu í kennslurými Veitna.