fbpx
Menu

Kafli 10 – Skólanámskrá


Náms- og starfsráðgjöf

Við Tækniskólann starfa náms- og starfsráðgjafar. Markmið ráðgjafarinnar er að veita nemendum þjónustu í málum sem tengjast persónulegum högum þeirra, námi og náms- og starfsvali. Þá er námsráðgjafa ætlað að veita foreldrum, kennurum og öðru samstarfsfólki ráðgjöf í málum einstakra nemenda. Náms- og starfsráðgjafar eru bundnir trúnaði við skjólstæðinga sína. Innan skólans eru þeir málsvarar nemendanna.

 

Sálfræðingur

Við Tækniskólann starfar sálfræðingur og veitir sálfræðiþjónustu við nemendur, forráðamenn og starfsfólk. Nemendur geta meðal annars leitað til sálfræðings vegna tilfinningalegra erfiðleika, svo sem kvíða eða þunglyndis, vegna félagslegrar einangrunar, samskipta, félagsfærni, vinamála, sambandserfiðleika, fjölskyldumála, námstækni, skipulags, markmiðssetningar, vegna gruns um ADHD eða annarra raskana.  Sálfræðiviðtal getur verið fyrsta skrefið varðandi nánast öll vandamál og hugðarefni nemenda, sjá nánar á vef skólans.

 

Hjúkrunarfræðingur

Nemendum Tækniskólans býðst þjónusta hjúkrunarfræðings, sjá nánar á vef skólans.

 

Verkefnastjóri forvarnar- og félagsmála

Stefna Tækni­skólans er að styðja nem­endur í að setja sér skýr markmið í lífinu og vinna mark­visst að því að ná þeim. Við leggjum áherslu á lífs­hætti sem leiða til sjálfsvirðingar, sjálfs­stjórnar og árangurs. Starf verkefnastjóra forvarna- og félagsmála er hluti af framkvæmd þessarar stefnu.

Sjá nánar um forvarnarstefnu skólans og verkefnastjóra forvarnar- og félagsmála.

 

Farsældarlög – Farsæld barna og samþætt þjónusta

Unnið er að innleiðingu farsældarlaga í Tækniskólanum. Meg­in­markmið lag­anna er að tryggja börnum og for­eldrum, aðgang að samþættri þjón­ustu við hæfi án hindrana.

 

Viðbrögð og meðferð eineltis, áreitis og ofbeldismála

Í Tækniskólanum er lögð áhersla á góðan starfsanda, þar sem ríkir traust, trúnaður, jafnræði og hreinskilni milli allra starfsmanna. Starfsmönnum ber að temja sér kurteisi og háttvísi í framkomu og sýna hver öðrum tilhlýðilega virðingu og jákvætt viðmót.

Stefna Tækniskólans er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi og ótilhlýðileg háttsemi í hvaða mynd sem er, sé ekki liðið. Leita skal allra ráða til að fyrirbyggja slíkt og leysa þau mál sem upp koma á sem farsælastan hátt. Í skólanum skal lögð áhersla á að efla vitund starfsfólks og nemenda um mikilvægi jákvæðra samskipta og gera þau einkennandi í skólasamfélaginu, t.d. með fræðslu um jafnrétti.

Viðbrögð við einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi eru nánar skilgreind í VKL-107. Meðferð eineltis, áreitis- og ofbeildismála, sjá nánar VKL-412.

 

Námsver

Hlutverk námsversins er að þjónusta þá nemendur sem eiga við námserfiðleika af einhverju tagi. Í námsveri fá nemendur aðstoð við prófatöku og stuðning við heimanám sem og almenna aðstoð í grunngreinum. Einnig er hægt að leita til námsversins við verkefna- og ritgerðasmíð.

 

 

Uppfært 7. desember 2023

Áfangastjórn