Dreifnám er nám utan dagskóla sem sameinar kosti fjar- og kvöldnáms. Áfangi getur verið kenndur að öllu leyti í fjarnámi, að öllu leyti í staðbundnu námi eða að hluta í fjarnámi og hluta í staðbundnum lotum.
Í dreifnámi eru reglulega í boði fagáfangar af námsbraut til A-réttinda vélstjórnar (sem tilheyra líka málmiðngreinum og vélvirkjun) og fagáfangar sem nemendur í skipstjórn þurfa að taka. Áfangaframboð er mismunandi milli anna og útgefið fyrir eina önn í einu og fara áfangar í boð ef svigrúm gefst og í kennslu ef næg þátttaka næst (annars felldir niður í lok innritunartímabils).
Almenna námið á véltæknibrautum (raungreinar, íslensku og tungumál) má taka í fjarnámi í öðrum skólum og fá metið (sjá nánar um mat á námi).
Í staðlotum er verklegur hluti námsins kenndur og um leið fer gjarnan fram námsmat þannig að skyldumæting er í þær. Kennsla í staðlotum fer fram í Sjómannaskólanum Háteigsvegi og/eða við Flatahraun í Hafnarfirði.
Mikilvægt er fyrir nemendur, sem vinna þannig vinnu með námi að þeir komast ekki í staðlotur hvenær sem er, að kynna sér vel dagsetningar þeirra og velja áfangahópa sem hafa staðlotur á þeim dögum sem þeir komast frá.
Skoða lotuplan á haustönn 2024.
Opið er fyrir umsóknir í dreifnám seinnipart sérhverrar annar og er þá sótt um nám fyrir næstu önn á eftir. Auglýst er hér á vef skólans hvenær opnað er fyrir umsóknir. Athugið að fjöldi umsókna í einstaka áfanga ræður því hvort þeir fari af stað.
Bóklegur hluti námsins fer fram á kennsluvef skólans (INNU) en verklegur hluti þess í staðbundnum námslotum (staðlotum).
Á kennsluvef koma fram námsáætlanir og er lesefnið í mörgum tilvikum aðgengilegt eða tilvísun til þess (bóka og rafbóka), fyrirlestrar eru gjarnan birtir og kennslumyndskeið eru í mörgum tilvikum notuð.
Lögð eru fyrir verkefni og próf sem jafnframt er skilað á sama stað og allar einkunnir og upplýsingar til nemenda koma fram á kennsluvefnum.
Námsmat er fjölbreytt og er stöðugt verið að leggja mat á þekkingu nemandans á meðan á námi stendur með verkefnum og prófum. Prófin má í mörgum tilvikum taka utan skóla en einnig getur verið nauðsynlegt að mæta á viðurkenndan prófstað. Nánari leiðbeiningar um framkvæmd námsmats má finna hér.
Nemendur eru hvattir til að fylgjast vel með skiladagsetningum verkefna og prófa og gera ráðstafanir tímanlega varðandi próftöku.
Í byrjun árs 2017 var komið að því, ég ætlaði að gera eitthvað meira en bara vinna. Mig langaði að gera eitthvað sem ég hafði virkilega áhuga á. Var búinn að velta þessu fyrir mér í kannski tvö ár og svo sá ég auglýsingu á Facebook fyrir flugvirkjanám Tækniskólans. Auglýsingin poppaði auðvitað upp á mínum skjá því ég hef haft brennandi áhuga á flugvélum síðan ég var 4 ára og er með fullt að flugvélatengdum síðum á Facebook.
Ég sé ekki eftir að hafa sótt um þetta sérnám því ég kynntist fólki frá öllum stéttum samfélagsins. Fólk sem hafði mismikinn áhuga en vildi gera það sama og ég, finna sér eitthvað sem væri öðruvísi en þau höfðu verið að vinna við. Gaman var að fylgjast með þeim öllum fá aukinn áhuga fyrir þessum tækjum háloftanna með mér.
Námið er skemmtilegt og mjög fjölbreytt en á köflum ansi strembið og voru flestir kennararnir mjög færir að einfalda efnið fyrir manni. Það sem ég tek úr þessu er auðvitað námið og kunnátta mín að leysa vandamál en þessi tvö ár með bekkjarfélögunum stendur upp úr. Tveir mánuðir fyrir norðan á Akureyri í verklegu námi virkilega þéttu hópinn og er maður heppinn að hafa eignast svona marga vini.
„Fjölbreytnin í náminu er góður grunnur. Ég finn að ég stend betur að vígi en margir sem eru með mér í verkfræðináminu hér í Háskólanum.“
Vélstjórnarnámið er mjög fjölbreytt, inniheldur mikið af nytsamlegum upplýsingum og hefur frábæra kennara sem miðla þekkingu eins og þeim einum er lagið. Þetta nám opnar margar dyr og gerir að verkum að það er fátt sem að flækist fyrir manni í framtíðinni. Ég mæli eindregið með þessu námi ef að þú ert forvitin/n um virkni hluta og/eða viðgerðir.