Skólinn býður nemendum upp á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu og tekur Benedikt Bragi Sigurðsson sálfræðingur á móti nemendum og eftir atvikum aðstandendum. Tímapantanir fara fram í gegnum Innu og það er mjög einfalt og þægilegt að panta tíma. Nemendur geta valið sér þann tíma sem hentar og bókað sig án þess að þurfa að bíða eftir svari frá sálfræðingnum. Þegar pantað er í gegnum Innu er möguleikinn „panta viðtalstíma“ valinn, sem er neðst til hægri. Þá opnast felligluggi og þar er hakað við nafn sálfræðingsins – Benedikt Bragi Sigurðsson. Þá opnast listi yfir viðtöl og hægt að velja þá tímasetningu og staðsetningu sem hentar best. Algengast er að nemendur komi einir í viðtöl en hins vegar er alveg sjálfsagt að taka með sér vinkonu eða vin, foreldra eða aðra fjölskyldumeðlimi. Einnig er í boði fyrir foreldra að koma í viðtal án nemanda.
Benedikt sálfræðingur hefur starfsstöð í þremur húsum Tækniskólans. Hann er í skrifstofu 217 á annarri hæð á Skólavörðuholti, á jarðhæð á Háteigsvegi (gengið til hægri úr anddyri) og á 2. hæð við bókasafnið í Hafnarfirði. Nemendur eru vinsamlegast beðnir um að gæta þess að velja staðsetningu sem hentar þegar tími er bókaður.
Ástæða viðtals þarf ekki að tengjast skólanum eða náminu með beinum hætti. Nemendur geta leitað til sálfræðings vegna tilfinningalegra erfiðleika, svo sem kvíða eða þunglyndis, vegna félagslegrar einangrunar, samskipta, fjölskyldumála, námstækni, skipulags, vegna gruns um ADHD eða annarra raskana. Sálfræðiviðtal getur verið fyrsta skrefið varðandi nánast öll vandamál og hugðarefni nemenda. Í stuttu máli: það má alltaf prófa að bóka tíma hjá sálfræðingnum, það eru allir velkomnir.
Ef einhverjar spurningar vakna er sjálfsagt að senda Benedikt tölvupóst og hann svarar eins fljótt og hann getur: [email protected]
Nemendur sem eru 16 og 17 ára geta nýtt sér sálfræðiþjónustuna án aðkomu forráðamanna ef þeir kjósa svo, sjá frekari upplýsingar um það á vefsíðu umboðsmanns barna.
Sálfræðingur Tækniskólans er bundin trúnaði um það sem fram fer í viðtölum og fylgir einnig siðareglum Sálfræðingafélag Íslands en Benedikt er meðlimur í Sálfræðingafélaginu.
Við viljum benda nemendum á gagnabanka skólans en þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um andlega líðan, námstæki, áhugasvið, tímastjórnun og fleira.
Ég hvet þig, kæri nemandi, til að nýta þér sálfræðiþjónustu Tækniskólans. Ef þú nýtir þér þjónustuna og kemur í spjall þá skaltu ekki líta svo á að það sé eitthvað mikið að hjá þér. Allir glíma við einhver vandamál, það er ekkert sérstakt við það eitt og sér. Ef þú kemur í viðtal þá þýðir það hins vegar það að þú hefur kosið að axla ábyrgð á sjálfum þér og gera eitthvað í málunum. Það er styrkleiki.
Það er að mörgu að huga í daglegu lífi og allir fást við einhvers konar vanda eða geta bætt sig á einhverju sviði. Sem dæmi má nefna þá geta nemendur verið að fást við eitthvað af eftirfarandi: að ná ekki nægilega góðum svefni, hreyfa sig ekki nægilega mikið, borða óhollt, eyða of miklum peningum í mat, taka ekki til í umhverfi sínu, læra ekki heima, mæta ekki í tíma, lenda í árekstrum við annað fólk, upplifa sig einangraða, glíma við tilfinningavanda (kvíða, depurð o.s.frv.), skipuleggja sig ekki, setja sér ekki markmið, eyða of miklum tíma í tölvuleikjum, finna ekki tilgang í lífinu.
Allir þessir þættir hér að ofan eru eðlileg og algeng viðfangsefni ungs fólks, það er, það er algengt og eðlilegt að lenda í vanda af þessum toga og þurfa að finna lausnir. Þættir eins og þessir og fjölmargir aðrir í okkar lífi tengjast hver öðrum. Þess vegna getur vandi margfaldast, vandi á einu sviði fer að hafa neikvæð áhrif á öðru sviði. Að sama skapi getur árangur á einhverju sviði lífsins haft jákvæð áhrif á allt annað sem við gerum. Þess vegna erum við gjarnan stödd í jákvæðum eða neikvæðum spíral, hvort sem við áttum okkur á því eða ekki. Allir lenda í einhverjum vanda, það er óhjákvæmilegt. Þegar við lendum í vanda blasa við tvær leiðir og báðar geta við fyrstu sýn virst slæmar vegna þess að báðar leiðir eru erfiðar.
Önnur leiðin virðist þó kannski vera svolítið auðveldari, en hún er sú að veigra sér við að takast á við vandann, sætta sig við vandann, bíða, leiða hugann að öðru, vona það besta og spila svo smá tölvuleik. Hætt er við að vandinn vaxi og margfaldist. Þess vegna er þetta mjög slæm leið. Hún færir þig á verri stað.
Hin leiðin virðist oft vera slæm því hún er erfið og krefst þess að þú takir ábyrgð á sjálfum þér og umhverfi þínu. Verðlaunin sem bíða eru hins vegar stór, eins stór og þau geta orðið. Þessi leið felur í sér að vera meðvitaður um sjálfan sig og lífið og koma þannig auga á vanda. Því næst þarf að leita leiða til að leysa vandann. Hringdu í vin, leitaðu á netinu, spjallaðu við mömmu eða sálfræðinginn, hugsaðu hvað þú getur gert sem fyrsta skref til að minnka vandann. Að mæta vanda sínum og yfirstíga hann er erfitt, en þegar það tekst eflist sjálfsmynd þín, það er, þú verður sannfærðari um að þú getir náð árangri. Það eflir þig í öllu öðru. Þess vegna færir þessi erfiða leið þig á miklu betri stað.
Við verðum að taka þunglyndi mjög alvarlega og leita okkur hjálpar í öllum tilvikum. Þunglyndi er algengt, 4–5% fólks í heiminum þjáist af alvarlegu þunglyndi (major depressive disorder) á hverjum tímapunkti, sem eru meira en 300 milljónir. Um 20% þjást af alvarlegu þunglyndi einhver tíma yfir ævina. Þunglyndi er stærsti orsakaþáttur örorku í heiminum og einn af stærstu þáttunum þegar kemur að sjúkdómsbyrði (burden of disease). Stórt hlutfall af þeim sem þjáist af alvarlegu þunglyndi fremur sjálfsvíg. Þrátt fyrir þennan alvarleika hafa rannsóknir sýnt að meira en helmingur fólks telur þunglyndi vera veikleika, telur þunglyndi ekki vera heilsufarsvandamál, og telur þunglyndi vera það eðlilegt og vægt að ekki þurfi að leita sér aðstoðar við því.
Auðvitað þarf að leita sér aðstoðar, og það er hægt að fá aðstoð. Þær meðferðarleiðir sem hafa sýnt hvað mestan árangur samkvæmt niðurstöðum viðurkenndra rannsókna eru lyfjameðferð og hugræn atferlismeðferð (HAM). Gott er að blanda þessum leiðum saman, eða nota einungis HAM í vægum tilfellum.
Stefna Tækniskólans er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, ofbeldi og ótilhlýðileg háttsemi í hvaða mynd sem er, sé ekki liðið. Leita skal allra ráða til að fyrirbyggja slíkt og leysa þau mál sem upp koma á sem farsælastan hátt.
Hér má lesa nánar um einelti og ofbeldi. Getum svo fært þetta yfir í gagnabankann.
Geðheilsa er auðvitað mikilvæg, kannski það mikilvægasta sem til er. Við viljum vera nægilega hamingjusöm og stöðug til þess að halda áfram lífinu, geta gert það sem hugur stendur til. Við viljum að mestu vera laus við neikvæðar tilfinningar, það er auðvitað vont að líða illa eðli málsins samkvæmt, en auk þess geta neikvæðar tilfinningar dregið mjög úr árangri okkar, haft neikvæð áhrif á hugsun og hegðun. Þannig getur orðið til vítahringur sem er mikilvægt að stoppa.
Það væri hægt að skrifa heila bók um geðheilsu (reyndar hefur það verið gert margsinnis). Hér verða hins vegar aðeins nefnd örfá atriði sem gott getur verið að tileinka sér til að bæta eða viðhalda góðri geðheilsu.
Þegar við erum stressuð og kvíðin er líkami okkar verr í stakk búinn til að takast á við sýkingar, okkur líður illa og okkur gengur verr að sinna störfum og námi. Hægt er að draga úr streituástandi með margvíslegum leiðum. Við viljum hugsa um jafnvægi, þar sem streituástand veldur ójafnvægi, til dæmis með of mikilli framleiðslu á hormóninu kortisól. Við náum betra jafnvægi með því að:
Benedikt Bragi útskrifaðist með Cand. Psych. gráðu frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2010 en hafði áður lokið BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands.
Benedikt hefur m.a. starfað sem forstöðumaður Fjölskylduheimilisins við Ásvallagötu sem er úrræði fyrir 14–18 ára unglinga. Hann hefur starfað sem klínískur sálfræðingur hjá Fjölskyldumiðstöðinni og var skólasálfræðingur hjá grunnskólum Kópavogsbæjar. Benedikt starfaði við fjóra skóla í Kópavogi, sá þar um greiningar, meðferð, ráðgjöf og fræðslu. Benedikt var sjálfstætt starfandi á stofu frá árinu 2013, síðustu tvö árin á Sálstofunni. Hann hefur mikið unnið með unglingum og ungu fólki, meðal annars vegna þunglyndis, kvíða, áráttu þráhyggju og ADHD.