fbpx
en
Menu
en

Tækni­skólinn leggur mikið upp úr öflugri þjón­ustu sem ætlað er að styðja við nem­endur og starfs­fólk skólans. Á þessari síðu má finna hagnýtar upplýsingar um skólann, skólastarfið, námið og fleira sem gott er að kynna sér í upphafi annar.

 

Þjónusta


Skrifstofa og bókasafn

Bókasafnið Skólavörðuholti

Aðalskrifstofa skólans er á bókasafni á 5. hæð og opin á opnunartíma safnsins. Sími 514 9000. Símatími er mánudaga kl. 10:00–15:00 og þriðjudaga til föstudaga kl. 8:00–15:00. Upplýsingaborð er gegnt aðalinngangi og þar er hægt að fá almennar upplýsingar og leiðbeiningar.

Skrifstofur skólans á Háteigsvegi á fjórðu hæð og í Hafnarfirði á annarri hæð eru á bókasafni og opnar á afgreiðslutíma safnsins. Starfsfólk safnsins aðstoðar nemendur við upplýsingaleit og heimildaöflun. Lesstofur og tölvur eru á öllum stöðum. Einnig er aðstaða til prentunar og skönnunar. Upplýsingar um afgreiðslutíma eru á vef skólans.

 

Inna – Upplýsinga- og kennslukerfi

Inna er upplýsingakerfi skólans sem heldur utan um alla þætti náms hjá nemendum, m.a. vitnisburð, einkunnir, ástundun, mætingu og námsferil. Inna er einnig kennslukerfi skólans. Við innskráningu á Innu eru notuð  rafræn skilríki eða Íslykill. Aðstandendur ólögráða nemenda fá einnig aðgang að Innu og nemendur eldri en 18 ára geta sjálfir veitt foreldrum/forráðamönnum aðgang að Innu. Mikilvægt er að nemendur og forráðamenn gæti þess að netföng þeirra og símanúmer séu rétt skráð í Innu.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um Innu á vef skólans. Einnig má þar finna leiðbeiningar fyrir nemendur og leiðbeiningar fyrir kennara í tengslum við Innu.

 

Aðgangs- og prentkort

Allir nemendur fá aðgangs- og prentkort meðan þau stunda nám í Tækniskólanum. Kortið gefur nemendum aukinn aðgang að skólahúsnæðinu og prentinneign. Mikilvægt er að yfirfara persónuupplýsingar í Innu og kort fást ekki afhent nema að vera með nothæfa mynd í Innu. Sjá leiðbeiningar um hvernig á að setja mynd í Innu. Nýnemar fá kortin afhent í „Hvað hópum“ en aðrir nemendur sækja kortin á bókasöfnum skólans.

 

Námsgagnalisti – Upplýsingar um bækur og námsgögn eru í Innu

Nem­endur finna upp­lýs­ingar um bækur og náms­gögn í Innu. Á vefsíðu skólans má sjá nánari upplýsingar um námsgagnalista og vefbækur og skoða námsgagnalista í exc­elskjali. Bókabúðin Iðnú býður aðild­ar­skólum um land allt 10% afslátt af öllum vörum í skóla­vöru­versl­un­inni að Braut­ar­holti 8 og í vefverslun.

 

Tölvuþjónusta

Við upphaf annar fá nemendur tölvupóst frá tölvuþjónustunni með leiðbeiningum um hvernig á að tengjast tölvukerfi skólans. Nemendum býðst m.a. aðgangur að Office forritum frá Microsoft, þráðlausu neti, prentun og fleira. Einnig má finna ýmis­legt tengt fjar­kennslu og fjar­námi á síðu tölvuþjónustunnar. Ef nemandi gleymir lykilorði sínu þá getur hann farið á lykilord.tskoli.is og fengið tölvupóst til að breyta lykilorði. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu tölvuþjónustunnar.

 

Microsoft Teams

Hér má finna mynd­bönd sem sýna hvernig hægt er að sækja, setja upp og nota for­ritið Microsoft Teams.

 

Framtíðarstofa

Framtíðarstofan er hönnunar- og hátækniverkstæði skólans og er staðsett á Skólavörðuholti og í Hafnarfirði. Opnunartími og upplýsingar um bókanir er á vef skólans. Allir nemendur skólans hafa aðgang að Framtíðarstofu.

 

Styrkir, náms- og kynnisferðir

Tækniskólinn sækir árlega um styrki sem gera nemendum kleift að fara í náms- og kynnisferðir til landa innan Evrópu. Verkefnastjóri alþjóðamála hefur umsjón með úthlutun styrkja og skipulagningu námsferða. Hann er til viðtals á bókasöfnum skólans.

 

Skóladagatal, stundatöflur og töflubreytingar


Skóladagatal – viðburðir

Mikilvægar dagsetningar eru í skóladagatali, í Innu og í viðburðardagatali á vef skólans.

 

Spannir – Spönn 1/Spönn 2

Áfangar sem nemandi hyggst taka á önn dreifast almennt á tvær spannir og er nemandi þá í færri áföngum hverju sinni en í fleiri tímum í hverju fagi í hverri viku. Tökum dæmi: Nemandi átti að fara í 6 áfanga á önn. Í stað þess er líklegt að hann fari í 3 áfanga á fyrri spönn og 3 áfanga á seinni spönn (skiptingin gæti þó orðið önnur í sumum tilvikum). Þetta þýðir hins vegar að stundataflan getur breyst um miðja önn. Sumir áfangar, sér­stak­lega verk­legir, eru þó keyrðir með anna­fyr­ir­komu­lagi en fara þá eftir skóladagatali að öðru leyti.

 

Töflubreytingar

Í upphafi annar er gefin út ný stundatafla fyrir önnina. Ef áfangi er ekki í töflu samkvæmt vali þá getur nemandi óskað eftir töflubreytingu. Töflubreytingar eru eingöngu fyrir þá sem ekki fengu áfanga í töflu samkvæmt vali. Óskir um töflubreytingar eru gerðar rafrænt í Innu.

Töflubreytingar – Útskýring vegna spannafyrirkomulags
Töflubreytingar í Innu – Leiðbeiningar fyrir nemendur

 

Úrsögn úr áfanga

Ef nemandi hyggst segja sig úr áfanga þarf hann að fylla út sérstakt eyðublað á bókasafninu. Nemendur yngri en 18 ára þurfa samþykki forráðamanns fyrir úrsögn úr áfanga. Úrsögn úr áfanga getur verið háð samþykki viðkomandi skólastjóra. Gott getur verið að ræða við náms- og starfsráðgjafa áður en tekin er ákvörðun um úrsögn.

 

Stundatöflur og áfangaheiti

Gagnlegar útskýringar á áfangaheitum og stundatöflum eru á síðunni stundatöflur/spannir.

 

Viðtalstími í stundatöflu

Viðtalstími er tími í stunda­töflu nem­anda sem lítur út eins og hver önnur kennslu­stund. Þetta er viðtals­tími umsjón­ar­kennara og til hans getur nem­andinn leitað með allt er snýr að náminu.

Hægt er að hitta á umsjón­ar­kenn­arann á þessum til­greinda tíma í stunda­töfl­unni eða senda honum tölvu­póst. Net­fang umsjón­ar­kenn­arans eru upp­hafs­stafir hans sem sjást á viðtals­tím­anum í stunda­töfl­unni að viðbættu @tskoli.is.

 

Útskriftarnemendur skrái sig til útskriftar

Nemendur sem hyggjast útskrifast í lok annar þurfa að gefa sig fram við skólastjóra sinn og skrá sig til útskriftar. Sjá má dagsetningu í skóladagatali.

 

Valvikan

Valvikan er um miðja skólaönnina. Til þess að tryggja áframhaldandi skólavist, þurfa dagskólanemendur að mæta í viðtalstíma umsjónarkennara, yfirfara með honum áfangaval sitt fyrir næstu önn og staðfesta valið. Einnig þurfa þeir að greiða álagt staðfestingargjald sem er kr. 5000. Athugið að valvikan og staðfestingargjaldið á ekki við um nemendur sem eru í flugvirkjun, vefskóla, meistaraskóla, margmiðlun, hljóðtækni eða í almennu dreifnámi.

 

Veikindi og forföll


Athugið að ekki þarf að hringja í skólann ef nem­andi kemst ekki í kennslu­stund og/​eða námsmat vegna veik­inda.

  • Veik­indi nemenda eru skráð í Innu, sjá nánari upplýsingar um veikindi og forföll
  • Forföll kennara eru tilkynnt nemendum í Innu og með tölvupósti.

 

Félagslíf og nemendaviðburðir


Nýnemaferð Tækniskólanns haustið 2021Nýnemaferð Tækniskólanns haustið 2021

Félagslífið

Tækniskólinn leggur ríka áherslu á að í skólanum sé mikið og fjölbreytt félagslíf. Innan allra skóla Tækniskólans starfa skólafélög sem mynda nemendasamband Tækniskólans, NST. Hér má sjá nánari upplýsingar um félagslífið.

 

Verkefnastjóri félagsmála

Verkefnastjóri félagsmála aðstoðar nemendafélögin í sínu starfi. Hægt er að hafa sam­band við verkefnastjóra félagsmála varðandi félags­starf Tækni­skólans.

 

Aðstoð í námi


Námsver

Hlutverk námsvers Tækniskólans er að þjónusta þá nemendur sem glímha við námserfiðleika af einhverju tagi. Nemendur geta pantað tíma í námsveri og fengið aðstoð frá kennurum námsvers yfir Teams. Einnig er hægt að leita til námsvera við verkefna- og ritgerðarsmíð. Góð ráð eru að finna á vefsíðunni námstækni í fjarnámi og leiðbeiningar við að tengjast fjarfundarkerfinu Teams eru á vef skólans.

 

Ritver

Í rit­veri skólans er boðið upp á aðstoð við ritgerðarskrif, heim­ilda­leit og heim­ilda­skrán­ingar. Auk þess er boðið upp á aðstoð við gerð kynn­ing­ar­bréfs, fer­il­skrár og fl..

 

Sérúrræði – lengri tími

Allir nemendur sem skilað hafa inn gögnum um leserfiðleika eða aðra námserfiðleika fá viðbótar 30 mínútur við lausn matsþátta. Sótt er um sérúrræði í Innu.

 

Náms- og starfsráðgjafar

Náms- og starfsráðgjafar eru til viðtals fyrir nemendur um allt sem lýtur að námi þeirra. Nemendur geta rætt persónuleg vandamál sín við námsráðgjafa í þeirri fullvissu að þeir eru bundnir þagnarskyldu. Innan skólans eru námsráðgjafar málsvarar nemendanna. Upplýsingar um viðtalstíma og staðsetningu námsráðgjafa er að finna á vef skólans.

 

Sálfræðingur

Tækniskólinn býður nemendum gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu sem er opin öllum. Markmið með sálfræðiþjónustu skólans er að veita nemendum ráðgjöf og fræðslu um námstækni, kvíða, þunglyndi, ADHD, bætta mætingu o.fl. Hægt að panta viðtal hjá Benedikt Braga sálfræðing í gegnum Innu. Þegar pantað er viðtal í Innu þarf að skrá við athugasemd um hvort þið viljið mæta á skrifstofuna til hans, fá símtal eða myndsímtal í gegnum Köruconnect fjarfundarbúnað. Benedikt er staðsettur á skrifstofu 218 á Skólavörðuholti og hann er einnig með viðtalstíma í Hafnarfirði og Háteigsvegi. Hér má sjá nánari upplýsingar um sálfræðiþjónustu skólans.

 

Umsjónarkennarar

Nemendur geta leitað til umsjónarkennara með allt er varðar námið. Umsjónarkennarar hafa vikulega viðtalstíma sem skráðir eru í stundatöflu nemenda.

 

Skólasókn


Nemendur skulu sækja allar kennslustundir í þeim áföngum sem þeir hafa valið sér og mæta stundvíslega. Ef nemandinn mætir ekki í skólann eða gerir ekki grein fyrir fjarveru sinni fyrstu  kennsluvikuna, er litið svo á að hann ætli ekki að stunda nám í skólanum. Sé nemandi fjarverandi úr kennslustund eða fjarverandi meira en 20 mínútur af kennslustund fær hann 1 fjarvistarstig. Komi nemandi of seint til kennslu fær hann 0,5 fjarvistarstig. Skólasóknareinkunn er gefin fyrir heildarmætingu, sjá nánar í skólareglum.

 

Húsnæði, mötuneyti og geymsluskápar


Húsnæði

TækniskólinnHúsnæði Tækniskólans er á nokkrum stöðum í Reykjavík og í Hafnarfirði. Sjá nánar um staðsetningar og opnunartíma

 

Mötuneyti

Í skól­anum er mötuneyti þar sem boðið er upp á heitan hádeg­ismat og þar er einnig hægt að kaupa sal­at­bakka, sam­lokur, mjólk­ur­vörur og fleira. Mötuneytið er á 3. hæð í aðalbyggingu Tækniskólans á Skólavörðuholti, á 4. hæð á Háteigs­vegi og á 2. hæð í Hafnarfirði.

 

Geymsluskápar

Á Háteigsvegi, Skólavörðuholti og í Hafnarfirði eru geymsluskápar til afnota fyrir nemendur án endurgjalds. Reglurnar eru einfaldar: Fyrstur kemur fyrstur fær. Ef skápur er opinn er hann laus til notkunar. Nota skal eigin lás. Skápa á að tæma og skilja eftir opna í lok skólaárs 1. júní ár hvert. Eftir það verður klippt á lása sem enn eru á skápum og innihaldi skápanna fargað.

 

Umgengni

Nemendur skulu ganga vel og snyrtilega um skólann. Í Hafnarfirði þurfa allir að fara úr útiskóm áður en gengið er inn í rafmagnsálmu á fyrstu hæð, upp á aðra og þriðju hæð.

 

Farsímar

Notkun á farsíma eða öðrum snjalltækjum í kennslustund er háð heimild/samþykki kennara hverju sinni.

 

Reykingar

Reykingar og öll notkun tóbaks, þ.m.t. munntóbaks og rafsígarettna er óheimil í húsnæði og á lóð framhaldsskóla.

 

Tryggingar

Nemendur og munir þeirra eru ekki tryggðir sérstaklega hjá skólanum. Fjölskyldu- og heimilistryggingar nemenda bæta ýmis tjón.

 

 

Uppfært 14. ágúst 2024
Áfangastjórn