fbpx
Menu

Rit­verið er á bóka­safninu á Skólavörðuholti og það er opið alla miðviku­daga frá kl. 10:00–14:00.

Í rit­verinu er boðið upp á aðstoð við ritgerðarskrif, heim­ilda­leit og heim­ilda­skrán­ingar. Auk þess er boðið upp á aðstoð við gerð kynn­ing­ar­bréfs og fer­il­skrár.

Einnig er hægt að fá hjálp við ein­falda Wor­dPress heimasíðugerð, til dæmis fyrir port­folio síður.

Umsjón­armaður rit­versins er Sif og má senda henni fyr­ir­spurnir um rit­verið á net­fangið [email protected].

 

Ritgerðaskrif

Bókasafnið SkólavörðuholtiHér á síðunni eru leiðbeiningar sem nemendur geta notað við ritgerðaskrif.
Þær eiga helst við um lokaverkefnisgerð en má einnig nota við styttri ritgerðir.

Hér eru einnig tenglar á leiðbeiningar um heimildavinnu.

 

Forsíða

Á forsíðu verkefnis er mikilvægt að ákveðnar upplýsingar komi fram svo auðvelt sé fyrir aðra að fá hugmynd um hvað ritgerðin fjallar og að átta sig á hver skrifaði hana. Eftirfarandi atriði er gott að hafa í huga:

  • lýsandi titill
  • nafn og kennitala nemanda (í stafrófsröð ef fleiri en einn)
  • áfangaheiti og númer
  • heiti skóla og undirskóla
  • nafn leiðbeinanda
  • önn/dagsetning skila

Hér má nálgast sniðmát sem nemendur geta notað og fært viðeigandi upplýsingar inn í:

Sniðmát (word) fyrir forsíðu.

Í lokaritgerðum er sett autt blað milli forsíðu og efnisyfirlits, þetta blað kallast saurblað og er ekki talið með í blaðsíðutalinu.

 

Efnisyfirlit

Í lengri ritgerð er gott að hafa efnisyfirlit. Efnisyfirlit auðveldar lesandanum að átta sig á uppsetningu ritgerðarinnar og finna ákveðna kafla.

Efnisyfirlit á að vera á blaðsíðu 1 í ritgerðinni, forsíðan á ekki að teljast með í blaðsíðufjöldanum.

Hér eru leiðbeiningar um hvernig má sleppa forsíðunni í blaðsíðutalningunni í Word

Efnisyfirlit getur litið svona út:

  1. Inngangur ……………………………..bls. 2
  2. Efni og aðferðir ………………………bls. 3
    1. Ýtt úr vör ……………………….bls. 3
      1. Frá gufu til olíu ………bls. 4
  3. Með lausa skrúfu …………………….bls. 5
  4. Niðurstöður / lokaorð ……………..bls. 7
  5. Myndaskrá ……………………………..bls. 8
  6. Heimildaskrá ………………………….bls. 10
  7. Viðaukar ………………………………..bls. 11

Hægt er að gera efnisyfirlitið handvirkt en einnig er hægt að láta ritvinnsluforritið gera það sjálfvirkt.

Hér eru leiðbeiningar um hvernig efnisyfirlit er búið til í Word

 

Inngangur

Í inngangi er stutt kynning á verkefninu þar sem er sagt frá því hvað ritgerðin á að fjalla um. Gott er að byrja á víðri umfjöllun segja svo í stuttu máli frá efnistökum og því hvernig verkefnið er unnið. Þá má til dæmis fjalla um hvort ritgerðin sé heimildaritgerð eða rannsókn, hvort séu viðtöl, hvort einhver hafi veitt aðstoð og hver bakgrunnur verkefnisins er.

Fræðileg ritgerð svarar spurningu/spurningum og hún er sett fram í lok inngangsins. Þessari spurningu þarf svo að svara í meginmálinu og rökstyðja svarið. Inngangur er yfirleitt hafður á sér blaðsíðu og er að hámarki ein síða en lengd fer að öðru leyti eftir lengd verkefnisins.

 

Meginmál

Meginmálið er aðalhluti ritgerðarinnar. Hér er fjallað um efnið sem var kynnt í innganginum. Kaflinn á ekki að heita meginmál heldur eitthvað sem er lýsandi fyrir innihaldið.

Í meginmáli geta verið fleiri en einn kafli og þeir geta haft undirkafla eftir því sem við á.

Gott er að byrja á því að fjalla um efni og aðferðir, það er að segja hvað ritgerðin fjallar um, til hvers hún er unnin og hvaða aðferðir var notast við til að vinna verkefnið

Einnig má til dæmis fjalla um:

  • rannsóknarspurningu/rannsóknaraðferðir
  • hvaða heimildir er notast við og hvernig þeirra var aflað
  • tímabil eða ramma verkefnisins, hvenær var rannsóknin unnin
  • viðtöl, bakgrunn viðmælenda
  • verkið sett í stærra samhengi, t.d. sögulegt

 

Niðurstöður/lokaorð

Hér eru niðurstöður rannsóknar settar í samhengi. Hér er fjallað um:

  • þýðingu hennar og hugsanlegt notagildi
  • hvaða lærdóm má draga af rannsókninni eða því sem fjallað er um í ritgerðinni,
  • hvað stendur upp úr,
  • hvaða spurningum er ósvarað, hvað mætti rannsaka nánar í framtíðinni

Hér mega ekki koma fram nýjar upplýsingar heldur einungis samantekt á því sem hefur verið fjallað um áður. Niðurstöður eru hafðar á sér blaðsíðu og eru yfirleitt ekki lengri en ein síða.

Gott er að láta niðurlag kallast á við inngang. Er búið að gera það sem átti að gera samkvæmt inngangi? Hvernig var það gert í stuttu máli. Hverjar voru niðurstöðurnar? Af hverju eru þær gagnlegar?

 

Heimildaskrá

Í lok ritgerðarinnar þarf að koma fram heimildaskrá þar sem settar eru fram allar þær heimildir sem höfundurinn styðst við. Heimildaskráin er alltaf á sér blaðsíðu aftast. Nokkrar almennar reglur um heimildaskrár:

  • skrá yfir myndir er jafnan höfð á undan heimildaskrá en viðaukar á eftir (dæmi um viðauka eru spurningalistar, teikningar, skrá yfir viðmælendur, o.fl.)
  • heimildir eru í stafrófsröð eftir nafni höfunda, fornafni íslenskra höfunda en eftirnafni erlendra. Dæmi:
    • Fletscher, Sue. (2006). Reeds VHF-DSC handbook. 2. útg. London: Adlard Coles nautical.
    • Guðjón Ármann Eyjólfsson. (2009). Leiðastjórnun skipa. Kópavogur: Siglingastofnun Íslands.

Heimildaskráning – heimildaskrá skv. APA kerfi
Heimildaskráning – heimildaskrá skv. Chicago Manual of Style

 

Ýmislegt um málfar og uppsetningu

Íslenskar gæsalappir eru „svona“ (eins og 99 og 66). Kemur sjálfkrafa inn í nýrri útgáfum af Word.

Fyrsta efnisgrein eftir fyrirsögn er ekki inndregin, en allar efnisgreinar þar á eftir í sama kafla eru inndregnar.

Vandið málfar, engar slettur nema ekki verði komist hjá þeim. Nota formlegan stíl og ekki nota orðatiltæki nema vera alveg viss um að þau séu rétt notuð. Ekki nota talmál.

Hafið textann læsilegan – ekki hafa of langt samhangandi mál og ekki raða saman mörgum heimildum í sömu efnisgrein.

Leturstærð miðast við 12 p Times New Roman eða annað læsilegt og hlutlaust letur. Línubil skal vera 1,5 eða 2.

Forðist óþarfa leturbreytingar og skraut.

 

Bækur um ritgerðaskrif

Nánari leiðbeiningar má finna í eftirtöldum ritum:

Baldur Sigurðsson og Bjarni Ólafsson. (1988). Fram á ritvöllinn. Reykjavík: Mál og menning.
Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum. 4. útg. Reykjavík: Háskólaútgáfan.
Ingibjörg Axelsdóttir og Þórunn Blöndal. (2006). Handbók um ritun og frágang. 9. útg. Reykjavík: Mál og menning.

Einnig eru ítarlegar upplýsingar um gerð heimildaskrár samkvæmt APA-kerfinu á leiðbeiningavef Ritvers menntavísindasviðs