Krefjandi námsbraut til stúdentsprófs þar sem áhersla er lögð á vísindagreinar, sjálfstæð vinnubrögð og frumlega og skapandi hugsun. Mjög góður undirbúningur fyrir framhaldsnám í tækni- og vísindagreinum sem og ýmsar greinar á sviði viðskiptafræða og nýsköpunar.
K2: Tækni- og vísindaleiðin er þriggja ára lotubundið stúdentsnám þar sem lögð er áhersla á verkefnavinnu, lausnaleit og gagnrýna og skapandi hugsun. Nemendum er skipt í bekki og sækja þeir því áfanga í öllum kjarnafögum með sínum bekkjarfélögum í sinni heimastofu og vinnustofu. Nemendur sækja fjölbreytta valáfanga, á brautinni sjálfri sem og þvert á aðrar brautir Tækniskólans.
Námið er skipulagt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og leiðandi fyrirtæki og stofnanir á sviði tækni, vísinda, umhverfisfræði og nýsköpunar. Markmið brautarinnar er að gefa skapandi og sjálfstætt þenkjandi námsmönnum tækifæri til að fást við krefjandi verkefni á frumlegan og áhugaverðan hátt, tengjast háskólaumhverfinu og efla tengslanet sitt í atvinnulífinu. K2 er fyrir þá sem vilja njóta þess að vera í bekk en jafnframt nýta sér alla þá kosti sem áfangaskóli, með mjög fjölbreyttu námsframboði, hefur upp á að bjóða.
Tækni- og vísindaleið er stúdentsbraut þar sem hugað er sérstaklega að því að námið sé áhugavekjandi, ögrandi og eflandi. Námsbrautin er gerð í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla og samkvæmt leiðbeinandi viðmiðum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Skipulag og uppbygging brautarinnar var unnin í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og samstarfsaðila úr atvinnulífinu. Þróun brautarinnar á komandi árum miðar við áframhaldandi samstarf þessara aðila. Kennsla við brautina fer fram í lotum.
Miðað er við að umsækjendur hafi lokið grunnskóla með B í ensku, stærðfræði og íslensku. Við hvetjum þó alla til að sækja um enda er það leiðarljós okkar að uppbygging brautarinnar og áherslur, sem og aðferðafræði kennslunnar, geri ólíku námsfólki kleift að hámarka námshæfni sína.
Við mat á umsóknum er ennfremur litið til styrkleika hvers og eins en mikið er lagt upp úr því að hafa fjölbreyttan nemendahóp.
Fyrirspurnir varðandi inntöku og annað brautartengt skal senda til brautarstjóra, Sigríðar H. Pálsdóttur, [email protected].
Náminu lýkur með stúdentsprófi.
Námið er tölvu- og tæknimiðað en einnig er lögð mikil áhersla á verkefnastjórnun og gagnrýna hugsun. Námið hentar því vel sem undirbúningur fyrir ýmsar tækni- og raungreinar sem og greinar á sviði viðskiptafræði og nýsköpunar. Námið er í heild sinni þróað í samvinnu við tækni- og verkfræðideild og tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík og sniðið að aðgangskröfum þeirra deilda.
Kjarni: 186 einingar – Nemendur taka alla kjarnaáfanga með sínum bekk. Þeir eru kenndir af kennurum brautarinnar og kennsla fer fram á K2-ganginum á Skólavörðuholti eða í húsnæði HR við Öskjuhlíð.
Lokaverkefni – Síðustu tvær vikur hverrar annar, með einni undantekningu, er hefðbundin stundaskrá tekin úr sambandi og nemendur einbeita sér að svokölluðum lokaverkefnum.
Valáfangar eru 24 einingar.
K2: Tækni- og vísindaleiðin fylgir sömu skólareglum og aðrar námsbrautir Tækniskólans. Einnig gilda sérstakar námsbrautarreglur um brautina. Þær má nálgast hér.
Myndbönd um K2: – opnast í YouTube rás Tækniskólans eða Facebooksíðu skólans
Um Upplýsingatækniskólann en K2 námsbrautin er hluti af honum.
Um námsbrautina K2 – rætt m.a. við nemendur og aðila í atvinnulífinu á haustönn 2016
Um K2 – námsfyrirkomulag – frásagnir nemenda vor 2019 á Facebook
Sótt er um nám á K2 með því að smella á hnappinn „Sækja um“ hér að ofan. Allar umsóknir fara í gegnum Menntagátt.
Upplýsingar um skólagjöld er að finna í gjaldskrá Tækniskólans. Fyrir utan skólagjöld mega nemendur á K2 búast við því að leggja út fyrir ýmsum námsgögnum auk þess sem þeir þurfa að eiga fartölvu.
Bein efnisgjöld eru engin en nemendur á K2 gera ráð fyrir að leggja út fyrir ýmsum námsgögnum auk þess sem þeir þurfa að eiga fartölvu. Með námsgögnum er til að mynda átt við gjöld vegna námsferða, kostnað vegna menningarferða, kaup á tölvuforritum, tölvubúnaði, bókum/bókahlutum eða greinum.
Upplýsingar um upphaf og lok kennslu er að finna á skóladagatali hér á vefnum. Alla jafna hefst kennsla að hausti í seinni hluta ágústmánaðar og í fyrstu viku janúar á vorönn.
Kennsla á K2 fer fram í aðalbyggingu Tækniskólans á Skólavörðuholti og í Háskólanum í Reykjavík. Að auki fara nemendur í ýmis ferðalög og vettvangsheimsóknir, bæði í Reykjavík og víðar.
Nemendur á K2 þurfa að koma með eigin tölvu til að vinna á.
Já, nánari reglur um skólasókn er að finna á vef Tækniskólans.
Nemendasamband Tækniskólans, NST, heldur viðburði og skemmtanir fyrir alla nemendur. Minni nemendafélög halda utan um viðburði sem ætlaðir eru nemendum í ákveðnum undirskólum eða brautum Tækniskólans. Þá eru ýmsar nefndir starfandi undir hatti NST, svo sem jafnréttisnefnd, skemmtinefnd og tækninefnd.
Nánari upplýsingar um nemendafélögin er að finna á síðu um félagslíf.