Meginmarkmið Tækniskólans er að efla samfélagið með því að bjóða upp á fjölbreytta fagmenntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs. Flestar námsbrautir veita sérhæfða menntun á sínu sviði sem lýkur með löggiltum réttindum en opnar jafnframt leiðir til frekara náms. Í skólanámskrá Tækniskólans eru upplýsingar um hverja braut fyrir sig. Tækniskólinn byggir á meira en aldargamalli hefð í menntun iðnaðarmanna, skipstjórnenda og vélstjórnenda en hefur ætíð brugðist hratt og vel við tækninýjungum og breyttum kröfum atvinnulífsins af fagmennsku og metnaði.
Skipulag námsins er margþætt. Í fyrsta lagi er starfað eftir námskrám sem samþykktar eru af menntayfirvöldum og koma starfsgreinaráð viðkomandi starfssviða að gerð þeirra í samræmi við gildandi lög hverju sinni. Í öðru lagi er skipulag kennslu og stjórnunar en vert er að undirstrika áhersluna sem lögð er á að gera nemandann virkan og ábyrgan í námi sínu og láta hann finna að virðing er borin fyrir honum og sjónarmiðum hans.
Fjölbreytilegar kennslu- og matsaðferðir þjálfa nemendur í því að gera grein fyrir verkum sínum og sjónarmiðum og fá uppbyggilega gagnrýni bæði frá kennurum og samnemendum. Árangur skólastarfsins byggir á virkni nemenda og fagmennsku starfsmanna. Kennarar Tækniskólans eru fagmenn í tvennum skilningi. Þeir eru fagmenn í þeim starfsgreinum og sérgreinum sem þeir kenna og þeir eru fagmenntaðir kennarar.
Tækniskólinn er fjölmennur skóli með fjölbreytt námsframboð sem endurspeglast í markhópi hans. Það er stefna skólans að þróa námsframboð sitt á öðru, þriðja og fjórða þrepi í takt við þarfir atvinnulífs og eftirspurnar nemenda.
Tækniskólinn starfar eftir áfangakerfi. Skólaárinu er að jafnaði skipt upp í tvær annir, vorönn og haustönn og eru starfsdagar samtals 180 á ári hverju. Önninni er skipt í tvennt og hvor hluti um sig kallast spönn. Áfangar sem nemandi hyggst taka á önn dreifast þá almennt á tvær spannir og er nemandi þá í færri áföngum hverju sinni en í fleiri tímum í hverju fagi í hverri viku. Sumir áfangar, sérstaklega verklegir, eru þó keyrðir með annafyrirkomulagi en fara þá eftir skóladagatali að öðru leyti.
Á vef skólans er að finna ítarlegt yfirlit yfir námsskipulag hvers skóla Tækniskólans fyrir sig og áfangalýsingar allra áfanga.
Uppfært 19.10.2021
Áfangastjórn