fbpx
Menu

Background text

Dans, dans, dans!

Böll í miðri viku - gæsla á staðnum

Skólaböll eru haldin tvisvar til þrisvar á önn. Böll eru alltaf í miðri viku frá kl. 22:00-01:00. Nemendur komast ekki  inn á ballið eftir kl. 23:00. Nem­endur sem mæta á ballið fá frí í fyrstu kennslu­stund daginn eftir. Ásamt starfsfólki skólans sinnir Go Security gæslu á ballinu og leitar á nemendum við inngang.  Þar að auki er sjúkraherbergi með heilbrigðisstarfsfólki.

Miðasala - mættu með skilríki!

Miðasala á skemmtanir félagsins er auglýst með tölvupósti á INNU, á heimasíðu Tækniskólans og samfélagsmiðlum Nemendasambandins NST. Ekki er hægt að kaupa miða við innganginn því miðasala fer fram á netinu. Nemendur þurfa að sýna miða og skilríki við innganginn.

Gestir á böll

Við höldum nákvæma skrá yfir öll sem kaupa miða. Hver nemandi getur keypt miða fyrir einn gest en gestinum þurfa að fylgja upplýsingar s.s. nafn, kennitala og símanúmer foreldra og forráðamanna. Nemendur bera ábyrgð á gestinum sem þeir kaupa miða fyrir. Ef gesturinn fer ekki eftir settum reglum  á skemmtun fær gestgjafi ekki bjóða neinum með sér á næsta dansleik. Það er ekki hægt að tryggja það að aðrir en nemendur Tækniskólans geti keypt miða á skemmtanir – nemendur Tæknó ganga fyrir.

Ofbeldi með öllu ólíðandi

Á viðburðum NST er allt ofbeldi ólíðandi. Það þýðir EKKERT umburðarlyndi fyrir t.d. móðgandi eða særandi athugasemdum um útlit fólks, hómófóbíu eða kynþáttafordómum. Öll hegðun og áreitni sem skapar ógnvekjandi eða fjandsamlegt umhverfi verður ekki liðin.

Ölvun ógildir miðann

NST mælir með því að þú upplifir lífið edrú. Það eru engir gallar við að vera edrú, bara kostir. Það má heldur ekki neyta áfengis eða annarra vímugjafa á viðburðum skólans og ölvun ógildir miða á skemmtanir. Slepptu öllu ölæði og taktu meðvitaða ákvörðun um að vera án vímuefna ♠  

 

Uppvís að drykkju á dansleik

Starfsmenn skólans bjóða öllum sem mæta á böll að blása í áfengismæli. Allsgáðir heppnir nemendur Tækniskólans verða síðar dregnir úr edrúpottinum og geta unnið til verðlauna. Ef nemandi er grunaður um drykkju á dansleik getur hann afsannað það með því að blása í áfengismæli. Ef ölvun mælist eða nemandi neitar að blása er hringt í forráðamenn sé hann yngri en 18 ára og þeim gert að sækja hann.

Nikótín? Nei! Við höldum því og hendum því.

Einnig er vert að nefna að á ballinu er ekki leyfilegt að koma inn með tóbak, nikótínpúða eða rafrettur. Allur óheimill varningur verður gerður upptækur og honum fargað. Alvarlegri málum, t.d. meðferð ólöglegra fíkniefna, verður vísað til lögreglu.

Passið vel upp á verðmæti

Skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum nemenda í tengslum við dansleiki skólans.  Gæsla er í höndum Go Security og er leitað á öllum nemendum við innganginn.  Nemendur bera sjálfir ábyrgð á eigum sínum þegar þeir mæta á dansleik. Nemendafélagið og starfsmenn skólans gera sitt besta til að halda utan um óskilamuni sem gæslan kemur áleiðis en skólinn tekur ekki ábyrgð á óskilamunum og  munum sem glatast.