Lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna (nr. 86/2021) tóku gildi 1. janúar 2022. Um þessar mundir er Tækniskólinn að taka sín fyrstu skref í innleiðingu Farsældarlaganna, eins og þau eru kölluð í daglegu tali. Lögin ná til allra barna og ungmenna á Íslandi frá 0 – 18 ára aldurs. Meginmarkmið laganna er að tryggja börnum og foreldrum, aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Til að óska eftir samþættri þjónustu þurfa forráðamenn og/eða nemendur að hafa samband við tengiliði Tækniskólans sem má finna neðar á þessari síðu.
Með samþættri þjónustu er átt við að fjölskyldur geti fengið aðstoð við að halda utan um þjónustu við börn og að hún sé skipulögð og samfelld með það að markmiði að stuðla að farsæld barns. Þeir þjónustuveitendur sem best eru til þess fallnir að mæta þörfum barns eiga að vinna saman að lausn mála.
Þjónustuveitendur eru t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.
Þjónusta í þágu farsældar barna er veitt á þremur þjónustustigum. Fyrsta stigs þjónusta er grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum börnum og foreldrum. Snemmtækur stuðningur er veittur í samræmi við frummat á þörfum barns og honum fylgt eftir á markvissan hátt. Dæmi um fyrsta stigs þjónustu er stoðþjónusta Tækniskólans sem nær meðal annars yfir aðstoð í námi, náms- og starfsráðgjöf og sálfræðiaðstoð.
Á öðru stigi er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur veittur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns. Á þriðja stigi er stuðningurinn sérhæfðari og veittur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns. Ef ástæða er til að ætla að barn þurfi fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi til lengri tíma skal sveitarfélag þar sem barn á lögheimili tilnefna málstjóra þjónustu í þágu farsældar barnsins. Á vefsíðu Barna- og fjölskyldustofu má finna frekari upplýsingar um þjónustu á öðru og þriðja stigi.
Öll börn undir 18 ára aldri og fjölskyldur þeirra hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barns eftir því sem þörf krefur. Ef þörfum barns er ekki mætt með fullnægjandi hætti og barn þarf á frekari þjónustu að halda er fyrsta skrefið að hafa samband við tengilið.
Hlutverk tengiliðar er t.d. að veita fjölskyldum upplýsingar um þjónustu, að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns og að skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu. Tengiliðir geta t.d. verið hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og félagsráðgjafar á heilsugæslustöðvum eða skólahjúkrunarfræðingar, skólafélagsráðgjafar, námsráðgjafar, umsjónakennarar eða aðrir sérfræðingar innan skóla. Tengiliður þjónustu í þágu farsældar barna er starfandi á öllum skólastigum þar sem börn undir 18 ára eru við nám.
Anna Ósk Ómarsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
Benendikt Bragi Sigurðsson, sálfræðingur
Erna Ýr Styrkársdóttir, náms- og starfsráðgjafi
Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistari
Halla María Halldórsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
Inga Jóna Þórsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála
Rósa Hrönn Árnadóttir, brautarstjóri starfsbrauta
Þórdís Guðmundsdóttir, náms- og starfsráðgjafi
Tengiliður metur hvort að þörf sé á samþættri þjónustu en til þess þarf hann að fá upplýsingar um aðstæður barns. Foreldrar og/eða barn þarf að fylla út beiðni um miðlun upplýsinga til tengiliðar. Það heimilar þjónustuveitendum að taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar. Tengiliður getur jafnframt fengið upplýsingar beint frá foreldrum og/eða barni.
Með vinnslu persónuupplýsinga er m.a. átt við söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og samkeyrslu upplýsinga um aðstæður barns. Í hverju einstöku tilviki þarf að leggja mat á tilgang og nauðsyn á miðlun upplýsinga á grundvelli samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna. Vinna með persónuupplýsingar fer því ekki umfram það sem nauðsynlegt má telja. Ef tengiliður telur þörf á að þjónusta sé samþætt, geta foreldrar og/eða barn, með aðstoð tengiliðar lagt fram beiðni um samþættingu þjónustu.