fbpx
Menu

Kafli 1 – Skólanámskrá


 

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins

Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins er einkarekinn framhaldsskóli, rekstrarfélag, með þjónustusamning við Mennta- og barnamálaráðuneytið um rekstur framhaldsskóla. Í þjónustusamningnum eru ákvæði um að rekstrarfélag skólans geti ekki tekið arð úr rekstrinum og allur ábati skili sér í skólastarfið. Markmið eigenda rekstrarfélagsins er að skólinn skili færum starfsmönnum út í atvinnulífið.

Skipurit skólans sýnir undirskólana og stjórnsýslu. Rekstrarfélagið er í eigu aðila atvinnulífsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, Samorku og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík. Skólinn var stofnaður vorið 2008 með samruna Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands. Iðnskólinn í Hafnarfirði varð hluti af Tækniskólanum haustið 2015.

Tækniskólinn hefur sameiginlega yfirstjórn en kennslan skiptist milli átta undirskóla sem hafa faglegt sjálfstæði. Það eru Byggingatækniskólinn, Hönnunar- og handverksskólinn, Raftækniskólinn, Skipstjórnarskólinn, Tækniakademía, Tæknimenntaskólinn, Upplýsingatækniskólinn og Véltækniskólinn. Skólameistari stýrir Tækniskólanum en skólastjóri er yfir hverjum undirskólanna. Tækniskólinn starfar eftir áfangakerfi. Námslok við skólann miðast við að nemendur hafi lokið tilskildum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er í brautarlýsingum skólanámskrár. Skólaárinu er skipt upp í fjórar spannir, haustönn og vorönn.

 

Hlutverk

Hlutverk Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að stuðla að alhliða þroska nemenda, búa þá undir störf í atvinnulífinu og frekara nám í sérskólum og háskólum. Einnig er það hlutverk skólans að búa nemendur undir virka þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi og leitast við að efla með þeim ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi. Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins starfar samkvæmt lögum um framhaldsskóla og aðalnámskrá framhaldsskóla.

 

Sérstaða

Sérstaða Tækniskólans felst í nánum tengslum hans við atvinnulífið í gegnum eignarhaldsfélag hans og fagráð sem tengjast öllum námsbrautum skólans. Flestar námsbrautir Tækniskólans veita markvissan undirbúning til ákveðinna starfa jafnframt því sem þær opna leiðir til áframhaldandi náms. Sérstakt hlutverk Tækniskólans er að mennta eftirsótt fólk í handverks,- iðnaðar,- tækni-, tölvu-, vélstjórnar, skipstjórnar- og sjávarútvegsgreinum til starfa í íslensku jafnt sem alþjóðlegu umhverfi.

 

Markmið

Meginmarkmið Tækniskólans, skóla atvinnulífsins, er að veita nemendum menntun sem samtímis er sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðgar líf einstaklinganna og eflir samfélagið. Það er stefna skólans að vera ávallt í fararbroddi í þróun námsbrauta, kennsluhátta og notkun upplýsingatækni í kennslu.

 


Uppfært 6. desember 2023
Áfangastjórn