fbpx
Menu

Fréttir

19. desember 2021

Rennismiður með hæstu einkunn

Eldborgarsalur HörpuGlæsi­legur hópur útskrift­ar­nem­enda mætti til brautskráningar í Eld­borg­arsal Hörpu sunnudaginn 19. desember. Alls voru brautskráðir 344 nemendur frá eftirfarandi skólum/deildum Tækniskólans: Bygg­inga­tækni­skól­anum, Hönnunar- og hand­verks­skól­anum, Raf­tækni­skól­anum, Skip­stjórn­ar­skól­anum, Tækni­mennta­skól­anum, Upp­lýs­inga­tækni­skól­anum og Vél­tækni­skól­anum. Einnig voru nemendur í hljóðtækni og kvikmyndatækni brautskráðir úr Tækniaka­demí­unni sem og nemendur í Meistaraskólanum.

Nemendur skólans settu svip sinn á athöfnina líkt og áður en Arnar Freyr Guðmundsson, 19 ára nemandi í múraraiðn, lék á harmónikku og spilaði meðal annars síldarvals í tilefni af 130 ára afmæli Stýrimannaskólans – elsta forvera Tækniskólans. Þá flutti Birna Magnea Sigurðardóttir, nemandi í hársnyrtiiðn, einlæga ræðu fyrir hönd nemanda.

 

Vissi strax hvert hún stefndi eftir heimsókn í Tækniskólann

Birna Magnea SigurðardóttirBirna Magnea óskaði nemendum til hamingju með áfangann og þakkaði kennurum og stjórnendum skólans fyrir einstaka þolinmæði á skrýtnum tímum. Birna rifjaði einnig upp þegar hún heimsótti Tækniskólann og sá hársnyrtideild skólans í fyrsta sinn: ,,Þegar ég var í 10. bekk í Kársnesskóla kom ég á kynningu með bekknum mínum í Tækniskólann og gleymi því aldrei þegar Valdi og Ólafur tóku á móti okkur í stofu 204 og fullt af skrautlegum hausum í skápunum. Ég man svo vel hvað mér fannst allir hressir og kátir og sást langar leiðir hvað öllum fannst gaman og ég vissi strax hvert ég stefndi.“

Þess má geta að Birna Magnea hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu skólans og góðan árangur í faggreinum á hársnyrtibraut ásamt þeim Silju Rós Hassing Ingadóttur og Gunnhildi Snorradóttur.

 

Farsælt ár hjá Tækniskólanum

Hildur IngvarsdóttirHildur Ingvarsdóttir skólameistari flutti ávarp þar sem hún fjallaði meðal annars um hvernig nám í skipstjórn og aðbúnaður á sjó hefur þróast í gegnum tíðina en í haust voru liðin 130 ár síðan fyrsti forveri Tækniskólans, Stýrimannaskólinn í Reykjavík, tók til starfa. ,,Fyrsta haustið voru fjórtán nemendur við skólann og þurftu þeir að uppfylla sérstök inntökuskilyrði sem voru eftirfarandi: Nemandi verður að hafa óflekkað mannorð, vera fullra 15 ára að aldri, vera vel læs, sæmilega skrifandi, hafa tiltekna stærðfræðikunnáttu og rita íslensku stórlýtalaust. Að auki var krafist fjögurra mánaða siglingatíma á þilskipi. Til að byrja með voru aðalnámsgreinarnar stýrimannafræði og stærðfræði. Aukanámsgreinar voru íslenska, danska, enska og sjóréttur. Annað lærðist á sjó. Svo fór að enginn þeirra fjórtán pilta sem skráðir voru í skólann þann veturinn þreyttu próf í maímánuði þar sem þeir voru allir farnir á sjó en flestir nemendur voru ráðnir á þilskip sem lögðu út í marsmánuði og próf ekki skilyrði til skipstjórnar á fiskiskipi. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og nám til víðtækustu skipstjórnarréttinda tekur fimm ár í dag og það er víst ekki hægt að velja að fara á sjó í stað þess að taka próf.“

Hildur talaði einnig um að árið hefði verið farsælt hjá Tækniskólanum þrátt fyrir heimsfaraldur. ,,Skólastarfið hefur gengið vel og aðsókn í skólann er mikil. Aldrei hafa fleiri nýnemar úr grunnskóla sótt um að komast inn í skólann og komast því miður færri að en vilja. Þá var sérlega ánægjulegt að áform um byggingu glæsilegs og nútímalegs skólahúss þar sem skólinn sameinast á einum stað hafi skilað sér inn í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar.“

 

Rennismiður með hæstu einkunn

Princes Elysa Bragita DianaBjarni ÞorleifssonBjarni Þorleifsson, nemandi í rennismíði, hlaut verðlaun fyrir bestan heildarárangur í skólanum. Bjarni starfaði áður við kennslu en vildi skipta um starfsumhverfi og einhverskonar iðnnám kallaði alltaf á hann. „Ég íhugaði helstu iðngreinar en hafði aldrei heyrt um rennismíði fyrr en ég hitti félaga minn í Krónunni sem sagðist starfa við það sem nemi. Ég skoðaði það frekar og fannst það svolítið spennandi þar sem iðngrein og tækni fléttast saman. Ég ákvað að skrá mig í rennismíðina og í versta falli hefði ég skipt um iðngrein ef ég hefði ekki fundið mig þar. Annars líkaði mér námið hjá Tækniskólanum, aðstaðan góð og kennararnir toppmenn. Ég tók námssamning hjá Hamri og starfa hjá þeim og ég vonast eftir að geta þróast þar í starfi.“

Hin 18 ára Princes Elysa Bragita Diana hlaut verðlaun fyrir næstbestan heildarárangur í skólanum. Elysa kom til Íslands frá Indónesíu í desember 2019 og hóf nám á íslenskubraut í Tækniskólanum á vorönn 2020. Samkvæmt henni voru kennararnir mjög hjálpsamir og kveiktu hjá henni áhuga á náminu. Á næstu önn ætlar Elysa á náttúrufræðibraut Tækniskólans og hyggst ljúka stúdentsprófi þaðan. Hún hefur mikinn áhuga á heilbrigðisvísindum og í framtíðinni gæti hún hugsað sér að fara í háskólanám á því sviði.

 

Ferðaðist 6.500 km og útskrifast nú af pípulagningabraut

Aref QasemiAref Qasemi hlaut verðlaun fyrir góða ástundun og þrautseigju í námi. Hann hóf nám á íslenskubraut á vorönn 2017 og er nú að útskrifast af pípulagningabraut, 22 ára gamall. Aref er frá Afganistan og kom hingað til lands árið 2016 eftir að hafa orðið viðskila við fjölskyldu sína á leiðinni til Íran. Hann var í fimm ár á flótta og ferðaðist 6.500 km til þess að komast til Íslands. Eftir komu sína til landsins, lét Aref reyna á fjölskyldusameiningu, sem tókst að lokum og nú er fjölskyldan öll búsett hér á landi. Aref fann sig vel í Tækniskólanum og um pípulagningabraut sagði hann: „þetta var geggjað nám, virkilega skemmtilegt.“ Nú vinnur hann hjá SÍH pípulögnum og seinna meir stefnir hann á meistaranám í sama fagi. Það er skemmtileg staðreynd að bróðir Arefs stundar nú nám við sömu braut.

 

Útskriftarathöfnin var sérlega vel heppnuð og óskum við nemendum öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!

 

Ljósmyndir: Haraldur Guðjónsson Thors og Karen Helenudóttir.

Hér má sjá stemmningsmyndir frá athöfninni en einstaklingsmyndir af nemendum koma inn á næstu dögum.