Vefskólinn í breyttri mynd
Námið verður endurskipulagt til að henta fleirum
Tekin hefur verið ákvörðun um að taka ekki inn nýjan bekk í vefþróun í Vefskólanum núna í haust. Ákveðið hefur verið að nota haustið til að endurskipuleggja námið með það fyrir augum að það muni henta fleirum. Námið hefur verið kennt í dagskóla á tveimur árum og skilað nemendum með diplómanám í vefþróun. Þetta er hagnýtt nám sem veitir sértæka þekkingu í vefhönnun, HTML og CSS, JavaScript 1, notendaviðmóti, notendaupplifun og aðgengismálum. Nemendur öðlast leikni til þess að þróa, hanna og forrita veflausnir og hefur þetta verið eina námsleiðin á Íslandi sem býður þetta nám.
Núverandi nemendur halda áfram í sama námsskipulagi
Þessi ákvörðun með að breyta náminu kemur ekki til með að hafa nein áhrif á áframhaldandi nám þeirra sem nú eru í náminu og eru að hefja annað árið sitt. Fundað hefur verið með núverandi nemendum og þeim skýrt frá þessari breytingu.