Vinnustaðanám eða starfsþjálfun á vinnustað er hluti af námsskipulagi nemenda á námsbrautum sem veita rétt til að taka sveinspróf.
Grunnreglan er sú að nemendur sæki sitt vinnustaðanám undir handleiðslu meistara á vinnustað. Gert er ráð fyrir að nemendur sæki um námssamning hjá meisturum/fyrirtækjum/stofnunum sem mega taka nema. Hér má sjá skráð fyrirtæki sem taka við nemum. Þannig getur neminn sjálfur haft áhrif á það hvar hann tekur námssamninginn. Slíkt er kallað samningsleið/iðnmeistaraleið.
Nemendur þurfa að skipuleggja nám sitt í samræmi við reglur sinnar námsbrautar og í samráði við vinnustaðinn, hvenær þeir taka vinnustaðanámið/námssamninginn í námsferlinu.
Þegar fyrirtækið hefur samþykkt að taka nema í vinnustaðanámið þá sækir neminn um hér að skólinn geri námssamninginn og stofni ferilbókina. Í framhaldinu fá neminn og meistarinn námssamninginn til rafrænnar undirritunar og aðgang að ferilbókinni.
Skólinn veitir nemendum aðstoð, ef á þarf að halda, við að sækja um vinnustaðanám. Skólinn gerir námssamninginn og stofnar rafræna ferilbók fyrir nemandann. Hér er hægt að sjá innihald ferilbóka sem hafa verið gefnar út.
Hér má sjá kennslumyndband fyrir tilsjónaraðila og leiðbeiningar frá Menntamálastofnun varðandi rafræna ferilbók.
Meðan á vinnustaðanámi/námssamningi stendur eru nemendur skráðir virkir í skólanum, að því gefnu að þeir sýni virkni í ferilbók. Vinnustaðanámið er þannig hluti af námsferli nemenda sem gefur einingar í samræmi við viðkomandi námsbraut. Nemendur í vinnustaðanámi hafa því forgang að koma aftur í einstaka áfanga á sinni námsbraut þegar þar að kemur.
Verkefnastjóri vinnustaðanáms er Sigurjóna Jónsdóttir.