Nemendur, kennarar og aðrir starfsmenn í Tækniskólanum geta sótt um styrki til að fara til Evrópulanda til að taka þátt í verkefnum og námskeiðum tengdum sínum faggreinum. Einnig er hægt að sækja um styrk til að fara í starfsþjálfun í framhaldi af námi í Tækniskólanum. Tækniskólinn er virkur þátttakandi í Erasmus+ verkefni Evrópusambandsins sem styrkir menntun, þjálfun, æskulýðsstarf og íþróttir í Evrópu.
Ávinningur af erlendum samskiptum af þessu tagi er mikill, nemendum gefst kostur á að öðlast skilning á sínu fagi í alþjóðlegu samhengi auk reynslu af því að búa og starfa á erlendri grund.
Á hverju ári sendir Tækniskólinn nemendur og kennara til annarra landa til að taka þátt í verkefnum og námskeiðum eða í starfsþjálfun tengda námi þeirra í skólanum.
Ávinningur erlendra samskipta er m.a. að nemendur öðlast skilning í faginu á alþjóðlegum grunni og betri sýn á þau tækifæri sem bjóðast í tengslum við það. Ekki má heldur vanmeta reynsluna af því að búa og starfa á erlendri grund.
Nemandi þarf að vera orðinn 18 ára og getur verið úti frá tveimur vikum til tólf mánaða eftir tilhögun og samkomulagi.
Tækniskólinn er í samstarfi við fjölda skóla víðs vegar um Evrópu. Einnig hefur verið komið á góðu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki þar sem nemendur hafa getað tekið starfsnámið sitt eins og t.d. í Danmörku, Skotlandi og Svíþjóð.
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir, deildarstjóri upplýsinga- og alþjóðadeildar og Ásgerður Sveinsdóttir verkefnastjóri hafa umsjón með alþjóðamálum. Þær aðstoða nemendur, kennara og aðra starfsmenn við að finna skóla, fyrirtæki og námskeið erlendis.
Ingibjörg svarar einnig spurningum um starfsnám erlendis og veitir upplýsingar um umsóknarferlið til að fá styrk fyrir slíku námi.
Nemendur fá styrk til skiptináms, námskeiða eða til að taka lögbundið starfsnám. Styrkirnir ná til ferða sem eru allt frá því að vera tvær vikur upp í tólf mánuði. Nemendur skrifa smá frétt eða grein til að birta hér á vefsíðu skólans eftir að dvölinni erlendis lýkur.
Hér má sjá umsagnir um ferðir og verkefni nemenda sem hafa farið út á Erasmus+ styrk.
Tækniskólinn býður nemendum sínum upp á fyrsta flokks menntun sem nýtist þeim hvort sem þeir hyggjast halda beint úr í atvinnulífið eða til framhaldsnáms í fagskólum og háskólum, bæði innanlands og utan. Evrópa er að stórum hluta orðið eitt atvinnusvæði og ungt fólk sem er að ljúka námi vill eiga möguleika á að starfa og búa víðs vegar um heiminn, öðlast fjölþætta reynslu, læra nýja siði og venjur sem síðan auðga samfélag þeirra.
Tækniskólinn vill veita nemendum sínum möguleika á að kynnast straumum og stefnum erlendis.
Hér má sjá alþjóðastefnu skólans í gæðahandbók.
Tækniskólinn er með Erasmus+ aðild
Með Erasmus aðild er staðfest að skólinn hafi unnið vandaða áætlun um fjölþjóðlegt samstarf og náms- og þjálfunarferðir sem hluta af stefnumörkun til framtíðar. Þeir skólar og stofnanir sem hafa staðfest aðild sína að áætluninni geta framvegis sótt um styrki til náms og þjálfunar á einfaldari hátt. Aðildin snýr eingöngu að náms- og þjálfunarverkefnum og er leið til að einfalda alþjóðastarf skóla og annarra þátttakenda.
Gæðaviðurkenning 2021–2024
Tækniskólinn er handhafi gæðaviðurkenningar fyrir framúrskarandi náms- og þjálfunarverkefni sem fara fram árin 2021 til 2024 og veita nemendum og starfsmönnum tækifæri til framtíðar.
Notifications