Menu

Fréttir

24. maí 2025

Brautskráning Tækniskólans

Útskrift Tækniskólans 2025

,,Við skulum öll leitast við að vera fólk sem bæði vandar sig og lifir fallega”, sagði Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, undir lok hátíðarræðu sinnar við útskrift skólans í Hörpu og vitnaði þar í ljóð Höllu Jónsdóttur.

Fjölbreyttur hópur nemenda brautskráðist frá Tækniskólanum við hátíðlega athöfn laugardaginn 24. maí. Alls útskrifuðust 521 nemendur af 34 ólíkum námsbrautum. Hildur Ingvarsdóttir rifjaði upp gróskumikið skólastarf á liðinni önn. Í ræðu sinni fjallaði hún m.a. um þá fjölmörgu viðburði sem nemendur skipulögðu eða tóku þátt í á vegum skólans. Einn þeirra er forritunarkeppni grunnskólanna.

Nemendur á tölvubraut Tækniskólans halda þessa keppni árlega með dyggum stuðningi kennara deildarinnar. En þeir gera ekki bara það, heldur bjóða þeir grunnskólanemum upp á sérstakt forritunarnámskeið á undan, þeim að kostnaðarlausu. Allt er þetta gert til að efla áhuga grunnskólanemenda á forritun.

Hildur nefndi góðan árangur nemenda á Íslandsmóti iðn- og verkgreina sem fór fram í marsmánuði en þar hlutu nemendur skólans 11 Íslandsmeistara. Þá munu 6 núverandi og fyrrverandi nemendur skólans keppa fyrir hönd þjóðarinnar á Evrópumeistaramótinu í iðngreinum í september (Euroskills).

Fjölmargar útskriftarsýningar nemenda á vorönn 2025 voru einnig til umfjöllunar hjá Hildi. Þar kom hún inn á áhugavert handverk frá útskriftarnema í kjólasaumi og klæðskurði. Það er kjóll sem söngkonan Una Torfadóttir klæddist meðal annars á þjóðhátíð í Eyjum í fyrra sem er hannaður og saumaður af Daníel Kristni Péturssyni.

Daníel var að vinna hjá 66 norður og tók eftir peysum sem mátti ekki selja vegna framleiðslugalla. Hann fékk þá hugmynd, að endurnýta peysurnar og búa til hlýjan kjól sem væri fullkominn fyrir útihátíðir.

Að lokum gaf Hildur útskriftarnemendum heilræði og tengdi hún það við eitt af gildum skólans. Hún hvatti nemendur til þess að sýna samferðafólki sínu alúð, samkennd, umburðarlyndi og virðingu. Að hjálpa öðrum og þiggja hjálp þegar móti blæs og miðla dýrmætri þekkingu sinni af alúð.

Hér má lesa hátíðarræðu skólameistara í heild sinni.

Nemendur settu skemmtilegan svip á athöfnina með lifandi tónlistarflutningi, hátíðarræðu og listsköpun. Skólastjórnendur klæddust kjólum sem hannaðir voru og saumaðir af nemendum í kjólasaumi. Tónlistaratriði fékk góðar viðtökur. Brynja Gísladóttir nemandi í málaraiðn söng tvö lög og stóð sig af mikilli prýði, en hún hafnaði í öðru sæti í Söngkeppni framhaldsskólanna í ár.

Eva Rut Tryggvadóttir, nýstúdent af stúdentsbrautinni K2, flutti einlæga og hlýja útskriftarræðu þar sem hún líkti lífinu við bók. Hver kafli hefur sitt gildi, hvort sem hann einkennist af gleði, áskorunum eða lærdómi. Hún hvatti samnemendur sína til að taka ábyrgð á eigin sögu, standa með sjálfum sér og hlusta á hjartað frekar en hávaðann í kringum sig. Eva sagði frá eigin vegferð en hún fann ekki fótfestu í öðrum skóla. Hún tók U-beygju, hóf nám í Tækniskólanum og blómstraði. Að lokum minnti hún útskriftarhópinn á að útskriftin væri upphaf nýs kafla og að framtíðin væri þeirra, hvort sem leiðin liggi í frekara nám eða út í atvinnulífið. Með alúð, gleði og hugrekki sem leiðarljós hvatti hún hópinn til að lifa lífinu til fulls.

 

Grindavík kallar á mig

Andri Hrafn Vilhelmsson, útskriftarnemandi Véltækniskólans, er fæddur og uppalinn í Grindavík. Frá rýmingu bæjarins hefur hann verið á flakki – fyrst í sumarbústað, síðan á Stokkseyri, því næst í miðbæ Reykjavíkur en nú býr hann í Keflavík. Andri hyggst flytja aftur til Grindavíkur með fjölskyldu sinni þegar grunnstoðir samfélagsins verða orðnar traustar. Hann þarf meðal annars að bíða eftir því að leik- og grunnskóli í bænum taki aftur til starfa, því fyrir sjö mánuðum eignaðist hann soninn Storm Má.

Andri var að ljúka námi í vélstjórn og segir hann áhugann á faginu hafa kviknað á sautjánda aldursári.

Ég ætlaði alltaf að verða sjómaður. Flestir í fjölskyldunni eru sjómenn. En þegar ég var að fá bílpróf var ég mikið að pæla í því hvernig bíl ég ætti að kaupa mér. Þá vaknaði áhuginn á vélum og ég fékk þessa hugmynd að vinna við vélar úti á sjó – svona pínu upgrade.

Andri keypti sér, BMW E60 520i, strax eftir bílprófið og hefur síðan verið heillaður af vélum.

Síðasta ár hefur verið viðburðaríkt. Samhliða námi hefur Andri sinnt föðurhlutverkinu og setið í stjórn SVÍR, Skólafélags vélstjórnarnema. Hann segir námið í Véltækniskólanum hafa verið krefjandi en mjög gefandi. Andri mælir eindregið með námi í vélstjórn og hvetur nýnema til að mæta strax á kaffistofu vélstjórnarnema, um leið og þeir hefja nám í skólanum.

Fyrst þegar ég byrjaði var ég ekkert að hanga á kaffistofunni – bara einn í símanum. Það eru allir velkomnir, þar myndar maður tengsl og eignast vini. Það eru tengslin sem maður myndar sem standa upp úr. Síðasta önnin fannst mér skemmtilegust þó hún sé erfiðust. Þá er allur útskriftarhópurinn að klára saman, alltaf upp í fiskabúri að læra fram eftir kvöldi.

Andri segir það vekja blendnar tilfinningar að kveðja skólann. Hann er stoltur af áfanganum en á eftir að sakna stemmningarinnar í fiskabúrinu. Í vetur hefur hann starfað bæði sem vélavörður á sjó og við vélsmíði hjá Stálvirkni í Grindavík. Í haust hefur hann fengið pláss sem vélstjóri hjá Gjögri sem gerir út frá Grindavík með Áskeli ÞH48.

Við óskum Andra innilega til hamingju með útskriftina með von um góðan byr í komandi verkefnum.

 

Íslandsmeistari í húsasmíði

Hans Haraldsson hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í húsasmíði. Hans hefur alla tíð haft mikinn áhuga á smíðavinnu og sá áhugi hefur heldur betur skilað sér í góðu handverki en hann varð Íslandsmeistari í húsasmíði í mars síðastliðnum.

Hans er 19 ára og hefur frá unga aldri verið iðinn við handverkið. Hann er uppalinn í Fossvoginum, æfði handbolta með Víkingi og gekk í Fossvogsskóla, síðar í Réttarholtsskóla, áður en leið hans lá í Tækniskólann. Val á námi í húsasmíði lá beint við.

Það kom aldrei neitt annað til greina. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á smíði og var mikið með afa mínum í verkfærum og smíðavinnu þegar ég var lítill. Langafi minn var húsasmíðameistari, svo þetta er líklega í blóðinu.

Á Íslandsmótinu stóð Hans sig með mikilli prýði, þrátt fyrir mikla pressu í upphafi. Þegar hann náði að slaka á og einbeita sér gekk keppnin vel og bar á endanum sigur úr býtum..

Það var sérstakt að heyra nafnið mitt kallað upp – en ég hafði trú á sjálfum mér og er alltaf að vinna í smíðum, hvort sem er heima eða í skólanum.

Hans hyggst halda áfram námi við skólann og stefnir nú á nám í húsgagnasmíði. Hann segir það heillandi að læra nýtt handbragð og bæta við sig reynslu. Samhliða námi hefur Hans starfað hjá Atlas verktökum frá því hann var 16 ára.

Við óskum Hans Haraldssyni innilega til hamingju með árangurinn og útskriftina og hlökkum til að fylgja honum á nýrri braut í Tækniskólanum.

 

Ólympíufari í forritun sem stefnir á nám í strjálli stærðfræði

Kristinn Hrafn Daníelsson ólst upp í Kópavogi, nánar tiltekið í Kársnesinu. Hann gekk í Kársnesskóla og æfði bæði fimleika og handbolta en það var parkour sem heillaði hann upp úr skónum.

Ég var sjö ára þegar parkour var auglýst í Stundinni okkar. Ég sá einhvern krakka gera kollhnís og hugsaði: Ég kann þetta! Ég spurði mömmu hvort ég mætti byrja að æfa parkour – og það geri ég enn í dag. Ég myndi segja að ég sé bara alveg ágætur í því. 

Kristinn útskrifast af tölvubraut Tækniskólans en áhugaverðir áfangar á brautinni vöktu áhuga hans, eins og vefforritun, kerfisstjórnun og ekki síst keppnisforritun.

Mér fannst tölvur skemmtilegar og hafði aðeins fiktað í forritun í grunnskóla. En þegar ég sá að það væri sérstakur áfangi í keppnisforritun vissi ég að ég yrði að fara í hann. Ég er með smá keppnisskap. En ég bjóst aldrei við því að keppnin myndi leiða mig svona langt – eða að það væru beinlínis Ólympíuleikar í forritun!

Á fyrsta ári tók Kristinn þátt í Forritunarkeppni framhaldsskólanna í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hann og liðsfélagarnir Þórbergur Egill og Artjom Pushkar sigruðu Delta-deildina fyrir byrjendur. Í framhaldinu fékk Kristinn boð um að taka þátt í æfingum hjá Keppnisforritunarfélagi Íslands, sem heldur utan um undirbúning fyrir þátttöku Íslands í alþjóðlegum keppnum. Síðan þá hefur hann keppt á Norðurlandaólympíuleikum, Eystrasaltsólympíuleikum og Alþjóðlegu Ólympíuleikunum í forritun og ferðast með íslenska hópnum til Egyptalands, Ungverjalands, Austurríkis, Póllands, Litáens og Danmerkur.

Í gegnum keppnisforritun áttaði ég mig á því hvað mig langar að læra í háskóla. Keppnirnar vöktu áhuga minn á gagnagreiningu, reikniritum og strjálli stærðfræði. Ég stefni á BS-gráðu í tölvunarfræði með áherslu á strjála stærðfræði – líklega í Háskóla Íslands eða Háskólanum í Reykjavík.

Meðal minninga sem standa upp úr frá skólagöngunni er ferð til Kanaríeyja þar sem hópur nemenda tók þátt í Makeathoni – nýsköpunarkeppni. „Við þróuðum ruslatunnu sem tekur mynd af rusli og á að greina hvernig á að flokka það. Það var ótrúlega skemmtilegt.“

Kennslustundir hjá Sigurði kennara voru hápunktur skólagöngunnar að sögn Kristins.

Það er alltaf gaman í kennslustundum hjá honum. Hann er sanngjarn kennari, til í að aðstoða mann og svo gerir hann efnið lifandi og skemmtilegt. Ef þú ætlar í Tækniskólann – farðu í áfanga hjá Sigga!

Rafmagnið heillar

Ylfa Ásgerður útskrifast í dag af hönnunar- og nýsköpunarbraut Tækniskólans. Hún er Vesturbæingur og gekk í Waldorfskólann Sólstafi þar sem mikil áhersla er lögð á skapandi greinar. Ylfa er einstaklega fjölhæf og skapandi, semur texta, þjálfar hunda, heklar, saumar, málar og teiknar. Þessa dagana eru það tónsmíðar sem heilla mest en hún lærir tónfræði með ömmu sinni, Ellu, sem var skólastjóri Tónlistarskóla Húnaþings vestra.

Það eru gæðastundir að læra með ömmu Ellu.

Ylfa hefur einnig ástríðu fyrir íþróttum og hefur stundað sund frá unga aldri. Hún keppir í þríþraut, hefur lokið þjálfararéttindum og starfar sem yfirþjálfari sumarsundskóla Ægis. Megnið af skólagöngunni í Tækniskólanum æfði hún allt að átta sinnum í viku og segir íþróttirnar hafa haft jákvæð áhrif á nám sitt.

Íþróttir hafa kennt mér aga og hjálpað mér að nýta tímann. Þær styðja við námið – taka ekkert frá, bara bæta við.

 

Ylfa valdi Tækniskólann bæði vegna námsins á hönnunar- og nýsköpunarbraut og vegna afa síns, Aðalsteins Ómars Aðalsteinssonar, sem nam rennismíði í Tækniskólanum og síðar í Meistaraskólanum. Hún segir námið henta vel þeim sem hafa sköpunargáfu og áhuga á handverki og hönnun, en vilja jafnframt ná sér í stúdentspróf.

Þetta er góð blanda af bóklegu og verklegu námi. Gull- og silfursmíði stóð sérstaklega upp úr, þar ég fann sterka tengingu við minningu afa míns. Hann var algjör snillingur, vinnufélagar hans kölluðu hann töframanninn.

Næsta haust hyggst Ylfa hefja nám í grunnnámi rafiðna við Tækniskólann. Ákvörðunin kviknaði eftir að hún heimsótti vinkonu sína sem var í valáfanga í rafvirkjun.

Ég sá hana búa til innstungu fyrir lampa sem hún hafði sjálf hannað og hugsaði: Hvernig virkar þetta? Þetta er eitthvað fyrir mig, að tengja saman hönnun, stærðfræði og virkja með rafmagni.

Að lokum hvetur Ylfa öll sem eru að íhuga framhaldsskólanám til að velja eitthvað sem vekur áhuga og skapar gleði.

Veldu nám sem þú hefur raunverulegan áhuga á, eitthvað sem þú trúir að þú getir orðið virkilega góð í.

Úr Kvennó í pípulagnir

Erla Bjarnadóttir er nýflutt í Mosfellsbæ og býr þar ásamt foreldrum sínum en hún ólst upp í Kópavogi. Sex ára gömul hóf hún nám í Álfhólsskóla, þar sem hún lauk grunnskólagöngu sinni, og hélt þaðan í Kvennaskólann í Reykjavík. Eftir það lá leiðin beint í Tækniskólann því Erla hafði alltaf ætlað sér að vera pípari.

Pabbi er pípari og mín helsta fyrirmynd. Ég byrjaði að vinna hjá honum sumarið fyrir í 8. bekk. Ég fékk fyrst bara að ryksuga, en fylgdist alltaf pípurunum og fannst starfið áhugavert.

Erla lýsir dvölinni í Tækniskólanum sem mjög jákvæðri. Hún segir kennarana hafa verið frábæra, alltaf tilbúna að aðstoða nemendur og bekkjarandann góðan. Sérstaklega naut hún þess að taka teikniáfanga þar sem hún lærði m.a. að hanna lagnir í AutoCAD. Erla hefur lengi haft áhuga á myndlist og segir þessa áfanga hafa opnað leiðir til að sameina áhugann á pípulögnum og hönnun. Hún stefnir nú á byggingartæknifræði við Háskólann í Reykjavík og langar að skoða framhaldsnám erlendis.

Þrátt fyrir mikla ánægju í námi og starfi, hefur hún mætt hindrunum sem ung kona í karlægri iðngrein.

Ég held að mín stærsta áskorun á síðustu árum hafi einfaldlega verið að skrá mig í píparann og að standa við þá ákvörðun. Ég hef fundið fyrir ákveðnum fordómum fyrir því að vera ung kona í svona „karlastarfi“. Stundum upplifi ég að það sé ekki hlustað á mig, skoðanir mínar séu hunsaðar. Vinnufélagar mínir hafa til dæmis verið spurðir hvort það sé ekki truflandi að vinna með „svona sætri stelpu“.

En hvernig tekst maður á við slíkar hindranir?

Ég tók mér pásu frá vinnunni hjá pabba. Áður tók ég athugasemdir nærri mér, en eftir pásuna kom ég sterkari til baka. Þú munt fá einhver skítakomment, en þetta lið hefur ekkert rétt fyrir sér. Hindranirnar hafa gert mig sterkari. Ég vil sýna að konur geta sinnt svokölluðum karlastörfum – enda eru öll störf kvennastörf.

 

Við óskum öllum útskriftarnemendum Tækniskólans til hamingju með áfangann!