fbpx
Menu

Fréttir

12. janúar 2022

Frá Öræfum í Tækniskólann

Á þriðja tug nemenda hefur nám í flugvirkjun á vorönn 2022. Námið  er fjölbreytt og býður upp á mikla starfsmöguleika, hérlendis sem erlendis.

Full­búin aðstaða er til verk- og bók­legrar kennslu í Árleyni í Reykjavík en einnig fer hluti námsins fram á Flugsafni Íslands á Akur­eyri og hjá viðhalds­fyr­ir­tækjum.

Innritun í flugvirkjun er opin til og með 15. janúar næstkomandi og örfá sæti laus í námið.

 

Námið getur opnað á ýmsa möguleika

Við komum við í Árleyni á dögunum, þar sem kennsla fer fram í Reykjavík og fengum að spjalla við tvo nemendur, sem voru að hefja skólagöngu sína í flugvirkjun.

Sandra Rós er tvítug, frá Litla-Hofi í Öræfum og lauk hún stúdentsprófi af félags- og hugvísindabraut frá Menntaskólanum að Laugarvatni. Eftir stúdent íhugaði hún nám við Háskóla Íslands en eftir að hafa kannað ýmsa kosti fann hún að iðnnám heillaði frekar. Hún ákvað því að prófa eitthvað algjörlega nýtt og skrá sig í flugvirkjun. Söndru líst vel á námið, telur það geta opnað á ýmsa möguleika í framtíðinni og segir að móttökurnar hafi verið góðar.

Sandra brosir í gegnum grímuna þegar við spyrjum hana hvað hún borði í morgunmat. En hún segist vera lítið fyrir morgunmat og fái sér ekkert fyrr en í morgunkaffinu. Þegar við spyrjum hana hver sé fallegasti staður landsins, að hennar mati, er svarið einfalt – Sandra segir að Öræfin séu fallegasti staður á Íslandi.

 

Alltaf til í að prófa eitthvað nýtt

Hilmir Freyr er 21 árs gamall og kemur frá Sandgerði í Suðurnesjabæ.

Hann hefur alltaf haft áhuga á vélum og var stefnan upphaflega tekin á bifvélavirkjun. Þegar hann stundaði nám við Framhaldsskólann á Suðurnesjum var hann í áfanga þar sem nemendum var boðið í heimsókn í flugskýlið hjá Icelandair á Keflavíkurflugvelli og kveikti það áhuga hans á flugvirkjun. Honum leist mjög vel á umhverfið og ákvað að skipta um stefnu, enda alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.

Hilmir er mikill bílaáhugamaður og þegar við spyrjum hann hver drauma bíllinn hans sé, þá svarar hann, Ford Mustang 1967 árg. Á morgnanna fær Hilmir sér oftast morgunkorn, Cheerios eða Coco Puffs.

Við óskum þeim Hilmi og Söndru góðs gengis í náminu!