Menu

Fréttir

06. júní 2025

Góð heimsókn frá Grænlandi

Menntamálaráðherra á siglingu um skólann

Í dag, föstudaginn 6. júní, heimsótti Nivi Olsen menntamálaráðherra Grænlands Tækniskólann ásamt sendinefnd. Tilefnið var að kynnast fjölbreyttu námsframboði skólans og að efla tengsl milli menntastofnanna á Íslandi og Grænlandi. Hildur Ingvarsdóttir skólameistari Tækniskólans og Víglundur Laxdal skólastjóri Skipstjórnar og Véltækniskólans tóku á móti hópnum undir fánum beggja þjóða.

Mér hlýnaði um hjartarætur að sjá grænlenska fánann blakta í tilefni heimsóknarinnar. Hún var mér mikill innblástur og gaf mér hugmyndir um hvað við getum gert betur á Grænlandi,“ sagði menntamálaráðherra.

Gestirnir fengu kynningu á starfsemi skólans með sérstaka áherslu á vélstjórnar-  og skipstjórnarnám. Góðar umræður sköpuðust á fundinum og talaði Nivi Olsen um þá staðreynd að sjávarútvegur sé mikilvægasta atvinnugrein Grænlands og helsta tekjulind landsins. Það er því mikilvægt að efla menntun í vélstjórn og skipstjórn, en um leið að stuðla að fjölbreyttum námsleiðum sem henta öllum ungmennum, bæði þeim sem blómstra í bóklegu og verklegu námi.

Í heimsókninni prófaði ráðherrann meðal annars siglingahermi skólans og landaði þar skipi í Vestmannaeyjahöfn af mikilli seiglu og öruggri stjórn, við góðar undirtektir viðstaddra.

Við þökkum Nivi Olsen og fylgdarliði hennar kærlega fyrir komuna og hlökkum til frekara samtals og samvinnu.

Qujanarujussuaq!