fbpx
Menu

Fréttir

29. maí 2020

Hátíðardagur í Hörpu

Glæsilegur hópur útskriftarnemenda mætti til útskriftar í Eldborgarsal Hörpu, föstudaginn 29. maí, en vegna Covid 19 var útskrifað í tveimur athöfnum.

Alls voru brautskráðir 388 nemendur af 81 fagbraut frá eftirfarandi skólum/deildum skólans: Byggingatækniskólanum, Handverksskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Véltækniskólanum og Meistaraskólanum. Einnig var útskrifað úr Tækniakademíunni sem er nám á fagháskólastigi en þar er kennd vefþróun og starfræn hönnun.

Hugvit og umhyggja

Hildur Ingvarsdóttir skólameistari fjallaði eins og margur um sérstöðu þessarar annar vegna veirunnar sem hefur breytt heiminum. ,,Það er eitthvað alveg sérstakt við það að upplifa þá uppskeru sem annarlok og undirbúningur útskriftar og svo útskriftarafhöfnin sjálf er.  Og að þessu sinni er það enn sérstakara – því á bak við hvert einasta nafn á hverju einasta skírteini liggur sterkur einstaklingur-  einstaklingur sem kláraði þrátt fyrir að skólalífið eins og við þekkjum það hafi snúist á hvolf á miðri önn.“  Hildur sagði frá því hvernig nemendur, kennarar og annað starfsfólk skólans hefðu í sameiningu umbreytt náminu á augabragði og sýnt mikla þrautseigju, jákvæðni, hugvit, útsjónasemi, vilja og umhyggju til að láta allt ganga.  Þessir eiginleikar munu nýtast útskriftarnemendum vel í því sem framundan er.

Yngstur til að ljúka D-réttindum í skipstjórn

Einar Bergmann, útskriftarnemandi í skipstjórn, hélt ræðu við fyrri athöfnina þar sem hann þakkaði kennurum sérstaklega fyrir útsjónarsemi og góða kennslu á tímum Covid- 19. Einar er jafnframt yngsti nemandinn sem hefur náð þeim árangri að útskrifast með D- réttindi til skipstjórnar, en hann er 18 ára.

Tveir dúxar Tækniskólans

Reyn Alpha Magnúsar af tölvubraut og Njáll Halldórsson af náttúrufræðibraut flugtækni eru dúxar Tækniskólans á vorönn 2020 . Eins og gefur að skilja þá sópuðu þau til sín verðlaunum fyrir framúrskarandi námsárangur.

Hannaði skartið og sumaði búninginn sjálf

Anna Guðlaug Sigurðardóttir útskriftarnemandi í gull- og silfursmíði hlaut verðlaun fyrir góðan árangur á stúdentsprófi samhliða faggrein. Anna Guðlaug er einn af yngstu nemendum skólans sem lokið hafa námi í gull- og silfursmíði. Hún er mikil handverkskona og til gamans má geta að hún mætti í þjóðbúning sem hún saumaði sjálf, auk þess að hafa smíðað glæsilegt skart sem hún bar.  Þá bar Hildur skólmeistari glæsilegan hring sem Anna Guðlaug hannaði og smíðaði.

Frá Afganistan á íslenskubraut

Einn verðlaunahafa Tækniskólans er Ali Akbar Rasouli  en hann kom til Íslands ásamt einginkonu sinni Zörha árið 2017.  Þá höfðu þau verið í 2 ár á flótta frá Afganistan.  Ali útskrifaðist af íslenskubraut með góðum árangri og hlaut bjartsýnisverðlaun Tækniskólans. Í haust mun Ali hefja nám á málarabraut skólans.

Myndir

Myndir frá athöfninni má sjá á flickr síðu Tækniskólans HÉR

Ath. myndir af öllum útskriftarnemendum koma inn á vef skólans á næstu dögum.