Hátíðleg athöfn í Hörpu
Hátíðleg athöfn í Hörpu
Glæsilegur hópur útskriftarnemenda mætti til útskriftar í Eldborgarsal Hörpu miðvikudaginn 26. maí. Vegna gildandi sóttvarnartakmarkana var útskrifað í tveimur athöfnum en sú fyrri hófst kl. 14:00 og sú seinni kl. 17:00.
Alls voru brautskráðir 477 nemendur af 54 námsbrautum frá eftirfarandi skólum/deildum Tækniskólans: Byggingatækniskólanum, Hönnunar- og handverksskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Véltækniskólanum og Meistaraskólanum. Einnig var útskrifað úr Tækniakademíunni sem er nám á fagháskólastigi en þar er kennd vefþróun og starfræn hönnun.
Líkt og venjan er settu nemendur skólans svip sinn á útskriftina en Erla Ösp, nemandi í grafískri miðlun, flutti tónlistaratriði í báðum athöfnum og tveir nemendur héldu ræðu. Þá klæddust Guðrún Randalín aðstoðarskólameistari og Hildur Ingvarsdóttir skólameistari flíkum sem útskriftarnemendur í kjólasaumi hönnuðu og saumuðu á þær.
Námið hefur gefið okkur ýmis verkfæri
Haukur Georgsson, nemandi á K2, flutti ræðu á fyrri athöfninni og kom meðal annars inn á það hvernig námið í skólanum mun nýtast í framtíðinni. ,,Námið hér í Tækniskólanum hefur gefið okkur ýmis verkfæri til að nota á næstu námsþrepum og í lífinu. Verkfæri eins og stærðfræði, stýritækni, forritun, steinsteypuvirki og fleira. En eitt verkfæri bætti sér vissulega óvænt í þessa verkfærakistu. Fjarfundartækni, Zoom og Teams. Þá tækni kunnum við svo sannarlega að nota eftir námið og mun það ábyggilega koma að gagni.“
Þórdís Alda, nemandi í stafrænni hönnun, fluttu ræðu í seinni athöfn útskriftarinnar. Hún talaði um skólastarfið á tímum Covid og hvernig Tækniskólinn stóð undir nafni með því að finna snöggar, tæknilegar lausnir á vandanum. Þórdís kom einnig inn á upplifun sína á skólanum en það sem kom henni mest á óvart var hversu persónulegir kennararnir voru og hversu ofboðslega mikið er hægt að læra undir einu þaki.“
Verkefni nemenda sjást víða
Hildur Ingvarsdóttir flutti ávarp þar sem hún fjallaði meðal annars um áhrif heimsfaraldurs á skólaárið og góðan árangur nemenda þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Það má meðal annars sjá ummerki þessa árangurs í námi, félagsstarfi, íþróttum og á sýningum. ,,En verkefni nemenda sjást víðar. Þannig er okkur Guðrúnu Randalín aðstoðarskólameistara t.d. sannur heiður að fá í dag að klæðast kjól og dragt sem tveir útskriftarnemendur skólans í kjólasaumi, þær Vigdís Brandsdóttir og Elizabeth Katrín Mason, hönnuðu og saumuðu á okkur. Og eins og það sé ekki nóg þá berum við einnig skart núverandi og fyrrverandi nemenda í gull- og silfursmíði.“
Besti heildarárangur í skólanum hjá tveimur nemendum í Tækniteiknun
Heiða María Ásgeirsdóttir, nemandi í tækniteiknum, hlaut verðlaun fyrir bestan heildarárangur í skólanum.
,,Námið fannst mér ótrúlega skemmtilegt og krefjandi. Það sem gerði gæfumuninn voru klárlega samnemendur mínir og finnst mér þau eiga skilið stórt hrós fyrir, við erum orðin mjög náin og veit ég að þeim eru allir vegir færir. Einnig voru kennarar mínir mjög hjálplegir, stóðu sig vel með alla Teams kennsluna og voru alltaf til staðar fyrir mann. Stefnan er tekin á vinnumarkaðinn og svo mögulega áframhaldandi nám seinna en hvort eða hvenær ég geri það kemur bara í ljós.“
Hafþór Ingi Helgason, sem einnig útskrifast úr tækniteiknun, hlaut verðlaun fyrir næstbestan árangur. Fyrir er hann með sveinspróf í húsgagnasmíði og stúdentspróf en skráði sig svo í tækniteiknun. ,,Mér fannst þetta nám áhugavert og langaði að prófa það. Ég hafði mjög gaman af þessu námi og lærði heilmikið. Ég hef fengið sumarstarf hjá RARIK á Akureyri sem tækniteiknari en framhald eftir það er óljóst.“
Mikil aukning nemenda í dúkalögn
Aðsókn í dúkalögn hefur glæðst verulega undanfarin ár og útskrifaðist nú í fyrsta sinn í langan tíma heill hópur úr faginu. Alls voru þetta sjö nemendur og þar af tvær konur fæddar árið 2003.
Andrea Sól Svavarsdóttir er ein þeirra og á hún ekki langt að sækja þekkinguna á faginu. „Ég hef verið að vinna með pabba og afa í gegnum tíðina og hjálpa þeim. Þeir hafa verið að vinna við þetta alla daga bara síðan ég man eftir mér.“ Samkvæmt Andreu var námið í dúkalögn fjölbreytt og skemmtilegt með krefjandi verkefnum. „Kennarinn er hæfileikaríkur og náði að halda vel utan um þennan stóra hóp. Ég er mjög ánægð að hafa valið iðnnám og spennt fyrir komandi árum.“
Ingunn Björnsdóttir útskrifaðist einnig úr dúkalögn og stefnir hún á að klára námssamninginn og taka síðan sveinsprófið í framhaldi af því. ,,Ég byrjaði í grunnnáminu þar sem maður fær að skoða og læra um allar greinar innan byggingardeildarinnar. Mér fannst dúklögn skemmtilegust og er að mínu mati mjög áhugaverður starfsvettvangur.“
Þetta er í fyrsta sinn sem konur útskrifast úr veggfóðrun- og dúkalögn á Íslandi og fagna kennarar í faginu fjölbreyttari nemendahóp og auknum fjölda nemenda í greininni.
Samtaka þríburar útskrifast úr vélstjórn
Þríburarnir Þórir Örn, Gunnar Már og Guðfinnur Ragnar útskrifuðust allir úr vélstjórn með D réttindi og í haust stefna þeir á að klára nám í rafvirkjun.
Bræðurnir koma frá Bolungarvík og eru fæddir árið 1998. Þeir byrjuðu hver í sínu námi í Menntaskólanum á Ísafirði en enduðu að lokum allir í vélstjórn og kláruðu B stigið fyrir vestan. Að því búnu tóku þeir hlé frá námi en ákváðu svo að klára í Tækniskólanum þar sem D stigið er ekki kennt í MÍ.
,,Þrátt fyrir að hafa allir valið þetta nám er áhugasvið okkar nokkuð fjölbreytt og vélstjórnaréttindin gera okkur kleyft að starfa á ólíkum stöðum á vinnumarkaðinum.“
Barnabörnin fá að heyra um það þegar afi fór í skólann
Sigurjón M. Sigurjónsson, sem útskrifaðist úr skipstjórn, fór nokkuð óhefðbunda leið í gegnum námið. Sigurjón er fæddur á Akureyri árið 1956 og að hans sögn eyddi hann bernskuárunum sullandi í fjöruborðinu á Eyrinni. Sigurjón var mikið á sjónum en lærði einnig bílamálun og réttingar og stjórnaði bílaverkstæði til margra ára. Eftir það vann hann sem verktaki við hin ýmsu störf en fann sig þó aldrei fullkomlega.
,,Svo gerðist það dag einn að ég og bróðir minn vorum að sötra kaffi og fórum að ræða um hvað það væri sniðugt ef ég næði mér í réttindi á litla báta. Stuttu seinna var ég mættur í Stýrimannaskólann til að ná mér í lágmarksréttindi og rölti svo heim. En það gerðist eitthvað gott inni í þessu merkilega húsi því mér hefur aldrei liðið vel í skóla fyrr en í Stýrimannaskólanum. Ég eignaðist fljótt góða kunningja og vini sem hvöttu mig til dáða og námsréttindin jukust með hverju árinu. Svo var það haustið 2019 að tveir vinir mínir „göbbuðu“ mig til að taka stúdentinn. Besta gabb fyrr og síðar segi ég nú bara. Skólagangan er í raun sigling. Maður nær alltaf landi, ef maður heldur vöku sinni, er samviskusamur og duglegur. Stöku sinnum sigldi ég beitivind en oftast fékk ég góðan byr og mun ég búa lengi að því sem ég hef lært í þessum skóla. Eftir að ég tók ákvörðun um að verða stúdent varð skólagangan að nokkurskonar pílagrímsferð sem nú er lokið. Sá lærir sem lifir og barnabörnin fá að heyra allt um það þegar afi fór í skólann.“
Báðar útskriftarathafnir voru sérlega vel heppnaðar og óskum við nemendum öllum hjartanlega til hamingju með áfangann!
Ljósmyndir: Haraldur Guðjónsson Thors, kennari í Upplýsingatækniskólanum og Fannar Freyr Snorrason, nemi.