fbpx
Menu

Fréttir

08. nóvember 2023

Icelandair og Tækniskólinn í samstarf

Icelandair og Tækniskólinn efla tækifæri til náms og starfa í flugvirkjun

Icelandair og Tækniskólinn hafa gert samkomulag um samstarf við kynningu og framtíðaruppbyggingu náms og starfa í flugvirkjun á Íslandi í takt við framtíðaráætlanir Icelandair og metnað Tækniskólans.

Nám í flugvirkjun er krefjandi en skemmtilegt og flugvirkjastarfið býður upp á starfsmöguleika bæði hérlendis og alþjóðlega. Icelandair og Tækniskólinn munu standa að sameiginlegum kynningum á námi og störfum flugvirkja með fjölbreytileika og jafnrétti kynjanna að leiðarljósi. Þá mun Icelandair árlega bjóða allt að sex nemendum skólans að koma í launað starfsnám hjá félaginu í 24 mánuði, ásamt því að veita námsstyrk til eins nemanda á ári sem jafngildir skólagjöldum fyrir eina önn.

Tækniskólinn hefur boðið upp á nám í flugvirkjun síðan árið 2011 og tekur inn allt að 25 nemendur á hverju ári. Námið tekur um tvö ár í skóla auk vinnustaðanáms í framhaldinu. Umsóknarfrestur fyrir næsta hóp sem hefur nám í janúar 2024 er 30. nóvember næstkomandi.

 

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:

„Við erum flugþjóð og íslenskt samfélag á mikið undir öflugum flugsamgöngum til og frá landinu. Sem leiðandi flugfélag á Íslandi teljum við mikilvægt að styðja við menntun í flugtengdum störfum hér á landi samhliða framtíðaruppbyggingu flugs. Við kynntum nýlega flugnámsbraut fyrir verðandi flugmenn í samstarfi við norskan flugskóla og með samstarfinu við Tækniskólann viljum við vekja athygli á spennandi námi og áhugaverðum alþjóðlegum störfum flugvirkja. Eitt af markmiðum samstarfsins er að höfða til fjölbreytts hóps í takt við jafnréttismarkmið okkar og viljum við sérstaklega hvetja konur til að skoða þetta nám og starfstækifæri á þessu sviði.“

 

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans:

„Tækniskólinn hefur frá árinu 2011 lagt metnað sinn í að bjóða upp á metnaðarfullt nám í flugvirkjun hér á landi. Námið fer fram í fullkominni kennsluaðstöðu skólans í Árleyni í Reykjavík auk þess sem nemendur taka hluta verklega námsins í Flugsafninu á Akureyri og hjá viðhaldsaðilum. Atvinnu- og tekjumöguleikar í greininni eru góðir, bæði hérlendis og erlendis og tækifærin fjölbreytt. Icelandair hefur reynst skólanum vel í gegnum árin og er afar ánægjulegt að formfesta samstarf sem þetta. Við vonum að samstarfið verði til þess að styrkja frekar stoðir námsins, fjölga umsækjendum, auka fjölbreytileika nemendahópsins og útskrifa enn fleiri framúrskarandi flugvirkja.“