fbpx
Menu

Fréttir

04. mars 2018

Iðnnám – mikilvæg menntun

Iðnnám – mikilvæg menntun

Ráðstefna IÐNMENNTAR

Um 140 manns sóttu Ráðstefnu IÐNMENNTAR fimmtudaginn 1. mars síðastliðinn sem fór fram á Grand Hótel í Reykjavík og var hún afskaplega vel heppnuð. Yfirskrift ráðstefnunnar var Vinnustaðanám í starfsnámi. Fjallað var um efnið frá ýmsum hliðum auk þess sem þarft og fróðlegt samtal fulltrúa menntastofnana og atvinnulífsins átti sér stað.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, flutti opnunarávarp

Hún ræddi m.a. mikilvægi þess að efla iðn-, tækni- og verknám á Íslandi með því að bæta stjórnskipulag starfsnáms, innleiða rafrænar ferilbækur, endurskoða lög og reglugerðir er varða námið og fella niður efnisgjöld í framhaldsskólum. Hún áréttaði jafnframt að allt skólastarf ætti að hafa hagsmuni nemenda að leiðarljósi.

Fyrirlesarar voru meðal annarra Halldór Hauksson áfangastjóri og Jón B skólameistari Tækniskólans

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hélt erindi undir yfirskriftinni Verðmæt og eftirsótt menntun, og átti þá við iðn-, tækni- og verkmenntun sem eina af grunnstoðum afkastamikils atvinnulífs.
Dr. Elsa Eiríksdóttir, lektor í kennslufræði verk- og starfsmenntunar við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, tók næst til máls og sagði frá rannsókn sinni, Samspil náms í skóla og á vinnustað í löggiltum iðngreinum. Rannsóknin sýndi fram á að tvískipt kerfi iðnnáms á vinnustað og í skóla hefði marga kosti en ljóst væri að laga þyrfti ákveðin atriði til að nýta þá til fulls.
Í framhaldinu lá vel við að hlýða á Halldór Hauksson, verkefnastjóra rafrænna ferilbóka, með erindið Rafræn ferilbók, innihald og notagildi. Rafrænar ferilbækur gagnast til að gera öll samskipti milli skóla og vinnustaða einfaldari og skilvirkari auk þess sem umsjón með verkþáttum vinnustaðanámsins verður hnitmiðaðri.
Að lokum tók Jón B. Stefánsson, skólameistari Tækniskólans, til máls með erindið Starfsnám í skóla og á vinnustað. Þar sagði hann frá margþættum niðurstöðum starfshóps skólameistara um heildarskipulag á fyrirkomulagi starfsnáms í skóla og á vinnustað.
Á seinni hluta ráðstefnunnar fóru fram pallborðsumræður.
Ráðstefnunni var streymt beint á vefnum www.netsamfelag.is