fbpx
Menu

Fréttir

07. október 2022

Íslensku menntaverðlaunin

Íslensku menntaverðlaunin 2022Tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna 2022 voru kynntar þann 5. október, á alþjóðlegum degi kennara.

Markmið verðlaunanna er að auka veg menntaumbótastarfs og vekja athygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og ungmennum.

Tvær tilnefningar eiga uppruna sinn í Tækniskólanum í ár og enn önnur tilnefning sem Tækniskólinn tengist sterkum böndum:

Málarabraut Byggingtækniskólans
Fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun
Málarabraut Byggingatækniskólans er tilnefnd fyrir þróun einstaklingsmiðaðs og verkefnastýrðs náms í málaraiðn. Málarabrautin hefur verið framarlega í að innleiða nýjungar og byggja á einstaklingsmiðuðu námi. Virðing er borin fyrir reynslu og þekkingu nemenda og stendur þeim til boða mat á raunfærni sem styttir námstíma þeirra til sveinsprófs.

Tæknimenntaskólinn
Fyrir framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur
Tæknimenntaskólinn er einn af undirskólum Tækniskólans og er hann tilnefndur fyrir að þróa nám og kennslu með velferð og þarfir nemenda að leiðarljósi, í takt við síbreytilegar þarfir samfélagsins. Í skólanum eru framúrskarandi kennsluhættir sem svara þörfum samfélagsins með ólíkum námsleiðum fyrir fjölbreyttan nemendahóp.

Átaksverkefnið #kvennastarf
Fyrir framúrskarandi iðn- eða verkmenntun
Tækniskólinn í samstarfi við iðn- og verkmenntaskóla í landinu fá tilnefningu fyrir átaksverkefnið #kvennastarf sem hefur það að markmiði að stuðla að auknu jafnrétti til náms. Átakinu er ætlað að vera öllu ungu fólki, en sérstaklega stelpum, hvatning til að skoða alla möguleika í vali á námi og framtíðarstarfi og horfa opnum augum á hvar áhugasvið þeirra liggur.


Sjá má nánari upplýsingar um verkefnin og aðrar tilnefningar í frétt frá Samtökum áhugafólks um skólaþróun.

Við erum innilega stolt og hrærð yfir þessum tilnefningum.