fbpx
Menu

Fréttir

08. nóvember 2023

Lilja Ósk hlýtur hvatningarverðlaun

Ár hvert er 8. nóvember helgaður baráttunni gegn einelti og þá er Dagur gegn einelti haldinn hátíðlegur í skólum landsins.

Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu.

 

Lilja Ósk hlýtur hvatningarverðlaun

Í tengslum við daginn veitir mennta- og barnamálaráðuneytið hvatningarverðlaun til einstaklings eða verkefnis sem unnið hefur ötullega gegn einelti.

Það er okkur mikill heiður að tilkynna að í ár var það hún Lilja Ósk Magnúsdóttir, verkefnastjóri forvarna- og félagsmála, sem hlaut verðlaunin.

Guðni Th. Jóhannesson og Ásmundur Einar Daðason afhentu Lilju verðlaunin við hátíðlega athöfn í Hólabrekkuskóla í Breiðholti.

Fagráð gegn einelti hjá Menntamálastofnun valdi verðlaunahafa úr innsendum tilnefningum þar sem Lilja Ósk varð fyrir valinu. Í tilnefningunni segir meðal annars:


Lilja Ósk er einstaklega flink að tala við fólk á jafnréttisgrundvelli og það má finna þá alúð sem hún leggur í störf sín… Lilju Ósk hefur tekist að uppræta fordóma og einelti af slíkri list, að samfélagið er betra samfélag, fyrir hennar störf. Við sem störfum hjá Tækniskólanum – stærsta framhaldsskóla á Íslandi – þar sem mjög fjölbreyttur nemendahópur stundar nám – tökum eftir greinilegum áhrifum, eftir að Lilja Ósk hóf störf hjá skólanum, í breyttri umræðu og hegðun nemenda – bæði í skólanum og á viðburðum nemendasambandsins.

 

Umhverfið skiptir öllu máli

Samkvæmt Lilju er hún Vesturbæingur í húð og hár og af öllu hjarta enda báðir foreldrar hennar úr Vesturbænum. Hún gekk í Grandaskóla, Hagaskóla og Melaskóla en eftir grunnskóla lá leiðin í MR. Að menntaskóla loknum var Lilja mjög óviss með næstu skref í lífinu en eftir að hún fór að vinna á frístundaheimili með skóla og sá það flotta starf sem þar fór fram tók hún ákvörðun um að fara í kennaranám.

Þegar Lilja hugsar um einelti eru minningar frá æsku það fyrsta sem kemur upp í hugann:

Það koma upp í hugann þessir krakkar sem voru lagðir í einelti þegar ég var í grunnskóla. Þetta umhverfi sem einelti þrífst í. Sjálf var ég viðkvæm og óörugg þannig ég stóð ekki upp á þessum tíma heldur stóð hjá. Ég vil þó trúa því að eftir að ég varð öruggari að þá hafi ég byrjað að standa upp og komist nær því að vera græni kallinn í eineltismálum.

Lilja Ósk var virkilega hissa þegar henni var tilkynnt um hvatningarverðlaunin og fannst hún jafnvel ekki eiga þau skilið:

Manni líður svo oft eins og maður sé aldrei að gera nóg. En þetta er falleg áminning um að maður sé að gera eitthvað gott og mikilvæg hvatning þrátt fyrir að starfinu sé aldrei lokið. 

Samkvæmt Lilju er mikilvægt að halda Dag gegn einelti hátíðlegan ár hvert því það gefur tækifæri á að ræða þessi málefni í skólum landsins.

Það sem Lilju finnst hinsvegar skipta mestu máli þegar kemur að því að sporna við einelti er að hlúa að umhverfinu:

Það sem skiptir öllu máli er umhverfið. Skólabragurinn, bekkjarandinn. Að nemendur þori að sýna veikleika og styrkleika í sínu umhverfi og að vera þau sjálf. Einelti á sér nefnilega stað í umhverfi sem er óöruggt. Okkar starf er að skapa öruggt umhverfi þar sem einelti þrífst ekki. Það er líka virkilega mikilvægt að hlusta á og virða tilfinningar barna og unglinga. Gefa þeim færi og tengjast krökkunum þannig þau vilji tala við mann. Sýnum öllum mannlega virðingu og kennum börnum samkennd og tilfinningafærni.

Við óskum Lilju ósk innilega til hamingju og er Tækniskólinn virkilega þakklátur fyrir hennar störf.