fbpx
Menu

Fréttir

29. júní 2018

Nýr rekstraraðili Flugskólans

Gengið hefur verið frá samkomulagi við fyrrum eigendur Flugskóla Íslands og aðila þeim tengdum, um yfirtöku á rekstri Flugskólans. Í framhaldinu verður skólinn starfræktur í nýju félagi, Flugskóla Íslands ehf.

Flugskóli Íslands ehf. verður áfram með starfsstöðvar í húsnæði Tækniskólans í Hafnarfirði og á Háteigsvegi. Eftir sem áður verða góð tengsl og samvinna á milli Tækniskólans og Flugskólans og náttúrufræðibraut-flugtækni verður að sjálfsögðu áfram í boði í Tækniskólanum. Samhliða þessu var ákveðið að flugvirkjanám, sem Tækniskólinn hefur rekið í samvinnu við Flugskólann, verði áfram hjá Tækniskólanum sem hluti Véltækniskólans, eins af undirskólum Tækniskólans.

Nám til atvinnuflugs og flugvirkjunar er um margt ólíkt t.d. hvað snertir námsskrár, skipulag náms og alþjóðlegt eftirlit og því til viðbótar er flugnám undir Samgönguráðuneytinu en nám til flugvirkjunar er iðnnám sem fellur undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Fjöltækniskóli Íslands eignaðist Flugskóla Íslands árið 2005 og varð skólinn því hluti af Tækniskólanum 2008 þegar Tækniskólinn varð til í núverandi mynd.Flugskólinn var árið 2016 sameinaður Tækniskólanum en hafði áður verið rekinn undir nafni Flugskóla Íslands á eigin kennitölu.

Það er von beggja aðila að með þessum breytingum verði flugnám og flugvirkjanám best fyrirkomið til næstu framtíðar. Stefnt er að áframhaldandi góðri samvinnu Tækniskólans og Flugskóla Íslands.