fbpx
Menu

Fréttir

28. júní 2024

Nýr Tækniskóli við Flensborgarhöfn

Samkomulag um nýbyggingu Tækniskólans

Nýr tækni­skóli rís við Flens­borg­ar­höfn í Hafnarfirði. Stjórn­völd, Hafn­ar­fjarðarbær og Tækni­skólinn und­ir­rituðu skuld­bind­andi sam­komulag þess efnis þann 27. júní. Hildur Ingvars­dóttir, skóla­meistari Tækni­skólans, Egill Jónsson stjórn­ar­formaður skólans, ásamt Rósu Guðbjarts­dóttur, bæj­ar­stjóra Hafn­ar­fjarðar, Ásmundi Einari Daðasyni, barna- og mennta­málaráðherra, Sigurði Inga Jóhanns­syni, fjár­mála- og efna­hagsráðherra og Bjarna Bene­dikts­syni, for­sæt­isráðherra und­ir­rituðu sam­komu­lagið í blíðskaparveðri á Norðurbakkanum.

Næstu skref eru und­ir­bún­ingur hönn­unar og fram­kvæmdar með áætluð verklok árið 2029. Fyr­ir­huguð er 30.000 fer­metra bygging sem rúmar um 3.000 nem­endur á grósku­miklu hafn­arsvæði í námunda við fjöl­breytta atvinnu­starf­semi. Fram­kvæmdin verður í tveimur áföngum, í fyrri áfanga verði reist um 24.000 m2 bygging og í seinni áfanga um 6.000 m2 viðbót. Þá er gert ráð fyrir frekari stækk­un­ar­mögu­leikum á lóðinni í framtíðinni.

Með nýjum höfuðstöðvum Tækni­skólans er langþráðum áfanga náð, á þeirri vegferð að sam­eina allt nám skólans undir einu þaki.

„Nú byggjum við af stórhug til framtíðar og það er löngu tímabært að sameina starfsemina á einum stað. Verkefnið hefur verið lengi í undirbúningi og við erum afar þakklát stjórnvöldum og Hafnarfjarðarbæ fyrir þann stuðning og traust sem þau sýna skólanum með aðkomu sinni að þessu stóra verkefni. Ábyrgð skólans er mikil og við höfum undirbúið verkefnið af kostgæfni og erum sannfærð um að nýbygging skólans og hugmyndafræðin að baki grunnhönnun hennar muni stórefla iðn-, starfs- og tækninám í landinu,“ sagði Egill Jónsson, formaður stjórnar Tækniskólans.

Hér er um að ræða fram­kvæmd sem mun vafa­laust hafa jákvæð áhrif á framþróun iðn-, starfs- og og tækni­náms á Íslandi, með nútíma­legum Tækni­skóla, á grósku­miklu hafn­arsvæði í námunda við fjöl­breytta atvinnu­starf­semi. Starf­semi skólans verður einnig fengur fyrir Hafn­ar­fjarðarbæ og mun án efa styrkja og styðja við þá starf­semi sem fyrir er í bænum.

Hildur Ingvars­dóttir, skóla­meistari Tækniskólans, flutti ávarp í til­efni sam­komu­lagsins.

„Það er svo sannarlega bjart yfir í dag. Að undirrita þetta samkomulag er langþráður áfangi á krefjandi ferðalagi. Ferðalagi sem hófst fyrir 6 árum síðan og lýkur vonandi á næstu 5 árum. Ferðalagi sem hefur það skýra markmið að efla iðn-, starfs- og tækninám á Íslandi. Það ætlum við að gera með því að byggja upp framúrskarandi aðstöðu fyrir nemendur okkar og starfsfólk og um leið enn betra samfélag náms og nýsköpunar í húsi sem býður jafnframt nærsamfélagið velkomið.“

Hér má lesa ávarp skólameistara í heild sinni.