fbpx
Menu

Fréttir

09. maí 2022

Sigur í keppninni
Ungt umhverfisfréttafólk

Aðalverðlaun í innanlandskeppninni og þátttökuréttur í YRE

Í annað skipti á þremur árum vinnur hópur 1. árs nema á K2 Tækni- og vísindabraut til aðalverðlauna í innanlandskeppninni Ungt umhverfisfréttafólk og öðlast þannig þátttökurétt í YRE, Young Reporters for the Environment, sem er virt alþjóðleg keppni um umhverfismál.

Verkefnið YRE er rekið í 44 löndum, víðs vegar um heiminn, en hér á Íslandi er það Landvernd sem er umsjónaraðili þess. Markmið þess er að skapa vettvang fyrir ungt fólk til að kynna sér umhverfismál með gagnrýnum hætti og miðla upplýsingum til almennings. Verkefnið valdeflir ungt fólk á tímum loftlagskvíða og falsfrétta því með þátttöku sinni fær það tækifæri til að miðla þekkingu sinni um umhverfismál á fjölbreyttan hátt.

 

Sigurhópurinn Grænir puttar hönnuðu spilið Grænópólí

Þeir nemendur sem skipuðu sigurhópinn Grænir puttar eru Ívar Patrick Lefort Steinarsson, Daníel Ingi Eyjólfsson, Hjalti Freyr Hjaltason, Sigurður Kári Söndruson og Guðmundur Berg Markússon. Þeir hönnuðu spil í anda Monopoly, sem þeir kölluðu Grænópólí, en í umsögn dómnefndar tókst þeim að taka borðspil sem er táknmynd gróðahyggju og kapítalisma í spilaheiminum og gera úr því áhrifamikla ádeilu og miðla til ungs fólks ákalli um aðgerðir í loftlagsmálum.

Grænópólí hlaut einnig verðlaunin Val unga fólksins en verkefnið þótti skemmtilegt, einstakt og nýjung í umhverfisumræðuna. Hópurinn fékk sérstakt hrós fyrir að nota umhverfisvænan efnivið í spilið, meðal annars plastið sem fór í þrívíddarprentaða leikmuni.

Dómnefndina í ár skipuðu Hólmfríður María Ragnhildardóttir, blaðakona hjá Mbl, Aldís Amah Hamilton, leikkona, og Lóa Pind, leikstjóri og sjónvarpsframleiðandi. Dómnefnd í Vali unga fólksins skipuðu Kolbrún Lára Kjartansdóttir, varaforseti LÍS og Kolbrún Fríða Hrafnkelsdóttir, hringrásarhagkerfisfulltrúi UU.

Tækniskólann óskar Ívari Patrick, Daníel Inga, Hjalta Frey, Sigurði Kára og Guðmundi Berg, sem og verkefniskennara þeirra, Sigríði Pálsdóttir, hjartanlega til hamingju með þennan glæsta árangur og óskar hópnum góðs gengis í alþjóðakeppninni sem fer fram síðar á þessu ári.