fbpx
Menu

Fréttir

01. október 2020

Tækniskólinn fær Gulleplið

Fréttatilkynning

Árlega veitir embætti landlæknis verðlaunin Gulleplið fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf í framhaldsskólum. Verðlaunin eru veitt þeim skóla sem skarar framúr í fyrirfram ákveðnum þætti og í ár var lögð áhersla á skólatengsl. Með skólatengslum er átt við hvernig skólinn getur stutt við jákvæð skólatengsl nemenda.

Stýrihópur Heilsueflandi framhaldsskóla hefur farið yfir umsóknir um Gulleplið 2020. Margar mjög góðar umsóknir bárust og því ljóst að margir skólar eru að gera góða hluti til að styðja við jákvæð skólatengsl.

Við stigagjöf stóð Tækniskólinn framar öðrum með nýjum áherslum sem eru til eftirbreytni. Þar má nefna starf þeirra með hópum sem teljast vera í krefjandi aðstæðum en einnig að reyna að ná til allra óháð aldri og staðsetningu. Skólinn er starfandi á 8 mismunandi starfsstöðum og hefur stjórnendahópur lagt áherslu á að efla skólatengsl nemenda með afar afgerandi og áhugaverðum nálgunum á undanförnum misserum.

Í dag voru einnig veitt heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi heilsueflingarstarf á síðustu 10 árum en Flensborgarskóli í Hafnarfirði hefur unnið ötullega að heilsueflingu á síðustu 10 árum og aldrei látið deigan síga.  Með áherslu sinni á heilsueflingu hefur skapast heilsueflandi menning sem speglast meðal annars í námsframboði og utanumhaldi um nemendur sem eftirtektarvert meðal annars með áföngum eins og Hámarki þar sem nemendur fá stuðning og fræðslu til að hámarka heilsu sína og vellíðan.

Við óskum Tækniskólanum og Flensborgarskóla til hamingju með verðlaunin og hvetjum þau áfram til góðra verka.