fbpx
Menu

Fréttir

27. janúar 2021

Tían

Tölvuöryggiskeppni íslenskra ungmenna

Tölvuöryggiskeppni íslenskra ungmenna, Tían, er hluti af samsvarandi netöryggiskeppnum annarra ríkja í Evrópu og markmið hennar er að efla áhuga ungmenna á netöryggi og þeim spennandi möguleikum sem þar er að finna.

Keppnin er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og byggir á formi Netöryggiskeppni Evrópu (ECSC). Það er upplýsingaöryggisfyrirtækið Syndis sem sér um framkvæmd keppninnar í samvinnu við ráðuneytið og fleiri aðila.

Tían er hluti af aðdraganda UTmessunnar og hefst hún með forkeppni á vefnum mánudaginn 1. febrúar. Forkeppnin mun standa í hálfan mánuð og þar leysa nemendur gagnvirk verkefni sem tengjast netöryggi og líkja mörg hver eftir raunverulegum öryggisgöllum sem komið hafa upp.

Öllum er frjálst að spreyta sig í forkeppninni en þeir keppendur á aldrinum 14–25 ára sem ná bestum árangri öðlast þátttökurétt í landskeppni Tíunnar sem haldin verður í mars. Frammistaða keppenda í landskeppninni verður svo lögð til grundvallar þess að velja tíu manna hóp til að taka þátt í ECSC 2021 sem fer fram í lok september í Prag, Tékklandi.

 

Góður árangur Tækniskólans í fyrra

Netöryggiskeppnin var haldin í fyrsta sinn á UTmessunni í Hörpu árið 2020 en þar tóku hátt í 100 ungmenni þátt í forkeppninni og þar af voru sex nemendur Tækniskólans valdir í landskeppnina.

Kristinn Vikar Jónsson, nemandi á tölvubraut Tækniskólans, sigraði í yngri flokki og tryggði sér þar með þátttöku í Netöryggiskeppni Evrópu. Sú keppni átti að fara fram í Vínarborg í nóvember á síðasta ári en vegna farsóttarinnar þurfti því miður að aflýsa henni.

Við hvetjum alla nemendur Tækniskólans sem hafa áhuga á netöryggi að kynna sér málið á vefsíðu Tíunnar og taka þátt í forkeppninni!