fbpx
Menu

Fréttir

03. nóvember 2022

Minning

Í dag kveðjum við yndislega konu og frábæran vinnufélaga, Ragnheiði Bjarnadóttur, fyrrverandi kennara og skólastjóra.

Ragnheiður hóf störf sem kennari við Iðnskólann í Reykjavík, forvera Tækniskólans, vorið 2006. Eftir að hafa gegnt stöðu kennara og brautarstjóra hársnyrtibrautar var hún, við stofnun Tækniskólans, ráðin skólastjóri Hársnyrtiskóla og síðar Handverksskóla Tækniskólans.

Ragnheiður hafði öðlast fjölbreyttari starfs- og lífsreynslu en margir ná á ævi sinni þegar hún réð sig til starfa í Iðnskólanum í Reykjavík á fertugasta aldursári. Auk þess að vera hársnyrtimeistari, förðunarfræðingur og hafa rekið eigin hársnyrtistofu hafði hún verið bóndi, rekið útgerð og síðar harðfisksverkun í árafjöld. Þá hafði hún unnið sjálfstætt í verkefnum tengdum hári og förðun fyrir auglýsingar, tískuþætti og tímarit. Hún mætti því til starfa, ekki eingöngu með þekkingu á hársnyrtigreinum og kennslu, heldur með heilan fjársjóð þekkingar og reynslu sem hún skilaði svo sannarlega inn í skólastarfið.

Ragnheiður var mörgum kostum gædd. Hún var kraftmikil og dugleg, skarpgreind, hugmyndarík og mikill fagmaður. Hún var skapandi og vel máli farin og hafði einstaka frásagnargáfu. Hún var einlæg og einbeitt og vildi öllum vel. Segja má að jákvæðni hafi verið hennar einkenni. Allt var unnið með jákvæðnina að vopni … í reynd með sólina að vopni, enda vísaði Ragnheiður oft til kvæðisins um sól í hjarta, sól í sinni, sól í sálu minni. Og þannig var hún sannarlega; með sól í hjarta, með sól í sinni og með sól í sálu sinni.

Ragnheiður hafði mikinn metnað fyrir hársnyrtifaginu og vann ötullega að því að betrumbæta og nútímavæða námið. Hún var frumkvöðull á Íslandi í vistvænni hársnyrtingu og kom m.a. af stað samvinnuverkefni í því fagi með Finnlandi og Noregi fljótlega eftir að hún tók við sem skólastjóri. Þá báru og bera glæsilegar sýningar útskriftarnema í hársnyrtiiðn metnaði hennar og annarra starfsmanna hársnyrtibrautar gott vitni.

Ragnheiður var lífsglöð, félagslynd, glaðvær og jafnan hrókur alls fagnaðar. Hún lífgaði upp á allar samkomur sem hún tók þátt í og kom hagmælgi hennar sér þá vel, enda fengum við að njóta ófárra limra sem hún virtist yrkja með lítill fyrirhöfn en flutti svo af glæsileika, enda geislaði hún af fegurð og gleði.

Ragnheiður var mikill náttúruunnandi og í reynd sannkallað náttúrubarn. Því fékk samstarfsfólk hennar vel að kynnast í gönguferðum „Labbakúta“ Tækniskólans. Í náttúrunni undi hún sér sérlega vel og þegar áð var við læk eða vatn átti hún það til að stinga sér til sunds, löngu áður en köld böð og sjósund náðu núverandi vinsældum. Hún naut jafnframt lesturs, söngs, tónlistar og hvers kyns lista og virtist kunna það sem flesta langar til að kunna; að lifa lífinu og láta ekkert stöðva sig.

Fyrir hönd Tækniskólans,
Hildur Ingvarsdóttir skólameistari

 

Minningargreinin birtist í Morgunblaðinu þann 9. nóvember 2022