Menu

Fréttir

06. maí 2025

Ungir frumkvöðlar verðlaunaðir

Þrjú lið frá Tækniskólanum komust í úrslit í keppninni Ungir frumkvöðlar sem stóð fyrir uppskeruhátíð nýverið. Liðin eru Andrúm og SR Tuning sem eru skipuð nemendum af K2 og Hvað skal gera? með nemendum af hönnunar- og nýsköpunarbraut. Alls tóku 152 lið þátt í keppninni, frá 17 framhaldsskólum, en aðeins 30 lið náðu í úrslit. Öll liðin fengu það verkefni að þróa vöru og stofna fyrirtæki sem selur vöruna. Liðin komu svo saman á vörumessu í Smáralind og buðu vöruna til sölu.

Ungir frumkvöðlar er keppni sem er hluti af alþjóðlegri frumkvöðlasamkeppni sem Junior Achievement stendur fyrir á heimsvísu.

Tvö lið frá Tækniskólanum hlutu verðlaun. Annars vegar Andrúm sem hlaut viðurkenningu fyrir bestu hönnunina og hins vegar SR Tuning sem hlaut viðurkenningu fyrir áhugaverðustu tækninýjungina. Söluvaran sem Andrúm þróaði er listrænn loftskynjari sem sameinar tækni og list til að greina loftgæði innanhúss. Þau Sigrún Ólafsdóttir, Stefan Erlendur Ívarsson, Kristófer Birgisson og Ngoan Anna Gisela Kummer skipa hópinn sem stofnaði Andrúm. Það eru svo Þórður Hugo Björnsson, Matas Jaudegis, Snorri Freyr Harðarson og Gestur Sigurðsson (sem er úr Borgarholtsskóla) sem skipa liðið á bakvið SR Tuning. Þeirra söluvara er lausn fyrir bíla- og bifhjólasölumarkað með pöntunarbundinni framleiðslu. Hluti af því sem vakti athygli dómara var gagnadrifið spjallmenni sem þeir smíðuðu sérstaklega.

Við óskum nemendum til hamingju með árangurinn!