Útskrift Tækniskólans
Brautskráning í Hörpu
Fjölbreyttur hópur glæsilegra nemenda Tækniskólans mætti til útskriftar í Hörpu miðvikudaginn 18. desember. Alls brautskráðust frá skólanum 275 nemendur af 49 brautum og var yngsti nemandinn 17 ára en sá elsti 61 árs. Brautskráð var frá eftirfarandi skólum/deildum Tækniskólans: Byggingatækniskólanum, Handverksskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Véltækniskólanum og Tækniakademíunni (þ.m.t. Meistaraskólanum).
Fagfólk í fárviðri
Hildur Ingvarsdóttir skólameistari fjallaði m.a. um óveðrið sem skók landsmenn í síðustu viku. „Sem dæmi – eru tveir nýútskrifaðir iðnmeistarar sem hugðust taka við skírteinum sínum í dag staddir norður í landi. Þeir afboðuðu komu sína vegna þeirrar mikilvægu vinnu sem nú á sér stað við að koma kerfunum í lag. Þeir eru í hópi fjölda fagmenntaðra sem hefur unnið sleitulaust undanfarna daga og mun vinna áfram við þá uppbyggingu sem nauðsynleg er í kjölfar þessara veðurhamfara“. Hún rakti hvernig skipstjórar og vélstjórar sigldu í gegnum öldurót til Dalvíkur til þessa að koma á rafmagni þar í samvinnu við rafiðnaðarmenn og vélfræðinga hjá orku- og veitufyrirtækjum. Samhliða ynnu rafvirkjar og rafveituvirkjar hörðum höndum að því að koma loftlínum í lag, hreinsa línur og tengivirki o.fl.. Rafeindavirkjar og hinir ýmsu tæknimenn ynnu að því að koma fjarskiptamálum í lag og fagfólk úr byggingagreinum kæmi jafnframt að viðgerðum og uppbyggingu. Þannig gegni vel menntað fagfólk lykilhlutverki í þeirri miklu vinnu sem fram undan er.
Loftlagsmál
Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir fékk það verkefni að flytja nemendaræðu við útskrift skólans. ,,Ég ætla að vinna við að leysa loftslagsmál og þú mátt stela því svari ef þér líst á að vinna að því verkefni með mér. Loftslagsbreytingar eru stærsta ógn mannkynsins á þessari öld, og við munum ekki geta bjargað þeim nema að hver og einn, í sínu fagi, sínu starfi, geri sitt. Það er eitt sem þessi skóli hefur kennt mér, þetta er þverfaglegt vandamál.” Það skyldi engan undra að Gunnhildur fjalli um loftlagsmál en hún hefur verið mjög iðin við að vekja athygli á þeirri vá sem stafar af loftslagsbreytingum. Þess ber einnig að geta að Gunnhildur er að klára nám við stúdentsbrautina K2 á fimm önnum – í stað sex anna. Hún var m.a. formaður SÍF um tíma sem og formaður Nemendasambands Tækniskólans, hefur setið í Ungmennaráði Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og verið í forsvari fyrir hópi ungmenna sem mótmælt hafa aðgerðarleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Þá hefur hún látið mikið að sér kveða í nýsköpunarverkefnum.
Rafeindavirki dúx skólans – stefnir á kennaranám
Auður Þórunn Rögnvaldsdóttir er dúx Tækniskólans af rafeindavirkjabraut. Áður en Auður lauk námi í rafeindavirkjun hafði hún klárað hugbúnaðarverkfræði frá DTU í Danmörku og stúdentspróf frá MR. „Mig langaði bara alltaf að hafa þessa færni í höndunum – að kunna að smíða rafeindarásir – ekki bara teikna þær“. Lokaverkefnið hjá Auði var Stereo magnari og fjarstýring fyrir magnarann – stofustáss sem Auður vildi smíða og nota heima hjá sér. Það er gaman frá því að segja að Auður hefur áhuga á því að kenna rafeindavirkjun og stefnir hún á nám í kennslufræði.
Semidúx af tölvubraut
„Næsta mál á dagskrá er tölvunarfræði í HR“ segir Matthías Ólafur Matthíasson semidúx Tækniskólans. Matthías brautskráðist af tölvubraut með framúrskarandi árangur en hann kláraði grunnskólanám í Háaleitisskóla og stefndi alltaf á nám sem tengist forritun. Uppáhalds forritunarmálið hans er JavaScript.
Konur í flugvirkjun
Diljá Kristjánsdóttir og Erla Björg Valþórsdóttir luku námi í flugvirkjun með framúrskarandi árangri og hlutu verðlaun fyrir. Þetta er í fyrsta skipti sem tvær konur brautskrást sem flugvirkjar frá Tækniskólanum en aðeins örfáar konur starfa við greinina á Íslandi. Þá stunda nú tvær konur nám í flugvirkjun við Tækniskólann og má merkja aukinn áhuga kvenna á greininni.
Ljósmyndir
Ljósmyndarinn og kennari við Tækniskólann Haraldur Guðjónsson Thors tók myndir við útskriftarathöfnina.
Hægt er að panta myndir: Hafið samband við Harald Guðjónsson Thors í netfangið: [email protected]