fbpx
Menu

Fréttir

23. maí 2019

Útskrift Tækniskólans

Útskrift Tækniskólans

Brautskráning í Eldborgarsal

Glæsilegur og fjölbreyttur hópur nemenda Tækniskólans mætti í Eldborgarsal Hörpu í gær, miðvikudaginn 22. maí, til útskriftar. Alls brautskráði skólinn 306 nemendur frá öllum undirskólunum eða 58 brautum sem sýnir mikla fjölbreytni námsins í skólanum. Brautskráð var frá eftirfarandi skólum/deildum Tækniskólans: Byggingatækniskólanum, Handverksskólanum, Raftækniskólanum, Skipstjórnarskólanum, Tæknimenntaskólanum, Upplýsingatækniskólanum, Véltækniskólanum og Meistaraskólanum. Þar að auki voru nemendur í Margmiðlunarskólanum og Vefskólanum brautskráðir, að loknu tveggja ára diplómanámi til háskólaeininga.

Sjálfbært samfélag

Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari, gerði fjölbreytni í námi skólans, þekkingu, reynslu og fagmennsku að umfjöllunarefni í ræðu sinni. Skólinn er nánast eins og lítið samfélag sem getur rekið sig sjálfstætt með þá kunnáttu sem þar er að finna. Nemendur hafa einnig sýnt það í keppnum sem þeir hafa tekið þátt í að menntun þeirra og kunnátta, sem þeir hafa aflað sér í skólanum, hefur skilað sigri í hverri keppninni á fætur annarri og eru t.d. Íslandsmeistarar margra iðngreina. Einnig láta nemendur til sín taka í félagslífinu og hagsmunamálum nemenda í landinu en tveir nemendur skólans skipa nú formannsembætti og varaformannsembætti í Sambandi íslenskra framhaldsskólanema.
Ræðu Hildar skólameistara má lesa í heild sinni hér. 

Nemendaræða

Hannes Árni Hannesson, sem var að útskrifast sem stúdent af K2 Tækni- og vísindaleið, flutti nemendaræðu þar sem hann sagði m.a. frá dvöl sinni í Tækniskólanum og traustum vinasamböndum. „Ég man sérstaklega eftir fyrsta skóladeginum, ég var alveg rosalega stressaður, mig langaði svo mikið að eignast nýja vini og einhvern veginn hélt ég að samnemendur mínir myndu ekki taka vel á móti mér og að það myndi aldrei myndast góður andi hjá okkur. Fyrsti dagurinn átti hins vegar eftir að vera með skemmtilegustu dögum lífs míns“.

Handverk nemenda setti svip á athöfnina

Hildur Ingvarsdóttir skólameistari setti athöfnina, sem Guðrún Randalín Lárusdóttir, aðstoðarskólameistara stýrði. Báðar voru þær klæddar í kjóla sem voru útfærðir og saumaðir af útskriftarnemendum í kjólasaumi. Við þessa fallegu kjóla báru þær Hildur og Guðrún skartgripi sem nemendur í gull – og silfursmíði smíðuðu.

Dúxinn og semidúxar (tveir) koma öll úr Byggingatækniskólanum

Anna Margrét Óladóttir er dúx Tækniskólans á vorönn 2019 og var hún að ljúka námi í Tækniteiknun. Semidúx skólans að þessu sinni eru tveir, annars vegar Margrét Guttormsdóttir, sem er einnig að ljúka námi í Tækniteiknun og Númi Kárason, sem var að ljúka námi í húsasmíði, en hann er jafnframt Íslandsmeistari í húsasmíði.

Ljósmyndir

Myndir úr athöfninni má skoða HÉR – ljósmyndari var Unnur Magna – fyrrum nemandi skólans í ljósmyndun.