Menu

Fréttir

16. desember 2025

Útskriftarsýning nemenda í húsasmíði og hús­gagnasmíði

Metnaður og fagmennska

Útskriftarsýning nemenda í húsasmíði og hús­gagnasmíði var haldin 15. Desember í húsnæði Byggingatækniskólans við Skólavörðuholt. Sýningin samanstóð af metnaðarfullum sethúsgögnum og plötu- og grindarhúsgögnum sem nemendur smíðuðu af mikilli fagmennsku.

Hugrún Inga Ingimundardóttir og Sigríður Óladóttir erum meðal kennara sem hafa kennt hópnum frá upphafi og mættu þær að sjálfsögðu að skoða sýninguna. „Þetta eru allt glæsilegir gripir og augljóst að mikill metnaður hafi verið lagður í verkin,“ sagði Sigríður.

 

Úr hugbúnaðarverkfræði í húsgagnasmíði

Einar Páll Þórðarson, nemandi í húsasmíði og hús­gagnasmíði, sýndi bæði stól og glerskáp með LED-lýsingu á sýningunni.

Einar lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og hóf í kjölfarið háskólanám í hugbúnaðarverkfræði. Hann fann sig þó ekki í náminu og ákvað að breyta til. „Húsgagnasmíði hefur lengi verið draumur hjá mér. Ég hef alltaf haft gaman að því að vinna með höndunum og vissi alltaf innst inni að ég myndi enda í húsgagnasmíði. Þetta er búið að vera æðislegt nám.“  Einar á eina önn eftir í tækniskólanum og mun taka sveinsprófið að vorönn lokinni. Hann er á samning hjá Axis og stefnir á fullt starf þar eftir sveinsprófið.

Á sýningunni vakti sérstaka athygli vandaður skápur með glerhurðum og LED-lýsingu sem Einar smíðaði. Hann hannaði og  3D-prentaði jafnframt fræsimáta fyrir lamir hurðanna. „Mér finnst mjög gaman að vinna með ljós í verkefnum og blanda saman ólíkum efnivið í húsgagnasmíðinni eins og gleri. Þegar ég var yngri hafði ég mikinn áhuga á origami, legósmíði og að prófa mig áfram með 3D-prentara sem við áttum heima,“ segir hann og augljóst er að sú þekking hefur komið að góðum notum.

Aðspurður um framtíðaráform segir Einar að draumurinn sé að eiga sitt eigið verkstæði. „Mig langar að smíða mín eigin verk og vinna að sérhönnuðum verkefnum. Það er draumurinn eins og staðan er í dag.“