Menu

Fréttir

07. október 2024

Veglegar gjafir til Raftækniskólans

Samtök rafverktaka (SART) eiga 75 ára afmæli í ár og að því tilefni gáfu þau Raftækniskólanum veglegar gjafir. Stjórn SART sýndi rafeindavirkjun sérstakan stuðning og gaf deildinni tíu Fluke mæla sem munu nýtast við kennslu á námsbrautinni. Einnig gáfu samtökin skólanum sérstaka úttektarmæla fyrir bílaúttektir. Mælarnir eru ætlaðir til að kenna úttektir á bílahleðslustöðvum frá Gossen og munu koma að góðum notum í nýjum verkefnum í rafvirkjun.

SART eru samtök rafverktaka. Félagsmenn eru rafverktakar og rafeindaverktakar, rafvirkjameistarar, rafvélavirkjameistarar, rafveituvirkjameistarar og rafeindavirkjameistarar sem reka sín eigin fyrirtæki, eru með rafiðnaðarmenn í vinnu og bera faglega ábyrgð á öllum verkefnum fyrirtækisins. Stefna samtakanna er að veita félagsmönnum sínum margvíslega þjónustu og ráðgjöf um hvað eina er snýr að atvinnurekstri og að vera málsvari þeirra gagnvart almenningi og opinberum aðilum.

Tækniskólinn hefur unnið náið með SART frá upphafi og við hjá Tækniskólanum erum gríðarlega þakklát fyrir stuðninginn.

Gjafirnar voru afhentar síðastliðinn föstudag – 4. október – þar sem skólameistari og aðstoðarskólameistari veittu gjöfunum viðtöku. Skólinn bauð til kaffihlaðborðs í tilefni dagsins.