Fjölbreyttar sýningar framundan
Árlega er maí mánuður ríkulegrar uppskeru í Tækniskólanum en þá eru haldnar fjölmargar sýningar þar sem sjá má afrakstur af vinnu nemenda yfir veturinn.
Endilega kynnið ykkur þá fjölbreyttu viðburði sem framundan eru.
Útskriftarsýning í grafískri miðlun og ljósmyndun

Lokaverkefni nemenda í grafískri miðlun og ljósmyndun verða til sýnis á útskriftarsýningu sem haldin verður í Vatnsholti þann 9. maí kl. 15:00–17:00.
Um er að ræða fjölbreytt og skapandi verk eftir 20 útskriftarnema, 11 í grafískri miðlun og 9 í ljósmyndun.
Á sýningunni má meðal annars sjá ljósmyndabækur, prentgripi, auglýsingar, bæklinga, umbúðahönnun og tímaritið Ask, sem er samstarfsverkefni nema í grafískri miðlun.
Útskriftarsýning klæðskera- og kjólasaumsnema
Á útskriftarsýningunni sýna nemendur á lokaönn í kjólasaumi og klæðskurði afrakstur sinn á verkefnum sem þau hafa unnið að í náminu.
Sýningin verður haldin í hátíðarsal Tækniskólans á Háteigsvegi, föstudaginn 9. maí kl. 16:00–18:00.
Endilega kíkið á viðburðinn á Facebook fyrir nánari upplýsingar.
Nemendur í vélstjórn kynna lokaverkefni
Laugardaginn 10. maí munu nemendur í vélstjórn kynna lokaverkefni sín sem eru af ýmsum toga. Verkefnin eru 10 talsins og sýna þau fram á þá leikni og þekkingu sem nemendur hafa öðlast í gegnum skólagönguna.
Kynningarnar fara fram í hátíðarsal Tækniskólans á Háteigsvegi og hefjast kl. 13:00.
Vorsýning hönnunar- og nýsköpunarbrautar
Vorsýning nemenda á hönnunar- og nýsköpunarbraut opnar þann 14. maí kl. 16:00.
Sýningin er á 4. hæð á Skólavörðuholti og stendur til 17. maí en þar má sjá fjölbreytt verkefni eftir nemendur brautarinnar.
Opnunartímar:
Miðvikudaginn 14. maí kl. 16:00–18:00
Fimmtudaginn 15. maí kl. 12:00–18:00
Föstudaginn 16. maí kl. 12:00–18:00
Laugardaginn 17. maí kl. 12:00–16:00
Uppskeruhátíð í stafrænni hönnun

Þriðjudaginn 20. maí munu nemendur í stafrænni hönnun sýna verkefni sem hafa verið unnin í vetur. Sýningin verður haldin í Grósku og húsið opnar kl. 14:30.
Sjá má verkefni í 3D módelingu, teiknimyndagerð, tölvuleikjum, tæknibrellum, karakterhönnun, Storyboards, Digital Fashion og Material Design.
Endilega kíkið á viðburðinn á Facebook fyrir nánari upplýsingar.
Húsgagna- og húsasmíðasýning
Húsgagna- og húsasmíðasýning útskriftarnema í húsgagnasmíði við Tækniskólann verður haldin 19. og 20. maí. Þar verða til sýnis lokaverkefni útskriftarnema ásamt fleiri verkum.
Sýningin er haldin í trésmíðadeild Tækniskólans á Skólavörðuholti og verður opin kl. 11:00–18:00 báða dagana.
Þetta er kjörið tækifæri til að sjá handverk nemenda og kynna sér námið.
Eins manns rusl er annars gull
Nemendur verkstæðis starfsbrautar eru með sölusýningu í Hafnarfirði sem stendur til 16. maí. Þar má sjá afrakstur af samstarfi brautarinnar við Góða hirðinn þar sem nemendur unnu að endurvinnslu og verðmætasköpun. Nemendur völdu sér lampa sem þau svo löguðu og breyttu með glæsilegum árangri.