Gervigreind, þar á meðal spjallforrit eins og ChatGPT, er orðin aðgengileg og áhrifamikil tækni í námi og kennslu. Hún getur verið gagnleg til að styðja við sköpun, lærdóm og upplýsingaleit en notkun hennar kallar jafnframt á skýrar siðferðilegar, fræðilegar og tæknilegar reglur. Tilgangur þessara leiðbeininga er að tryggja ábyrga, gagnsæja og siðferðilega meðvitaða notkun gervigreindar í skólastarfinu.
Gert er ráð fyrir því að notendur kynni sér þessar leiðbeiningar og tileinki sér ábyrg vinnubrögð.
Gervigreind geta nemendur meðal annars nýtt til að styðja við undirbúning verkefna, kynninga og rannsókna, þýðingar, prófarkalestur og uppsetningu texta. Það skal þó alfarið gert í samráði við áherslur kennara hverju sinni. Notkun gervigreindar er ekki markmið í sjálfu sér og afurðir hennar eru ekki hlutlægar. Nemendur og kennarar bera alltaf ábyrgð á efninu sem þeir skila af sér, sama hvort það var unnið með eða án aðstoðar gervigreindar. Gervigreindarforrit vista allt efni sem er keyrt í gegnum þau. Ekki skal setja inn viðkvæmar eða persónugreinanlegar upplýsingar.
Gervigreind er ekki frumheimild og skal ekki vitna beint í hana sem slíka. Allar staðreyndir, gögn og tilvitnanir sem fást í gegnum gervigreind verður að sannreyna og rekja til traustra heimilda. Heimildaskráning skal fylgja viðurkenndum heimildaskráningakerfum. Þegar gervigreind er notuð við efnisgerð skal þess getið með skýrum hætti þegar það á við.
Mikilvægt er að hafa í huga að það getur verið brot á höfundarrétti að hlaða texta/gögnum upp í gervigreindarspjall. Einnig skilar gervigreindin gjarnan af sér texta sem er beint upp úr öðrum texta sem getur þá komið fram sem ritstuldur t.d. í Turnitin því heimildatilvísunin fylgir ekki með.
Sömu siðareglur gilda um gervigreind og aðra tækni. Notendur skulu forðast hvers konar misnotkun, þar með talið að falsa eða afbaka upplýsingar, dreifa röngum gögnum eða nota gervigreind í ærumeiðandi eða skaðlegum tilgangi.
Allir notendur gervigreindar skulu virða lög um persónuvernd (nr. 90/2018) og ESB-reglugerð 2016/679. Ekki má deila persónulegum upplýsingum með gervigreindarlíkönum. Tækniskólinn og starfsfólk hans skal tryggja gagnsæi og öryggi í meðferð gagna.
Notkun gervigreindar í verkefnum eða prófum þar sem slík aðstoð er bönnuð telst brot á reglum og skal meðhöndluð líkt og annað misferli við lausn matsþáttar.
Tækniskólinn leggur áherslu á að bjóða nemendum og kennurum reglulega upp á fræðslu um getu, takmarkanir og siðferðileg álitamál tengd notkun gervigreindar.
Háskóli Íslands heldur úti fróðlegri vefsíðu um gervigreind sem veitir nemendum gagnlegar leiðbeiningar um hvað má og hvað ekki þegar gervigreind og nám er annars vegar. Þar má líka finna góðar hugmyndir um hvernig gervigreind getur komið að gagni við nám og kennslu. Við hvetjum nemendur og starfsfólk til að skoða síðuna og nýta sér gervigreind með uppbyggilegum hætti.