fbpx
Menu

1. Uppbygging námsins

Námið á K2 skiptist í 6 annir. Hver önn skiptist í 2  spannir. Samhliða áföngum í kjarna vinna nem­endur að einu þverfag­legu loka­verk­efni. Alls eru loka­verk­efnin fimm talsins. Tækni­skólinn áskilur sér rétt til að fækka eða fjölga loka­verk­efnum.

1.1 Einingafjöldi: 210 einingar
Námið á K2: Tækni og vís­indaleiðinni er alls 210 ein­ingar. 183 ein­ingar eru í kjarna og 27 í vali. Náminu lýkur með stúd­ents­prófi.

1.2 Kjarnaáfangar: 183 einingar
Í kjarna eru alls 183 ein­ingar og allir sem hyggjast ljúka námi af braut­inni þurfa að klára alla kjarna­áfanga.

1.3 Valáfangar: 27 einingar
Nem­endur hafa 27 ein­ingar í vali. Nem­endur geta valið áfanga þvert á brautir Tækni­skólans. Ein­ingar fyrir félags­störf gilda ekki upp í ein­ingar í vali. Ein­ingar fyrir góða mæt­ingu (95% eða hærra) gilda ekki upp í ein­ingar í vali.

1.4 Bóklegi hluti flugnámsins
Nem­endum á þriðja og síðasta námsári stendur til boða að taka bók­legan hluta flugnámsins sem hluta af vali sínu. Það er metið til 15 ein­inga. Námið fer fram hjá Geir­fugli. Athugið að nem­endur þurfa að fá 7,5 á öllum prófum til að teljast hafa náð áföngum þar. Sækja þarf sér­stak­lega um að taka bók­lega hluta flugnámsins til skóla- eða braut­ar­stjóra.

1.5 Einingar fyrir félagsstörf
Nem­endur geta fengið ein­ingar fyrir ýmis félags­störf. Ein­inga­fjöldi er metinn af félags­mála­full­trúa skólans og í sam­ræmi við nám­skrá skólans. Ein­ingar fyrir félags­störf koma ekki í staðinn fyrir valáfanga. Aðeins er hægt að nýta félags­mála­ein­ingar upp á móti falli. Að hámarki er hægt að fá 2 ein­ingar á önn fyrir félags­störf og aldrei fleiri en 12 ein­ingar sam­tals yfir náms­tímann.

1.6 Einingar fyrir mætingu
Fyrir 95-100% raun­mæt­ingu getur nem­andi á K2 fengið eina ein­ingu á önn. Þá ein­ingu er hægt að nýta upp á móti falli, sé þörf á því.

1.7 Einingar fyrir tónlistarnám
Nám (grunn­próf, miðpróf) í viðurkenndum tón­list­ar­skólum sem prófað er af prófa­nefnd tón­list­ar­skóla er metið af skóla­stjóra og braut­ar­stjóra. Ein­ingar fyrir tón­list­arnám falla undir val í náms­ferli. Að hámarki er hægt að fá metnar 12 ein­ingar í tón­list­ar­námi.

1.8 Áfangar á háskólastigi
K2 á í sam­starfi við Háskólann í Reykjavík. Á hlokaönn stendur nem­endum á K2, sem lokið hafa öllum stærðfræðiáföngum braut­ar­innar með 9 eða hærra í ein­kunn, til boða að taka 1-2 áfanga í HR.

Þeir áfangar sem standa K2-nem­endum til boða fara eftir framboði nám­skeiða í HR. Braut­ar­stjóri og fag­stjóri þurfa að samþykkja að nem­andi sæki áfanga í HR. Áfangar í HR eru metnir til 5 ein­ingar og gilda sem val.

 

2. Reglur um mætingu

Allir nem­endur á K2: Tækni- og vís­indaleiðinni lúta almennum skóla­reglum hvað varðar mæt­ingu, sjá reglur um skólasókn.

 

3. Kröfur um námsframvindu

Nem­endur þurfa að standast kröfur um náms­fram­vindu til að færast upp á milli áfanga, anna og ára.

3.1 Að standast áfanga
Til að standast áfanga þarf nem­andi að ná að lág­marki 5,0 í loka­ein­kunn. Loka­ein­kunn hvers áfanga byggist á símati. Vægi hvers matsþáttar er breyti­legt milli ein­stakra áfanga og er vægið til­greint í kennslu­áætlun. Nem­andi þarf í öllum til­vikum að ná 4,0 eða hærra í lyk­ilmatsþáttum. Nem­andi sem fær undir 4,0 í ein­kunn á lyk­ilmatsþætti er fallinn í áfanga.

3.2 Fall í kjarnaáfanga
Nem­andi telst fallinn í áfanga ef hann nær ekki 5,0 í loka­ein­kunn eða ef hann fær undir 4,0 í lyk­ilmatsþætti. Sam­tals má nem­andi falla þrisvar sinnum í kjarna­áfanga meðan á námi hans á K2 stendur. Aðeins má þó falla einu sinni hverjum áfanga.

3.2.1 Fall í kjarnaáfanga á haustönn
Falli nem­andi í kjarna­áfanga á haustönn stendur honum til boða að taka sam­bæri­legan áfanga í dag­skóla næstu önn á eftir, sé sá áfangi í boði. Ef sam­bæri­legur áfangi er ekki í boði í dag­skóla þarf að skoða hvert tilvik fyrir sig.

3.2.2 Fall í kjarnaáfanga á vorönn
Falli nem­andi í áfanga á vorönn þarf hann að ræða við braut­ar­stjóra um að fá undanþágu til að færast upp á milli bekkja þrátt fyrir fallið og taka áfangann, sem hann féll í, í dag­skóla á næstu haustönn.

3.3 Fall í valáfanga
Falli nem­andi í valáfanga færist hann engu að síður á milli anna/​skólaára að því gefnu að hann hafi náð öllum kjarna­áföngum og staðist reglur um skóla­sókn og ein­inga­fjölda. Nem­andi getur fallið tvisvar í sama valáfanga. Hafi hann fallið 2 í sama valáfanga stendur honum ekki til boða að taka þann áfanga aftur.

3.4 Kröfur um undanfara
Nem­andi má ekki sitja áfanga hafi hann ekki lokið nauðsyn­legum und­an­fara eða und­an­förum, nema í sér­stöku samráði við braut­ar­stjóra og kennara viðkom­andi náms­greinar.

3.5 Til að ná önn
Til að standast önnina þurfa nem­endur á K2 að hafa staðist alla bók­lega kjarna­áfanga ann­ar­innar en fjöldi ein­inga á önn í kjarna er á bilinu 18-35 ein­ingar. Víkja má frá þessari meg­in­reglu þrisvar sinnum, sbr. það sem segir hér á undan um fall í áfanga og hversu oft má falla í áfanga. Nem­andi telst þó ávallt fallinn á önn hafi hann ekki lokið 15 ein­ingum.

3.6 Fall á önn
Nem­andi telst fallinn á önn­inni hafi hann ekki staðist alla kjarna­áfanga ann­ar­innar, sbr. það sem segir hér að framan. Nem­andi telst ávallt fallinn á önn hafi hann ekki lokið 15 ein­ingum. Nem­andi sem fellur á önn fær aðeins heimild til inn­rit­unar á næstu önn hafi hann haft meira en 70% mæt­ingu á önn­inni og geri samning við braut­ar­stjóra um ástundun og skóla­sókn ásamt því að fyr­irséð er að hann geti lokið kjarna­áfang­anum innan eða utan brautar.

3.7 Til að ná skólaárinu
Til að flytjast upp á milli bekkja þarf nem­andi að hafa náð öllum kjarna­fögum skóla­ársins, bæði á haust- og vorönn, og lokið til­skyldum fjölda ein­inga. Hafi nem­andi fallið í kjarna­áfanga á haustönn þarf hann að hafa unnið þann áfanga upp á vorönn. Hafi nem­andi fallið í kjarna­áfanga á vorönn þarf hann að hafa gert samning við braut­ar­stjóra um að fá undanþágu til að færast upp á milli bekkja þrátt fyrir fallið og taka áfangann, sem hann féll í, næstu haustönn, sbr. það sem segir hér að ofan.

3.8 Fall á skólaári
Ef nem­andi fellur á skóla­árinu getur hann sótt um til braut­ar­stjóra að setjast aftur í sama bekk. Þá á hann þann kost að fá metna þá kjarna­áfanga þar sem ein­kunn er 7,0 eða hærri (að und­an­skildum íþrótta­áföngum).

3.9 Útskrift
Nem­andi sem lokið hefur öllum kjarna­áföngum braut­ar­innar, sam­tals 183 ein­ingar, og valáföngum hennar, alls 27 ein­ingum, getur útskrifast sem stúdent af K2.

3.9.1 Útskriftarefni
Nem­andi getur skráð sig sem útskrift­ar­efni á síðustu önn sinni á K2 hafi hann lokið til­skyldum fjölda ein­inga og fyr­ir­sjá­an­legt er að hann ljúki þeim ein­ingum sem hann er skráður í þá önnina.

3.9.2 Útskrift með fall í áfanga
Nem­andi getur útskrifast sem stúdent með 4,0 í ein­kunn í að hámarki 1 áfanga. Í slíkum til­fellum fær nem­andi engar ein­ingar fyrir áfangann. Ákvæðið gildir ein­göngu um loka­áfanga í viðkom­andi náms­grein eða staka áfanga enda má ekki brjóta reglur um und­an­fara.

Ein­inga­fjöldi til stúd­ents­prófs á braut­inni má aldrei verða minni en 210 ein­ingar.

 

 

 

Uppfært 4. desember 2023