fbpx
Menu

Starfsréttindaþjálfun kadetta skv. STCW byggir á því að veita nemendum um borð í skipum viðeigandi leiðbeiningar og kennslu í sjómennsku, skipstjórn og vélstjórn, eftir því sem við á, á skiplagðan hátt af reynslumiklum fagmönnum sem eru um borð í skipunum.

Markmiðið er að veita nemendum sem lokið hafa bóklegu námi tækifæri til að öðlast praktíska reynslu og þjálfun til að teljast hæfir til að starfa sem undirstýrimenn og undirvélstjórar. Einnig að gera þá hæfari til að gegna þeim störfum sem alþjóðlegu réttindin sem þeir eru að afla sér bjóða upp á.

 

Skipstjórnar- og vélstjórnarnám

Hver sá sem lokið hefur grunnskólaprófi getur sest á skólabekk í Skipstjórnarskólanum og Véltækniskólanum og lokið skólanámi til fullra alþjóðlegra réttinda skipstjórnar og vélstjórnar án þess hafa nokkru sinni komið um borð í skip. Til að öðlast réttindi þarf nemandi svo siglingatíma um borð í skipi, mislangan eftir hvaða stöðu hann gegnir um borð og hvaða réttindum hann sækist eftir.

Fyrirkomulagið hefur verið með þeim hætti að nemendur hafa verið ráðnir í vinnu sem hásetar á skip. Eins og gefur að skilja geta leiðbeiningar og kennsla verið misjöfn á milli skipa, manna og útgerða, sumir hafa fengið framúrskarandi leiðsögn, leiðbeiningar og þjálfun á meðan aðrir hafa ekki fengið næga leiðsögn og þurft að læra af því sem þeir unnu við og mistökum sínum. Af þessu leiðir að starfsþjálfun í siglingatíma hefur á margan hátt verið ómarkviss og margir hverjir klárað sinn siglingatíma með of takmarkaða þekkingu og reynslu.

Við þessari stöðu hefur verið ákveðið að bregðast og verður nú boðið upp á kadetta-kerfi sem tryggir þjálfun með skipulegum, faglegum og skjalfestum hætti. Þeir nemendur sem eru að ljúka C-réttindanámi skipstjórnar- og vélstjórnar munu geta fengið þjálfun í þessu kerfi að uppfylltum öðrum skilyrðum.

Meginmarkmið kadetta-kerfis er að:

  • Mæta kröfum samtímans.
  • Mæta óskum og kröfum nemenda.
  • Uppfylla alþjóðlega staðla um skipstjórnar- og vélstjórnarmenntun.
  • Gera menntunina aðgengilegri.
  • Gera menntunina áhugaverðari.
  • Skapa aukin tækifæri fyrir ungt fólk.
  • Auka á fjölbreytileikann.

 

Kerfið – nemandinn

Nemendur sækja um í gegnum skólann og gera samning við útgerðarfyrirtæki. Nematíminn er fullir tólf mánuðir í launuðu starfsnámi um borð í skipi. Minnt er á að kadettinn er í starfsþjálfun, hann er ekki starfsmaður þó hann sé á launum.

Við vekjum athygli á því að ekki er nauðsynlegt að nemendur taki þjálfunina samfellt heldur geta þeir skipt þjálfunartímanum upp.

Nánar má lesa um kadetta námið, siglingatíma og hag nemenda í STCW samþykktinni í II. kafla.

Skólinn auglýsir laus pláss fyrir kadetta og þeir nemendur sem eru að ljúka námi til C-réttinda í skipstjórn (eða lengra komnir í námi) geta sótt um. Ef fleiri sækja um en komast að fer valnefnd skólans yfir umsóknir og sendir fyrirtækjum þær sem hún telur bestar. Fyrirtækin taka síðan endanlega ákvörðun um hverjir komast í námið. Opið er fyrir umsóknir til 10. maí ár hvert og til að byrja með er eingöngu tekið við umsóknum í skipstjórn.

Þeir sem komast á kadettasamning munu fá sérstaka fræðslu um kerfið og leggja svo fram þjálfunaráætlun um lengd þjálfunartíma, upphaf og endi, í samstarfi við skólann og viðkomandi skipstjóra.

 

Kerfið – leiðbeinandinn

Leiðbeinendur þurfa að hafa farið á námskeið hjá Tækniskólanum. Það er í boði reglulega yfir árið og er kennt í fjarnámi. Nánari upplýsingar hér á vefsíðu skólans og hjá Endurmenntunarskólanum.

Markmiðið er að leiðbeinandinn:

  • Verði góð fyrirmynd.
  • Geti deilt með nemanum mistökum sem hann hefur lært af.
  • Geti deilt með nemanum afrekum í starfi sem hann hefur lært af.
  • Geti deilt með nemanum skynsamlegum viðbrögðum við áskorunum í starfinu.

 

Allar nánari upplýsingar um starfsréttindaþjálfun kadetta má fá hjá Víglundi Laxdal, skólastjóra Skipstjórnarskólans.