Kafli 17 – Skólanámskrá
Í upphafi náms við Tækniskólann er lögð áhersla á að nemendur tileinki sér grunnþekkingu og leikni í þeim greinum sem þeir eru að fást við og einnig þau viðhorf til öryggismála, samvinnu og umgengni sem áframhaldandi nám þeirra byggir á. Í kennsluháttum kemur þetta fram í mikilli stýringu námsins að hálfu kennara. Þegar lengra dregur verða verkefni stærri og viðameiri og meira reynir á að nemendur skipuleggi vinnu sína og nýti tíma sinn og alla þá aðstöðu sem skólinn hefur upp á að bjóða. Kennsluhættir taka mið af því að leggja fyrir verkefni, námsefni og skapa aðstæður þar sem nemendur auka þekkingu sína og sérhæfni. Aðhald frá hendi kennara er þó mikið, bæði í gegnum tilsögn og námsmat.
Tækniskólinn er skapandi skóli. Nám við skólann miðar að því að nemendur öðlist hæfni til að koma á virkan hátt að úrlausn margháttaðra verkefna þegar út í atvinnulífið er komið. Mikil áhersla er því á að nemendur fáist við raunhæf og krefjandi verkefni í námi sínu, einir eða í samvinnu við aðra nemendur og þjálfist í því að gera grein fyrir verkum sínum og lausnum í nemendahópnum. Í skipulagningu náms og námsbrauta og einstakra námsgreina er þess gætt að þessir þættir verði ríkari eftir því sem nemendum miðar áfram í náminu.
Þessi stefna kemur einnig fram í námsmati og mati á verkefnum jafnóðum og þau eru unnin. Nemendum gefst því færi á að ræða við kennara um mat á verkefnum sínum og fá þjálfun í að leggja raunhæft mat á eigin verk.
Í Tækniskólanum fer kennsla í bóklegum greinum ýmist fram í hefðbundnum eða sérútbúnum kennslustofum en verklegar greinar eru að mestu kenndar á verkstæðum sem sérhæfð eru til kennslu ákveðinna greina.
Dreifnám er nám utan dagskóla og sameinar kosti fjar- og kvöldnáms. Þá getur áfangi verið kenndur að öllu leyti í fjarnámi í gegnum kennsluvef skólans, INNU, eða að öllu leyti í staðbundnu kvöldnámi.
Uppfært 6. desember 2023
Áfangastjórn