Iðnskólinn í Hafnarfirði var stofnaður 11. nóvember 1928 á fyrsta fundi Iðnaðarmannafélags Hafnarfjarðar og rak félagið skólann sem kvöldskóla til ársins 1955. Emil Jónsson, bæjarverkfræðingur og síðar forsætisráðherra var fyrsti skólastjóri skólans og gegndi starfinu til ársins 1944.
Kennsla samningsbundinna iðnnema hefur farið fram allt frá stofnun skólans. Helstu tímamót í sögu skólans urðu þegar ríkið og bæjarfélagið tóku við rekstrinum árið 1956 og varð hann þá dagskóli. Með stofnun grunndeilda málmiðna 1974 var tekin upp verkleg kennsla við skólann. Grunndeild tréiðna og verklegt nám fyrir hársnyrtiiðn hófst árið 1977 og á sama tíma hófst kennsla í tækniteiknun. Síðasta grunndeildin var stofnuð 1983 með verklegri kennslu í rafiðngreinum. Verkdeildirnar hafa verið, og eru ennþá, kjölfesta skólastarfsins. Árið 1990 var komið á fót hönnunarbraut að frumkvæði þáverandi skólameistara Steinars Steinssonar en henni var síðan breytt í listnámsbraut, s.kv. Aðalnámskrá framhaldsskóla, árið 1999. Útstillingadeild var stofnuð haustið 1998. Frumdeild var starfandi árin 1993-2002 og almenn námsbraut tók til starfa haustið 2000.
Skólinn flutti í nýtt húsnæði í janúar árið 2000 við Flatahraun 12. Í því fólst veruleg stækkun og bylting á allri aðstöðu nemenda og kennara. Skólahúsnæðið er fjármagnað, reist og rekið af einkaaðilum og er það fyrsta fjölhæða stálgrindarhúsið sem reist er hérlendis. Áður hafði Iðnskólinn verið á tveimur stöðum þar sem bóknám fór fram í húsnæðinu við Reykjavíkurveg og verknámið var til húsa við Flatahraun. Í nýja skólanum var öll aðstaða undir sama þaki en vegna mikillar aðsóknar og fjölgunar í skólanum var áhaldahús bæjarins gert upp og notað sem kennslurými til bráðabirgða meðan leitað var lausna við stækkun skólans.