fbpx
Menu

Iðnskólinn í Reykjavík

Saga Iðnskólans í Reykjavík hefst með stofnun Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík árið 1867. Það félag stofnaði til skólahalds fyrir iðnnema árið 1873 og fór kennsla fram á sunnudögum nemendum að kostnaðarlausu. Iðnskólinn í Reykjavík tók síðan til starfa 1904 í Vinaminni í Grjótaþorpi og tveim árum síðar flutti hann í nýbyggt hús Iðnaðarmannafélagsins við Vonarstræti. Skólastjóri var Jón Þorláksson, verkfræðingur og síðar athafnasamur borgarstjóri, en Þórarinn B. Þorláksson, myndlistarmaður var ráðinn fastur teiknikennari. Þórarinn varð víðfrægur fyrir túlkun sína á íslenskri náttúru í myndum sínum. Kennt var á kvöldin og að loknum 12–13 stunda vinnudegi iðnnema þeirra tíma. Skólaárið 1929–1930 voru nemendur orðnir 295 í 26 iðngreinum og hófst þá kennsla í dagskóla í fyrsta sinn. Á kreppuárunum milli 1930 og 1940 fækkaði iðnnemum og haustið 1939 eru þeir 224 í 33 iðngreinum.

 

Fjölgun í iðnnámi og þróun kennslunnar

Hús Tækniskólans Skólavörðuholti

Fjöldi iðnnema margfaldaðist á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Skólaárið 1942-1943 eru nemendur orðnir 571 í 43 iðngreinum, eða nærri 200 fleiri en árið á undan. Er þetta mesta fjölgun nemenda milli ára sem um getur í sögu skólans. Árið 1955 hófst kennsla í nýjum húsakynnum á Skólavörðuholti og var það táknrænt fyrir þá miklu efnahagslegu endurreisn sem varð á þeim árum í íslensku atvinnulífi. Í lok sjöunda áratugarins hóst nýr kafli í sögu skólans þegar stofnsettar voru fyrstu verknámsdeildirnar. Fram að því höfðu iðnmeistarar séð um alla verklega kennslu.

Árið 1982 var tekið upp áfangakerfi við skólann og námsefni í almennu bóknámi samræmt því sem kennt var í öðrum framhaldsskólum. Kennsla hófst í Meistaraskóla á vorönn 1963. Árið 1985 var stofnuð tölvubraut við skólann og hönnunarbraut 1995. Fyrstu stúdentarnir voru útskrifaðir frá Iðnskólanum í Reykjavík 1989. Grunnnám upplýsinga- og fjölmiðlagreina hófst haustið 2000 og leita margir nemendur inn á það svið. Um helmingur nemenda skólans stundar nám á þessum þrem brautum skólaárið 2001–2002. Leiðir iðnnema til framhaldsnáms á æðri skólastigum og til endurmenntunar hvenær sem er á starfsævinni eru orðnar mun greiðari en áður var. Þróun Iðnskólans í Reykjavík endurspeglar nú sem áður þróun íslensks atvinnulífs. Iðnskólinn í Reykjavík heldur í heiðri og viðheldur fagþekkingu rótgróinna iðngreina og mótar námsleiðir þar sem ný atvinnutækifæri eru að skapast.

 

Nám og atvinnulíf

Sérstaða Iðnskólans í Reykjavík fólst í nánum tengslum skólans við atvinnulífið í landinu á hverjum tíma og markvissum undirbúningi nemenda til ákveðinna starfa. Iðnskólinn í Reykjavík hefur verið eins konar móðurskóli handverks og iðnmenntunar í landinu allt frá stofnun hans og á síðustu áratugum brautryðjandi í kennslu í tölvufræðum á framhaldsskólastigi.

Meginmarkmið og stefna Iðnskólans í Reykjavík var að veita menntun sem samtímis var sniðin að þörfum nemenda og atvinnulífs, auðga líf einstaklinganna og efla samfélagið. Sýn starfsmanna Iðnskólans í Reykjavík á starf skólans og menntastefna var í samræmi við þetta. Einkunnarorð skólans voru að mæta nemandanum þar sem hann væri staddur og að bjóða trausta menntun í framsæknum skóla.

Frekari fróðleik um sögu Iðnskólans í Reykjavík má finna í Iðnskóli í eina öld, Iðnskólinn í Reykjavík 1904–2004, samantekin af Jóni Ólafi Ísberg.